Raufarhöfn og framtíðin
Raufarhöfn var fyrsta verkefnið í Brothættum byggðum og hófst á árinu 2012. Íbúaþing var haldið í upphafi árs 2013 og var verkefninu gefið nafnið Raufarhöfn og framtíðin. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2017 en síðan þá hefur SSNE og Norðurþing verið með starfandi atvinnu og samfélagsfulltrúa starfandi á staðnum, sem unnið hefur áfram að verkefnum.
Fyrsti íbúafundur í verkefninu sem hlaut nafnið „Raufarhöfn og framtíðin“ var haldinn í október 2012. Haldið var íbúaþing í janúar 2013 og farið var yfir skilaboð íbúaþingsins og hvernig þeim yrði fylgt eftir á íbúafundi í febrúar sama ár. Þátttaka á íbúafundum á Raufarhöfn var mjög góð, t.d. tók ríflega þriðjungur íbúa þátt í íbúaþinginu í upphafi verkefnis. Íbúafundir voru haldnir í október 2015, febrúar 2017 og janúar 2018.
Alls voru 15 málaflokkar til umræðu á þinginu. Þar vó þyngst óskin um aukinn byggðakvóta, því næst efling ferðaþjónustu, svo ráðstöfun og uppbyggingu húsa og lóðar sem áður voru í eigu SR og loks atvinnumál almennt.
Meginmarkmið verkefnisins sem unnið er eftir:
Raufarhöfn og framtíðin
- Sérstæður áfangastaður
- Traustir grunnatvinnuvegir
- Blómstrandi menntun
- Öflugir innviðir
Raufarhöfn er nyrsta kauptún landsins, íbúafjöldi er rétt innan við 200. Á Raufarhöfn er öll grunnþjónusta til staðar, sjávarútvegur er áberandi og ferðaþjónusta ört vaxandi grein. Árlega koma 22-24 þúsund gestir í Heimskautsgerðið. Saga þorpsins nær aftur til miðalda, höfnin er einstaklega góð og aðgengileg frá náttúrunnar hendi. Staðurinn varð löggildur verslunarstaður árið 1833. Upp úr miðri 20. öld varð Raufarhöfn einn af stærstu síldarbæjum á Íslandi. Þá var mikill uppgangur, – allt að 11 síldarsöltunarstöðvar starfandi samtímis og yfir 2000 manns sem höfðu aðsetur á Raufarhöfn yfir vertíðina á sumrin. Náttúruleg höfn er varin klettahöfða, Höfðanum, sem teygir sig austur í Íshafið. Framundan Höfðanum, stendur áberandi stakur klettahöfði, Hólminn, og skilur sund á milli þeirra. Raufin aðskilur Höfðann og Hólmann, og dregur staðurinn nafn sitt, Raufarhöfn. Raufarhöfn er barngott og vinalegt samfélag, þar sem hver og einn íbúi skiptir miklu máli.
Verkefnisstjórar:
Kristján Þ. Halldórsson frá Kópaskeri var ráðinn verkefnisstjóri á Raufarhöfn frá mars 2013 og starfaði út júní 2014. Vorið 2015 var Silja Jóhannesdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið og í ársbyrjun 2016 tók hún einnig við verkefnisstjórn fyrir verkefnið í Öxarfjarðarhéraði. Silja mótaði ásamt verkefnisstjórninni framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið og kynnti íbúum og fékk samþykki þeirra.
Verkefnastjórn
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings
Birna Björnsdóttir f.h. íbúa Raufarhafnar
Júlíus Helgason f.h íbúa Raufarhafnar
Einar Sigurðsson f.h íbúa Raufarhafnar (síðar)
Nanna Steina Höskuldsdóttir f.h íbúa Raufarhafnar (síðar)
Kristján Þ. Halldórsson frá Byggðastofnun
Sigríður K. Þorgrímsdóttir frá Byggðastofnun