Friðland Svarfdæla
Í desember 2020 voru veittir styrkir úr stefnumótandi byggðaáætlun til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. SSNE vann umsóknir fyrir hönd átta verkefna þar sem þrjú þeirra hlutu styrk fyrir alls 56 m.kr. Verkefnið Friðlandsstofa – anddyri Friðlands Svarfdæla í Dalvíkurbyggð var eitt af þessum verkefnum.
Verkefnið snýr að því að endurnýja húsnæði Gamla skólans í Dalvíkurbyggð og stofna Friðlandsstofu með aðkomu Dalvíkurbyggðar og Umhverfisstofnunar. Friðlandsstofa verði fræðslusetur og aðsetur starfsmanns Friðlandsins. Byggðasafn Dalvíkurbyggðar mun einnig flytja í Gamla skólann og einnig verður sett upp fuglasýningu sem hefur verið í geymslu í nokkur ár. Töluverð vinna hefur verið lögð í að finna starfsemi sem hentar inn í húsnæðið til að koma því í notkun aftur og er Friðlandsstofa sprottin af þeirri hugmyndavinnu.
Fuglafriðlandið er það elsta á landinu og hefur verið byggt mikið upp undanfarið með bættu aðgengi, göngustígum, göngubrúm, fuglaskoðunarhúsum og fuglaskoðunarstígum.
„Styrkveitingin gefur okkur í Dalvíkurbyggð byr undir báða vængi og erum við þakklát SSNE fyrir samstarfið. Nú hefst uppbygging anddyris Friðlandsstofu, flutningur Byggðasafnsins og einnig endurbygging Gamla skóla, verkefni sem hefur setið á hakanum í nokkur ár“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð.
07.09.2021