Fara í efni

Ársskýrsla 2024

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA

Árið 2024 var markvert starfsemi SSNE, þar sem sérstök áhersla var lögð á aukinn sýnileika, samráð, nýsköpun og þróun samfélaga á Norðurlandi eystra. Rekstur félagsins tókst almennt vel á árinu, en framlög sveitarfélaganna lækkuðu töluvert á árinu vegna þess að á árinu tókst að ljúka áralöngu deilumáli við Vegagerðina vegna almenningssamgangna sem hýst voru á sínum tíma hjá Eyþingi.

Nokkrar breytingar urðu á starfsmannahópnum á árinu. Smári Jónas Lúðvíksson og Kristín Helga Schiöth hurfu til annarra starfa á fyrri hluta ársins, og Romi Schmitz lauk störfum við verkefnið Betri Bakkafjörður í lok árs, en verkefninu lauk þá eftir að hafa verið í gangi frá árinu 2019. Það er viðeigandi að nýta þetta tækifæri og þakka þeim öllum fyrir óeigingjarnt starf í þágu SSNE og landshlutans alls á þeim tíma sem þau störfuðu fyrir samtökin. Þá kom Sigurborg Ósk Haraldsdóttir til starfa á fyrri hluta ársins, en hún steig inn í umhverfismálin hjá SSNE og Þorleifur Kr. Níelsson kom til starfa í desember en hann heldur utan um nýtt verkefni hjá SSNE sem er að vinna að stofnun svæðisbundins farsældarráðs á Norðurlandi eystra. Verkefnið er unnið að tilstilli mennta- og barnamálaráðuneytisins í samstarfi við sveitarfélögin á Norðurlandi eystra. Þá hóf Gunnar Már Gunnarsson störf í upphafi árs sem verkefnisstjóri innviðauppbyggingar í Langanesbyggð sem unnið er í samstarfi við innviðaráðuneyti og Langanesbyggð.

Í desember flutti SSNE á Akureyri starfsemi sína í Skipagötu 9 á Akureyri eftir að hafa verið tímabundið staðsett í Strandgötu 31. Húsnæðið í Skipagötu hefur tekið vel á móti okkur og þar er tekið vel á móti gestum eins og á öðrum starfsstöðvum okkar víðsvegar um landshlutann.

Vinna við nýja Sóknaráætlun landshlutans var einkennandi á árinu 2024 en þrír verkefnastjórar SSNE leiddu vinnuna sem heppnaðist ákaflega vel. Fjölmargir íbúafundir voru haldnir og setti vinnan við Sóknaráætlunina mark sitt á bæði ársþing og haustþing samtakanna á árinu. Samhliða vinnunni var lögð áhersla á aukinn sýnileika SSNE og starfsemi samtakanna og varð umtalsverð aukning á bæði fréttum á heimasíðunni og virkni á samfélagsmiðlum.

Árið 2024 undirstrikaði á margan hátt mikilvægi þess að vera með skýra sýn og öfluga byggða- og atvinnuþróun í samstarfi við sveitarfélög, stofnanir og atvinnulíf. Með nýrri Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025-2029, auknu samtali við samfélagið og metnaðarfullum verkefnum, er framtíðarsýn okkar skýr. Grunnurinn að starfi okkar er þó alltaf starfsfólkið okkar og lýk ég því þessu ávarp á að þakka starfsfólki SSNE fyrir þeirra mikilvæga og dýrmæta framlag á árinu 2024. 

Með kærri kveðju
Albertína Friðbjörg

 

UM SSNE

Starfsemi SSNE er á fimm starfsstöðvum: Húsavík, Akureyri, Raufarhöfn, Fjallabyggð, og Bakkafirði.

Hjá SSNE voru starfandi 13 starfsmenn á árinu 2024. Á fyrri hluta árs hurfu Smári Jónas Lúðvíksson og Kristín Helga Schiöth til annarra starfa, og í lok árs lauk Romi Schmitz störfum sem verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar, en þá lauk jafnframt verkefninu. Gunnar Már Gunnarsson og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir komu til starfa á fyrri hluta ársins og Þorleifur Kr. Níelsson kom til starfa í desember. 

Á árinu var undirritað samkomulag við mennta- og barnamálaráðuneyti um farsæld barna. Verkefnið snýr að því að koma á fót svæðisbundnu farsældarráði í landshlutanum í virku samráði við sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og þjónustuveitendur farsældar á svæðinu. Markmiðið er að innan tveggja ára hafi svæðisbundið farsældarráð tekið til starfa og unnin hafi verið fyrsta áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára. Þorleifur Kr. Níelsson var ráðinn til að stýra verkefninu fyrir hönd SSNE.

Haldinn var starfsdagur SSNE í apríl en hann var haldinn í Hrísey í þetta skiptið. Á starfsdeginum var rætt um vinnustaðinn SSNE og fjölmargt fleira, en stóðu þó upp úr móttökurnar í Hrísey sem voru einstakar og er óhætt að mæla með því að taka starfsdag í eyjunni.

Eitt af verkefnum SSNE er hagsmunagæsla fyrir hönd landshlutans, sem felst meðal annars í því að funda reglulega með þingmönnum kjördæmisins og að senda inn umsagnir um lagafrumvörp eftir því sem stjórn ákveður. Þá aðstoðar starfsfólk SSNE við skipulagningu kjördæmaviku þingmanna kjördæmisins í samstarfi við Austurbrú og fyrsta þingmann kjördæmisins. Á síðasta ári voru einnig haldnir reglulegir fjarfundir með þingmönnum kjördæmisins og Austurbrú þar sem fjallað var um hagsmunamál kjördæmisins sem efst voru á baugi hverju sinni.

Þá hafa verið haldnir reglulega fundir framkvæmdastjóra SSNE með sveitarstjórum landshlutans, og starfsfólki sveitarfélaganna og verkefnastjórum SSNE eftir því sem við á í ólíkum málaflokkum. Að auki hefur komist hefð á að framkvæmdastjóri SSNE ásamt staðgengli fari og hitti bæjarráð/sveitarstjórnir í landshlutanum til að kynna það sem efst er á baugi hverju sinni í starfsemi samtakanna. 

Stjórn SSNE

Stjórn SSNE skipa fulltrúar frá öllum aðildarsveitarfélögum samtakanna. Í stjórn SSNE sátu:

Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar, Guðjón Ólafsson, Katrín Sif Ingvarsdóttir, Axel Grettisson, Hilda Jana Gísladóttir, Hermann Ingi Gunnarsson, Þórunn Sif Harðardóttir, Þröstur Friðfinnsson, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, og Helena Eydís Ingólfsdóttir. Fyrri hluta árs sat Sigurður Þór Guðmundsson í stjórn fyrir hönd Langanesbyggðar, en í september kom Þorsteinn Ægir Egilsson inn í hans stað, og í nóvember kom Mirjam Blekkenhorst inn í stað Þorsteins.

Allar fundargerðir stjórnar SSNE, fagráða og úthlutunarnefndar eru aðgengilegar hér á heimasíðu SSNE. Stjórn SSNE fundar alla jafna í fjarfundi, en reynt er að halda staðfundi tvisvar sinnum á ári. Á síðasta ári var haldinn staðfundur stjórnar í Hörgársveit í nóvember þar sem fulltrúar Hörgársveitar tóku vel á móti stjórninni og kynntu meðal annars fræðslustarfsemi sveitarfélagsins. 

Skýrslar stjónar

Stjórn SSNE horfir til baka á árangursríkt ár þar sem unnið var að fjölbreyttum verkefnum en segja má að árið hafi einkennst af vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025-2029. Stjórn lagði frá upphafi áherslu á að ný sóknaráætlun yrði unnin í víðtæku samráði við íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu og að aðkoma sveitarstjórnarfólks væri mikil. Bæði ársþing okkar, sem haldið var í félagsheimilinu Skjólbrekku í Þingeyjarsveit, og haustþing, sem að þessu sinni var haldið á Akureyri, snérust að miklu leyti um vinnu sveitarstjórnarfólks landshlutans að áætluninni. Að auki voru haldnir 15 íbúafundir víðsvegar um landshlutann, auk rafrænna kynninga. Áætla má að um 350 einstaklingar hafi tekið þátt í vinnunni sem þýðir að samhliða átti sér stað heilmikil kynning á starfsemi SSNE og þjónustunni sem þar er í boði. Áframhaldandi áhersla er að hálfu stjórnar á kynningu á starfsemi samtakanna, sem og á enn aukið samtal við atvinnulíf landshlutans og sterkari rödd landshlutans út á við á næsta ári.

Stjórn SSNE hefur mikilvægu hlutverki að gegna hvað varðar framkvæmd Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og tekur það hlutverk sitt alvarlega. Þannig staðfestir stjórn alltaf úthlutunartillögu Úthlutunarnefndar Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og fjallar um tillögur að áhersluverkefnum Sóknaráætlunar hvers árs. Á síðasta ári samþykkti stjórn 16 verkefni sem hlutu alls tæpar 75 milljónir króna. Þetta voru fjölbreytt verkefni, allt frá menningartengdum verkefnum, til verkefna á sviði umhverfismála og atvinnuþróunar. Á heimasíðu SSNE er að finna aðgengilegar upplýsingar um áhersluverkefni hvers árs sem áhugavert er að kynna sér

Stjórn SSNE fundar alla jafna í fjarfundi, en reynt er að halda staðfundi tvisvar á ári – um mitt ár og í lok árs. Vegna veðurs í júní var þó aðeins haldinn einn staðfundur á árinu 2024 og var hann í þetta skiptið haldinn á Þelamörk í Hörgársveit. Það er bæði gott og gagnlegt fyrir stjórnarfólk að hittast og var þessi staðfundur engin undantekning þar á. Stjórn nýtti að þessu sinni tækifærið og heimsótti grunn- og leikskóla sveitarfélagsins.

Með hverju árinu sem líður finnum við æ sterkar hversu mikilvægt samstarf sveitarfélaganna á svæðinu er og vonandi ber okkur gæfa til að halda áfram að efla það í framtíðinni.

Stjórn SSNE þakkar framkvæmdastjóra, starfsfólki, Úthlutunarnefnd Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, fagráðum, sveitarstjórnum og íbúum fyrir ómetanlegt framlag þeirra til starfsemi samtakanna á árinu 2024. Verkefni ársins eru vitnisburður um þann kraft, samstöðu og frumkvæði sem einkenna Norðurland eystra. Samstarf er lykillinn að árangri – og árangur SSNE árið 2024 var sannarlega sameiginlegur. 

Sýnileiki og miðlar SSNE

Sýnileiki SSNE á starfssvæðinu er mikilvægur og hefur starfsfólk lagt sig töluvert fram um að halda viðburði og sækja viðburði á starfssvæðinu.

Heimasíða SSNE (www.ssne.is) er þungamiðja í miðlun upplýsinga og gegnir lykilhlutverki í öllu kynningarstarfi samtakanna. Á vefnum er til gott safn gagnlegra upplýsinga, t.a.m. um starfsemina, fundargerðir, reglur og samþykktir, styrkjaumhverfið og fréttum af innra starfi og því helsta sem í gangi er hverju sinni. Þar er einnig hægt að panta viðtal við atvinnuráðgjafa og skrá sig á póstlista fréttabréfs SSNE. Birtar voru 200 fréttir á árinu, auk þess sem fjöldi viðburða og umsóknarfresta voru kynntir. Farið var í breytingar á heimasíðunni á árinu til að gera hana notendavænni og til að auka sýnileika þeirra frétta sem birtar eru.

SSNE heldur úti Facebook síðu, en á henni eru um 1800 fylgjendur. Síðan er notuð til að draga inn umferð á heimasíðu SSNE og er fréttum meðal annars deilt þangað inn í þeim tilgangi. Jafnframt er Facebook síðan notuð til að deila myndum og öðru efni af fundum og fyrirlestrum sem SSNE tekur þátt í. SSNE notast einnig töluvert við viðburðaeiningu Facebook til að kynna viðburði á sínum vegum enda fá slíkir viðburðir oft góða dreifingu.

Instagram síða SSNE er almennt notuð til að koma á framfæri auglýsingum og upplýsingum um viðburði og fundi sem SSNE heldur eða tekur þátt í. Þar eru rúmlega 800 fylgjendur sem fylgjast með uppfærslum síðunnar.

SSNE heldur úti Youtube rás en tilgangur hennar er einungis að geyma upptökur og myndbönd svo hægt sé að deila þeim á öðrum miðlum. Þá voru myndbönd sem tengjast áhersluverkefninu Aukinn sýnileiki Norðurlands eystra vistuð inn á youtube rás samtakanna, en þau myndbönd má finna hér.

Haldið hefur verið úti mánaðarlegu fréttabréfi þar sem dregnar eru saman helstu fréttir líðandi mánaðar, en einnig er birtur pistill frá framkvæmdastjóra í hverju fréttabréfi. Yfir 260 aðilar eru skráðir á fréttabréfalista SSNE.

Starfsfólk SSNE heimsótti tuttugu fyrirtæki og stofnanir árið 2024 sem er nokkuð minna en árin á undan, en áhersla þessa árs var á samtöl vegna nýrrar Sóknaráætlun Norðurlands eystra og fór því minna fyrir þessum hefðbundnu fyrirtækjaheimsóknum. Aukinn kraftur verður settur í þær á árinu 2025. Fyrirtækjaheimsóknir hafa frá upphafi verið reglulegur þáttur í starfi SSNE, en þar fræðist starfsfólk SSNE um fyrirtækin og kemur að sama skapi á framfæri upplýsingum um starfsemi og þjónustu SSNE við atvinnulífið, sem og mögulega styrkjamöguleika.

BYGGÐAÞRÓUN

Stuðla að jákvæðri byggðaþróun og standa vörð um hagsmuni jaðarbyggða

Eitt af stærstu verkefnum SSNE er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun og standa vörð um hagsmuni jaðarbyggða. Þannig leggja samtökin áherslu á að styðja við verkefni innan Byggðaáætlunar, Sóknaráætlunar og verkefni innan Brothættra byggða, þar sem markvisst er unnið að því að stuðla að öflugu atvinnulífi og að gera landshlutann að samkeppnishæfum valkosti, bæði til atvinnu og búsetu.  

Betri Bakkafjörður

Í lok árs 2023 lét Gunnar Már af störfum sem verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar og var Romi Schmitz sem búsett er á Þórshöfn ráðin í hans stað. Hún kom til starfa í byrjun árs 2024.

Í upphafi árs fór fram úthlutun styrkja úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar fyrir árið 2024. Alls bárust 14 umsóknir að heildarupphæð 23 m.kr., en sjóðurinn hafði til ráðstöfunar 10,5 m.kr. sem úthlutað var til 12 verkefna, sjá nánar hér. Auk þeirra verkefna hafa Bakkfirðingar og sveitarfélagið Langanesbyggð sótt um styrki til ýmissa uppbyggingarverkefna í aðra sjóði. Meðal þeirra styrkja sem verkefnið hlaut var styrkur upp á 12,5 m.kr. úr C.01 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða sem Langanesbyggð fékk fyrir verkefnið Samfélagsmiðstöð á Bakkafirði. Langanesbyggð hlaut einnig styrk úr Uppbyggingarsjóði að upphæð 1,5 m. Kr. fyrir verkefnið Velkomin til hafnar! og úr Barnamenningarsjóði upp á tæpar 1,5 m.kr. fyrir verkefnið Tungubrestur og listsköpun. Verslunin á Bakkafirði fékk styrk að upphæð 1,5 m.kr. á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar. Að endingu hlutu þrjú verkefni Bakkfirðinga og eitt verkefni Langanesbyggðar styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands á árinu 2024.

Venju samkvæmt var haldinn íbúafundur í október í tengslum við verkefnið Betri Bakkafjörð. Þar fór verkefnisstjóri yfir það helsta í verkefnum sem unnið hafði verið að frá síðasta íbúafundi sem haldinn var árið áður. Oddviti sveitarstjórnar, Sigurður Þór Guðmundsson, fór yfir framtíðarsýn Langanesbyggðar varðandi framhald verkefnisins eftir að Byggðastofnun dregur sig í hlé úr verkefninu. Þar lagði hann áherslu á samheldni og samtakamátt íbúa og að sveitarstjórn Langanesbyggðar sé staðráðin í að standa vel við bakið á samfélaginu með því m.a. að ráða starfsmann á staðinn til að fylgja árangri Betri Bakkafjarðar eftir. Verkefnisstjóri og Hildur Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá SSNE, stýrðu síðan umræðum um framtíð Bakkafjarðar í vinnuhópum.

Auk hefðbundinna starfa tók verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar þátt í ráðstefnunum Generation North Atlantic og Generation Barents 2024 í Bodø, Noregi þar sem skapaðar voru tengingar við aðila frá svipuðum aðstæðum. Unnið var að þróun fjölbreyttra hugmynda og horft til fyrirmynda, þar á meðal frá Norður-Noregi. Verkefnisstjóri telur mikilvægt að einbeita sér í framhaldi verkefnisins að auðlindunum og styrkleikum staðarins og byggja framtíðarstefnu á því. Hún telur skynsamlegt fyrir sveitarfélagið að snúa sér að ákveðinni markaðssetningu sem gengur út á að laða ákveðinn markhóp að staðnum, sem kann að meta kyrrð, fegurð náttúrunnar og rólegt umhverfi, vill nota það til sköpunar og veitir staðnum ferskleika og jákvæð viðhorf. Slík markaðssetning mætti tengjast nýju fjarvinnurýmunum og nýtingu þeirra. Byrjað er að vinna að nýrri starfsstöð á Bakkafirði á vegum sveitarfélagsins, og liggja einnig fyrir ákveðin verkefni, svo sem að flokka og varðveita gögn, koma framlengingu þjónustumiðstöðvar fyrir á Bakkafirði og halda áfram að vinna í samráði við íbúana að jákvæðri þróun Bakkafjarðar.

Innviðauppbygging í Langanesbyggð

Í upphafi árs skrifuðu Langanesbyggð og SSNE undir samning um framkvæmd verkefnisins Innviðauppbygging í Langanesbyggð. Innviðaráðuneytið styrkir verkefnið til tveggja ára, en markmið þess er að styðja við efnahagslega uppbyggingu Langanesbyggðar með því að skilgreina tækifæri og framtíðarsýn hvað varðar uppbyggingu innviða og atvinnusköpun. Jafnframt er það markmið samningsins að styðja við nýsameinað sveitarfélag og gera því betur kleift að sækja fram til hagsbóta fyrir íbúa sína. Að þessari vinnu kemur starfsfólk SSNE og starfsfólk Langanesbyggðar. Enn fremur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri til að stýra því en það er Gunnar Már Gunnarsson sem áður sinnti starfi verkefnisstjóra Betri Bakkafjarðar.

Í apríl kom út skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Langanesi, en niðurstöðurnar voru kynntar formlega í ágúst. Tillögur starfshópsins snúa meðal annars að friðlýsingu á hluta Langaness, til dæmis með stofnun þjóðgarðs, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Jafnframt verður hugað að bættu orkuöryggi svæðisins með tillögum sem varða dreifi- og flutningskerfi raforku, jarðhitaleit og aukna orkuöflun innan svæðisins.

Að lokum má nefna að sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti á fundi sínum 20. júní stefnumörkun um uppbyggingu við Finnafjörð þar sem fram kemur framtíðarsýn sveitarfélagsins, sem og markmið og leiðir að þeim. Í stefnunni lýsir sveitarstjórn Langanesbyggðar yfir eindregnum vilja til að vinna áfram að framgangi Finnafjarðarverkefnisins og tekur m.a. jákvætt í þær hugmyndir sem hafa verið uppi um uppbyggingu rafeldsneytisiðnaðar og landeldis í Finnafirði. Stefnuna í heild sinni má nálgast hér. Í kjölfarið skipulagði sveitarstjórn Langanesbyggðar ferð til Norð-austurbotns Finnlands, til að kynna sér þróun vindorkuvera á þessum norðlægu slóðum og skoða hvaða áhrif sú uppbygging hefur haft á samfélög þar. Ferðin var skipulögð í samstarfi við sendiráð Íslands í Finnlandi og tók sendiherrann, Harald Aspelund, á móti hópnum og fylgdi honum hluta ferðarinnar. Markmið fararinnar var að efla þekkingu og skilning á vindorku og framleiðslu rafeldsneytis og möguleikum þess.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036

Árið 2024 fengu tvö verkefni úthlutað 27,5 milljónum úr Byggðaáætlun, en úthlutað var til sértækra verkefna á Sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1).

Verkefnin sem fengu styrk voru: 

Samfélagsmiðstöð á Bakkafirði – nýtt hlutverk skólans sem vinnu- og samverurými. Búa á til klasasetur í hluta skólahúsnæðis og auka þjónustu við heimamenn. Sköpuð verður aðstaða til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, efla fjarnám og gefa samastað fyrir samkomur og viðburði. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð kr. 12.500.000.

Lýsistankarnir á Raufarhöfn. Gera á lýsistankana á Raufarhöfn manngenga og mögulega til notkunar fyrir kvikmyndagerð, tónleika og menningarviðburði. Tankarnir eru sagðir einstakir og hafa sögulegt gildi. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð kr. 15.000.000.

 

Bæta samgöngur innan landshlutans sem og til landshlutans

Ein af áherslum SSNE eru bættar samgöngur innan landshlutans sem og til landshlutans. Eitt af þeim áhersluverkefnum sem tengist því var rannsókn um samfélagsleg áhrif af beinu millilandaflugi á Norðurlandi. Rannsóknin sem styrkt var af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands sýndi veruleg jákvæð áhrif af beinu millilandaflugi frá Akureyri. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að gott aðgengi að ódýrum og þægilegum flugsamgöngum hefur jákvæð áhrif á framleiðni, viðskipti, tekjur, neyslu og einkafjárfestingu á áhrifasvæði viðkomandi flugvalla. 

Innviða- og samgöngustefna Norðurlands eystra var samþykkt haustið 2023 og hefur hún nýst vel í samtölum við ríkið og Vegagerðina, sem og í umsögnum vegna meðferðar þingmála á Alþingi, eins og t.d. í umfjöllun þingsins um nýja samgönguáætlun sem þó var ekki samþykkt. Í stefnunni er komið inn á fjölmarga þætti eins og styttingu leiða, vetrarþjónustu, og mikilvægi þess að halda áfram uppbyggingu innanlandsflugs um bæði Akureyrarflugvöll og Aðaldalsflugvöll, en blikur hafa verið á lofti varðandi áframhaldandi flug til Húsavíkur. 

Betri flugsamgöngur auka jafnframt lífsgæði íbúanna með margvíslegum hætti, svo sem með betra aðgengi að sérhæfðari þjónustu, fleiri möguleikum á orlofs- og skemmtiferðum og auknum samskiptum við fjarlæga vini og fjölskyldu og stuðla að fólksfjölgun á viðkomandi svæðum. Verkefni eins og Loftbrúin skipta því miklu máli fyrir íbúa utan höfuðborgarsvæðisins, en hún veitir 40% afslátt af heildarfargjöldum fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er þó að fargjöld í innanlandsflug fyrir fyrirtæki og stofnanir geta verið verulega íþyngjandi.

Árið 2024 tilkynnti breska flugfélagið easyJet að það muni bjóða upp á flug frá bæði London Gatwick og Manchester til Akureyrar, þá lengdi easyJet jafnframt flugtímabilið og auka þannig millilandaflug félagsins. Ljóst er að þessi aukna tenging Norðurlandsins erlendis hefur haft jákvæð áhrif á fjárfestingar og uppbyggingu í ferðaþjónustu utan háannatíma. 

Svæðisborgin Akureyri

Starfshópur innviðaráðuneytisins um borgarstefnu lauk störfum og skilaði af sér tillögum til innviðaráðherra á árinu og mun ráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um borgarstefnu á Alþingi á næsta ári.

Með borgarstefnu er markmiðið að styðja við þróun borgarsvæða sem drifkraft velsældar, fjölbreyttari búsetukosta og aukinnar samkeppnishæfni landsins. Tillagan gerir ráð fyrir að tvö borgarsvæði verði skilgreind á Íslandi. Í því felst annars vegar að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur, höfuðborgarsvæðið og áhrifasvæði þess. Hins vegar að festa Akureyri í sessi sem svæðisborg og skilgreina og efla hlutverk hennar og áhrifasvæði.

Í starfshópnum sátu Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL, sem var formaður hópsins, Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum störfuðu Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Samstarf sveitarfélaga  

SSNE stóð fyrir málþingi undir nafninu “Út um borg og bý” þar sem fjallað var um samstarf sveitarfélag og aðdráttaafl þeirra .
Málþingið var upptaktur fyrir vinnu hjá SSNE þar sem rýnt verður í verkefni sveitarfélaga og samvinna aukin. Málþingið var vel sótt og má nálgast erindi þess hér

Menntamál

Ein af áherslum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra er að efla aðgengi og fjölbreytni í námsframboði á öllum skólastigum, þá ekki síst með áherslu á list-, tækni og verknám. Á árinu kom SSNE m.a. að því að styðja við gerð samnings milli ríkis og sveitarfélaganna í Eyjafirði um stækkun VMA, en samningur um stækkunina var undirritaður í maí.

 

SÓKNARÁÆTLUN NORÐURLANDS EYSTRA

Um Sóknaráætlun – eftirfylgni hennar

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim kemur fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í Sóknaráætlunum landshluta skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun. 

Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024 rann sitt skeið á árinu. Eftirfylgni hennar hefur gengið vel og góður árangur hefur sést m.a. í umhverfiskaflanum, sem var nýr flokkur í henni. Mikil aukning hefur verið í verkefnum með umhverfisáherslum í Uppbyggingarsjóði, auk þess sem 3-4 áhersluverkefni hafa verið unnin sem snúa beint að umhverfismálum á hverju ári. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið tilkynnti á árinu um ákvörðun sína að segja fjármagn beint í nýjar Sóknaráætlanir landshlutanna, en áður hafði ráðuneytið notað viðaukasamninga við Sóknaráætlun og komið þannig beint að vali á verkefnum. Með þessari ákvörðun hafa landshlutarnir meira um það að segja hvernig verkefni verða fyrir valinu.

Ný Sóknaráætlun var unnin á árinu sem litaði starf SSNE töluvert. Ólíklegt er að sú vinna hafi farið framhjá nokkrum manni þar sem 15 opnar vinnustofur voru haldnar um starfssvæðið. Þá fór vinna við hana fram á tveimur þingum SSNE, auk þess haldnar voru rafrænar kynningar. Einnig var hægt að senda inn tillögur í gegnum heimasíðu og samfélagsmiðla SSNE. Áætla má að um 350 manns hafi tekið þátt í vinnunni. Í lok árs var ný Sóknaráætlun Norðurlands eystra send til sveitarfélaganna til umfjöllunar, en hún var að lokum samþykkt á aukaþingi SSNE í janúar 2025 og má finna hana hér.

Samráðsvettvangur Sóknaráætlunar

Samkvæmt samningi um Sóknaráætlun ber SSNE að starfrækja samráðsvettvang. Þátttakendur í samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra hafa beina aðkomu að gerð Sóknaráætlunar fyrir landshlutann, en samráðsvettvangurinn var virkjaður í lok árs 2022. Með samráðsvettvanginum er stuðlað að því að ólíkar raddir frá ólíkum hópum og svæðum landshlutans hafi áhrif á Sóknaráætlunina og framgang hennar sem SSNE starfar eftir.

Í samráðsvettvangnum situr fjölbreyttur hópur. Þar má finna fólk á öllum aldri og af ólíkum kynjum sem hafa reynslu af ólíkum sviðum mannlífsins. Samráðsvettvangurinn samanstendur af fólki úr atvinnulífinu, fræðasamfélaginu, fólki sem hefur tengsl við félagasamtök, starfsmönnum og fulltrúum opinberra stofnana, kjörnum fulltrúum, ungmennum og af erlendum uppruna. Öll geta óskað eftir sæti í samráðsvettvangnum og er einfalt að skrá sig hér.

Samráðsvettvangurinn fundaði tvisvar á árinu 2024 í fjarfundi. Á fundunum var farið yfir vinnu við nýja Sóknaráætlun, fólk hvatt til þátttöku í opnum vinnustofum og á seinni fundinum teknar umræður um drög að nýrri Sóknaráætlun. 

Fagráð

SSNE starfrækir þrjú fagráð sem starfa á grundvelli samþykkta SSNE. Fulltrúar í fagráðum er skipaðir af ársþingi til tveggja ára í senn samkvæmt tillögum stjórnar og rann skipunartími þeirra út í árslok 2024. Tilgangur fagráðanna er að benda á sóknarfæri á sviði atvinnu-, nýsköpunar-, menningar- og umhverfismála sem efla munu landshlutann. Fagráðunum er jafnframt ætlað það hlutverk að koma með tillögur að verkefnum, og sértækum eða tímabundnum áherslum Uppbyggingarsjóðs í samráði við úthlutunarnefnd.  

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar er skipað:
Thomas Helmig, formaður fagráðs, Norðurþing
Sigríður Róbertsdóttir, Eyjafjarðarsveit
Preben Jón Pétursson, Akureyrarbær
Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, Fjallabyggð
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, Þingeyjarsveit

Fundað var einu sinni á árinu og má finna fundargerð ráðsins hér.

Fagráð menningar

Fagráðs menningar er skipað:
Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs, Akureyrarbær
Anita Elefsen, Fjallabyggð
Guðni Bragason, Norðurþing
Kristín Sóley Björnsdóttir, Akureyrarbær
Sigríður Örvarsdóttir, Eyjafjarðarsveit

Fundað var einu sinni á árinu og má finna fundargerðir ráðsins hér.

Fagráð umhverfismála

Fagráð umhverfismála hefur starfað í tvö ár og er skipað eftirfarandi aðilum:
Rut Jónsdóttir, formaður, Akureyrarbær
Ottó Elíasson, Akureyrarbær
Guðmundur Sigurðsson, Akureyrarbær
Salbjörg Matthíasdóttir, Norðurþing
Arnar Stefánsson Fjallabyggð

Fundað var tvisvar á árinu og má finna fundargerðir ráðsins hér.

Uppbyggingarsjóður

Unnið var að áframhaldandi einföldun Uppbyggingarsjóðs á árinu og haldið áfram með þá þróun sem hafin var 2023. Í úthlutunarnefnd sitja samtals 6 einstaklingar, fulltrúar allra fagráða og þrír skipaðir af stjórn SSNE.

Úthlutunarnefnd 2024 vegna úthlutunar 2025:
Hilda Jana Gísladóttir, formaður, skipuð af stjórn SSNE
Thomas Helming, fulltrúi Fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
Kristín Sóley Björnsdóttir fulltrúi Fagráðs menningar
Rut Jónsdóttir, fulltrúi Fagráðs umhverfismála
Arnar Þór Stefánsson, skipaður af stjórn SSNE
Halldóra J. Friðbergsdóttir, skipuð af stjórn SSNE

Áður en opnað var fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð var haldið stutt námskeið fyrir alla starfsmenn SSNE þar sem áhersla hefur verið lögð á að allt starfsfólk geti veitt grunnráðgjöf til umsækjenda í sjóðinn. Þá var markvisst unnið í því að auka ráðgjöf til þess að auka gæði þeirra umsókna sem koma í Uppbyggingarsjóð.

Ólíkt fyrri árum var ekki sérstök áhersla vegna úthlutunar ársins en í stað fékk tenging við Sóknaráætlun aukið vægi í matsferlinu. Opnað var fyrir umsóknir styrkja þann 11. september og var umsóknarfrestur til 16. október. Alls bárust 147 umsóknir, þar af voru 70 menningarverkefni, 67 atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 10 stofn- og rekstrarstyrkir menningarstofnana. Er það aukning frá fyrra ári þegar 123 umsóknir bárust. Sótt var um fyrir um það bil 267 miljónum en úthlutað var 72,5 milljónum að þessu sinni.

Listi yfir styrk verkefni má finna hér.

Áhersluverkefni

Stjórn SSNE valdi 16 verkefni á árinu sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Heildar styrkur til verkefnanna var 74,7 milljónir króna sem skiptust á eftirfarandi verkefni.

Upptakturinn - Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna – 6.572.620 kr. Markmið verkefnisins eru að stuðla að tónsköpun ungs fólks, hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist og aðstoða þau við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju með fagfólki, auk þess að gefa þeim tækifæri til að upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnutónlistarfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi. Til verða ný tónverk sem flutt verða á tónleikum Upptaktsins í Hofi, auk þess sem þau verða varðveitt með upptöku. Verk ársins voru sýnd á RÚV og má nálgast hér.

Sjálfbær ferðaþjónusta – 1.500.000 kr. Markmið fyrsta áfanga verkefnisins var að kortleggja núverandi stöðu ferðaþjónustu á Norðurlandi þegar kemur að sjálfbærni og var það gert í samvinnu við svissnesku ferða- og ráðgjafastofuna Kontiki. Sú vinna skilaði m.a. fjórum forgangsatriðum sem hægt er að byggja aukna sjálfbærni ferðaþjónustunnar á. Í næstu skrefum verður unnið með tvö þeirra; aukinn hag heimamanna og auknar heilsárstekjur.

Veltek - heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands eystra – 5.000.000 kr. Markmið verkefnisins er að efla nýsköpun í velferðar- og heilbrigðisþjónustu, deila nýsköpunarþekkingu á milli svæða, stofnana og sveitarfélaga. Undirmarkmið er að efla norrænt nýsköpunarsamstarf um velferðartækni og draga norrænt fjármagn inn á svæðið.

LOFTUM - fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál – 5.176.000 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum meðal starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE. Upplýsingar um námskeið má finna hér.

Ungmennaþing Norðurlands eystra – 1.700.000 kr. Markmið verkefnis er að valdefla ungt fólk í landshlutanum, auka tengingu milli sveitarfélaga, skapa samheldni, efla tengslanet og samvinnu ungmenna í landshlutanum. Tilgangur ungmennaþings er jafnframt að hlusta á raddir ungmenna landshlutans; sækja þeirra skoðanir og reynslu þvert á sveitarfélög. Að auki fá þau innsýn í störf og verkefni SSNE. Sérstök áhersla ársins var á lýðræði. Fengu ungmennin þjálfun í að nefndarsetum og störfum á alþingi en jafnframt að skrifa erindi til sveitastjórna og lögðu þau öll inn erindi hvað varðar umferðaröryggi og skipulagsmál í eigin sveitarfélagi. Þá lögðu þau sitt af mörkum hvað varðar verkefnasarp fyrir valda búsetu í landshlutanum eftir 20 ár. Ljóst er að aðgengi að félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum er ábótavant og ungmennum hugleikið. Erindin til sveitastjórna og yfirferð á fyrirlestrum og innleggjum þingsins má finna í skýrslu Ungmennaþings 2024 hér.

Uppspretta – 15.000.000 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að styðja við sveitarfélög svæðisins í umhverfis- og loftslagsmálum og koma tillögum að aðgerðum úr fyrra áhersluverkefni í framkvæmd. Verkefnið byggir á fyrra áhersluverkefni, Spretthópar í umhverfis- og loftslagsmálum, þar sem verkefnastjóri fundaði með sérfræðingum og mótaði tillögur að aðgerðum fyrir svæðið. Spretthóparnir ná yfir svið hringrásarhagkerfis, landnýtingar, náttúruverndar í byggðaþróun og aðlögunar gegn loftslagsbreytingum. Þeir takast því á við allar helstu áskoranir sem blasa við landshlutanum í umhverfis- og loftslagsmálum.

Fiðringur, hæfileikakeppni unglinga á Norðurlandi eystra – 7.900.000 kr. Markmið verkefnisins er að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Að leiðbeina ungmennum í samvinnu, lýðræðislegri hugsun og ákvarðanatöku þegar kemur að því að velja milli hugmynda og gera þær að veruleika. Að skapa vettvang fyrir ungmenni af öllu svæðinu til að halda uppskeruhátíð og flytja verk sín á stóru sviði með öllum leikhústöfrunum. Nokkurs konar ávarp samtímans í beinni. Fyrirmyndir Fiðrings eru hinn árlegi Skrekkur í Reykjavík og Skjálftinn á Suðurlandi. Fiðringur fór fram í Hofi, atriðin voru sýnd á RÚV og eru aðgengileg hér.

Útrýming malarvega – 2.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að kostnaðarmeta framkvæmdir við að malbika malarvegi á Norðurlandi eystra, ræða við stjórnvöld og leita fjármagns til framkvæmdanna. Eitt af því sem fram kemur í samgöngustefna Norðurlands eystra er fjöldi km af malarvegum sem er afar mikill. Hér er komin fram aðgerðaráætlun hvernig megi flýta framkvæmd og tryggja öryggi vegfarenda vegum á Norðurlandi eystra. Verkefnið felur í sér skráningu og flokkun vega, þeir metnir eftir t.d. umferðaþunga, lengd og þörfum. Vinnan verður svo kynnt á íbúafundum og leitað samráðs heimafólks, t.d. á snjóþungum eða hættulegum stöðum.

Aukið samstarf sveitarfélaga – 2.000.000 kr. Málþingið „Út um borg og bý“ var haldið í febrúar þar sem samstarf sveitarfélaga og aðdráttarafl þeirra var rætt. Á meðal erinda voru Aðdráttarafl smærri sveitarfélaga á Norðurlöndunum, Hvernig getur félagsleg sálfræði nýst sem verkfæri í byggðaþróun?, Aðlaðandi bæir – ávinningur af Norrænu samstarfi, Velferðarstefna Vesturlands, Samhæfð svæðaskipan í þágu farsældar barna og Borgarstefna Íslands. Upptökur af erindum má finna hér.

Áfangastaðaáætlun Norðurhjara – 2.000.000 kr. Markmið verkefnisins var að móta sameiginlega sýn Norðurhjara svæðisins fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu. Norðurhjarasvæðið er kalt ferðaþjónustusvæði sem þarfnast framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar í ferðaþjónustu. Greininguna má finna hér.

Eimur – 7.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins. Eimur miðar að því að leiða saman fólk og fyrirtæki til samstarfs um tilraunir, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði orku-, auðlinda-, og loftslagsmála, meðal annars með öflun alþjóðlegs fjármagns. Sjá nánar um Eim hér.

Samfélagsleg áhrif af millilandaflugi á Norðurlandi eystra – 1.000.000 kr. Markmið verkefnisins er að auka skilning á áhrifum millilandaflugs um Akureyrarflugvöll á lífgæði fólks á Norður- og Austurlandi. Niðurstöðurnar munu nýtast við uppbyggingu millilandaflugs og opinbera stefnumótun í flugsamgöngum, stuðla að upplýstri almennri umræðu og auka sérfræðiþekkingu á byggðaáhrifum flugsamgangna.

Saman erum við öflugri, STEM – 2.685.000 kr. Markmið verkefnisins er að bjóða grunnskólakennurum á Norðurlandi eystra upp á fagþjálfun, stuðning og valdeflingu í tengslum við kennslu STEM greina. Lokaafurð verkefnisins er tvíþætt: STEM menntabúðir fyrir áhugasama kennara á Norðurlandi eystra þar sem kennarar ganga út með fullbúna innleiðingaráætlun fyrir kennslustofuna og hins vegar lifandi samfélag STEM kennara á netinu sem lifir áfram að verkefni loknu.

Hönnunarþing á Húsavík – 1.500.000 kr. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar og er meginmarkmið hennar að auðga menningarlíf og skapandi störf í byggðum landsins, á sama tíma og hátíðin hvetur og stuðlar að samstarfi fólks og fyrirtækja á sviði hönnunar og nýsköpunar. Hátíðin var haldin í annað sinn og var áhersla ársins á tónlist og margvíslegar birtingarmyndir snertiflata tónlistar, hönnunar og nýsköpunar. Dagskráin var opin öllum og lagt upp með að kynna skapandi störf fyrir ungum sem öldnum. Á dagskránni voru meðal annars erindi frá prófessor við Listaháskóla Íslands, bátahönnuður, hugarheimur Skálmaldar, ný hljóðtækni, stjórnarmanneskja frá Bang & Olfusen, tölvuleikjahönnun CCP, hljóðsköpunarverkstæði fyrir börn og fjölbreyttar tónlistaruppákomur. Nánari upplýsingar má finna hér.

Kornskemman – 8.600.000 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að efla matvælaframleiðslu, auka fæðuöryggi Íslands og sjálfbærni innlendrar matvælaframleiðslu, með uppsetningu þurrkverksmiðju í Eyjafirði. Nýttur er glatvarmi úr samliggjandi borholu og ræktarland í nágrenninu sem þegar er brotið og hentar vel til kornræktar.

Efnahagsleg umsvif á Norðurlandi eystra – 1.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á efnahagsumsvif landshlutans, m.a. með því að kanna hlutdeild Norðurlands eystra í framleiðslu og útflutningi á Íslandi

ATVINNUÞRÓUN OG NÝSKÖPUN

SSNE starfar samkvæmt samningi við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun. Markmið samningsins er m.a. að skapa grundvöll samstarfs um byggðaþróun í samræmi við stefnu Alþingis í byggðamálum, með áherslu á búsetuskilyrði og samkeppnishæfni, nýsköpun- og atvinnuþróunarsamstarf. SSNE gerir m.a. úttekt á möguleikum atvinnulífs á svæðinu og hvernig megi nýta þá sem best.

Samtökin leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífsins, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Félagið miðlar fengnum upplýsingum um starfsemi þessara aðila og vinnur að bættum samskiptum þeirra við atvinnulíf á starfssvæðinu. Samtökin taka þátt í námskeiðahaldi varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja, fjármögnun viðskiptahugmynda o.þ.h. í samstarfi við Byggðastofnun og aðrar stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs og byggðaþróunar.

Með því að stuðla að samstarfi aðildarsveitarfélaga er ekki aðeins verið að styrkja landshlutann og efla samstöðu, heldur einnig verið að skjóta styrkari stoðum undir atvinnu- og byggðaþróun. Markmiðið styður einnig hlutverk SSNE í að „vinna að málum sem eru aðildarsveitarfélögunum sameiginleg innan starfssvæðisins.“

Atvinnuráðgjöf

Atvinnuráðgjöf er viðamikill hluti af starfsemi SSNE og nær samningur Byggðastofnunar yfir þann hluta. Ráðgjöfin nær til einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga og tengist oft verkefnum sem sækja um í Sóknaráætlun og aðra sjóði. Mætti þar sérstaklega nefna sjóði RANNÍS, Barnamenningar, Lóu og Matvælasjóð. Áherslan er á að veita almenna atvinnuráðgjöf og stuðla að nýsköpun og stofnun fyrirtækja og standa fyrir fræðslu.

SSNE hefur lagt áherslu á að kynna þessa þjónustu sína og vekja athygli á henni bæði í kynningum og á sínum miðlum.

Samráðsvettvangur Atvinnulífs

 

Árið 2024 var settur saman nýr samráðsvettvangur atvinnulífsins á Norðurlandi eystra. Tilgangur vettvangsins er að koma á virku samtali milli atvinnulífsins á svæðinu og SSNE, jafnframt verður vettvangurinn nýttur til að miðla upplýsingum og tækifærum er snúa að svæðinu. Haldnir voru tveir fundir fundir með samráðsvettvanginum á síðasta ári. 

Auka fjármagn inn á svæðið í gegnum styrktarsjóði

Unnið hefur verið markvisst að því á árinu að auka sýnileika sjóða á miðlum SSNE, halda vinnustofur og veita ráðgjöf í þeim tilgangi að auka það fjármagn sem kemur inn á Norðurland eystra í gegnum styrktarsjóði á landsvísu, var þar horft jafnt til innlendra og erlendra sjóða.

Sérstaklega var unnið með Rannís að kynningu sjóða bæði rafrænt og með staðfundum á Norðurlandi eystra. Árið hófst með afar vel sóttum staðfundi í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem færri komust að en vildu. Reglulega voru haldnir rafrænir fundir um skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna, Netöryggissjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Menningarstyrkir voru kynntir fyrir ýmsum hópum, auk opinna kynninga kom Evrópurútan við á tveimur stöðum í landshlutanum í haust. 

Auka fjárfestingar á Norðurlandi eystra

Árið 2023 hófst sérstakt áhersluverkefni sem fjármagnað er úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem felst í að vinna með hverju sveitarfélagi fyrir sig og greina þau fjárfestingartækifæri sem eru innan sveitarfélagsins. Verkefnið hélt áfram árið 2024 og hafa fjögur sveitarfélög nú þegar hafið þátttöku í verkefninu og verður unnið áfram með þeim og öðrum sveitarfélögum sem eftir því óska á næsta ári.

Í mars fóru verkefnastjórar frá SSNE í för með Íslandsstofu á fjárfestahátíðinni MIPIM í Cannes að sækja sér þekkingu og kynna möguleg tækifæri fyrir fjárfestum. Í ár er áherslan á grænar lausnir og sjálfbærni. Hér má lesa nánar um þátttakendur og viðburði.

Efla og styðja við nýköpun og frumkvöðlastarf á svæðinu

Í mars var hugmyndahraðhlaupið Krubbur haldið í fyrsta skipti. Markmið þessa nýsköpunarviðburðar var að efla skapandi hugsun, frumkvöðlastarf á sama tíma og unnið var að markmiðum hringrásarhagkerfisins. Krubbur er tveggja daga hugmyndasmiðja, þar sem fyrirlesarar fræða um aðferðir sem nýtast við þróun og framsetningu nýsköpunarhugmynda og þátttakendur vinna að hugmyndum og lausnum við áskorunum sem fyrirtæki á svæðinu leggja til. Í þetta fyrsta skipti var unnið að lausnum sem tengdust betri nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs í Norðurþingi. Áskoranirnar komu frá PCC, Norðurþingi, Íslenska gámafélaginu og Ocean Missions. Um er að ræða samstarfsverkefni með fyrirtækjum á svæðinu og stoðkerfi atvinnulífsins og nýsköpunar, t.d. SSNE, Eim, Norðanátt, Klak, Háskólans á Hólum o.fl.

Í Krubbi var unnið í teymum þar sem þátttakendur deildu þekkingu og reynslu og unnu saman að því að útfæra lausnir við áskorunum sem fyrirtæki á svæðinu kynntu. Teymin fengu ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem gátu aðstoðað þau við að útfæra hugmyndirnar. Um 70 gestir sóttu viðburðinn og voru þátttakendur 30 í 7 teymum. Þátttaka var opin öllum frá 16 ára og spannaði aldursbil þátttakanda um 70 ár, svo þekking og reynsla ólíkra kynslóða spann spennandi vef. Hér má sjá nánari upplýsingar um hugmyndirnar sem voru kynntar á Krubbi 2024. Verkefnið Skynró sem hlaut aðalverðlaun Krubbs hélt vegferð sinni áfram um stoðkerfi nýsköpunar á Norðurlandi eystra og má finna nánari upplýsingar um verkefnið hér

Nordic Bridge

SSNE var þátttakandi í NPA verkefninu Nordic Bridge sem vinnur að því að koma á rafrænum vettvangi þar sem opinberir, einkaaðilar og sveitarfélög geta sett fram bæði sértæk eða almenn vandamál þar sem óskað er eftir innsýn og sérfræðiþekkingu háskólasamfélagsins og er verkefninu ætlað að styrkja tengsl og efla samstarf vísinda og fræða við samfélag og atvinnulíf.

Rannsóknaköll, verkefnasamstarf og nýjungar frá háskólasamfélaginu verða birt í gáttinni til að leita eftir áhuga frá opinberum og einkaaðilum.

Með vefgáttinni verður samstarf háskóla, atvinnulífsins og nærsamfélagsins auðveldara. Í raun er um að ræða sérstakan vettvang þar sem þessir hópar geta kynnst og skipulagt aðgerðir til að leysa vandamál og deila hugmyndum sín á milli.

Ástæða þess að farið var að stað með þetta verkefni er að við höfum þá trú að þegar hæfileikaríkir einstaklingar og reynslumiklir einstaklingar vinna saman verði til betri lausnir við ýmsum vandamálum. Netgáttin gerir það auðveldara fyrir alla að vera með, deila því sem þeir vita og finna leiðir til að gera hlutina betri fyrir framtíðina.

Í haust stóðu SSNE og Háskólinn á Hólum fyrir vinnustofu á Akureyri sem hluti af Interreg verkefninu Nordic Bridge.

Eftirfarandi aðilar standa að þessu undirbúningsverkefni frá þremur NPA löndum:

Frá Noregi:

Frá Finnlandi:

Frá Íslandi:

 

Fjárfestahátíð Norðanáttar Siglufirði

Þriðja árið röð komu allir helstu fjárfestar landsins saman á Siglufirði til fundar við frumkvöðla sem vinna að verkefnum tengdum auðlinda-, orku- og umhverfismálum.

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin í fyrsta skipti árið 2022 en þá var áherslan eingöngu á sprotaverkefni á Norðurlandi. Vegna þess hversu vel tókst til var ákveðið að bjóða og höfða til sprotafyrirtækja hvaðanæva að landinu. Í ár væri engin breyting þar á og voru níu fyrirtæki valin á hátíðina úr hóp fjölda umsókna, þar af eitt gestaverkefni frá Færeyjum. Teymin sem voru valin í ár voru:

  • Aurora Abalone – Suðurnes
  • Circula – Suðurland
  • Circular Library Network – Höfuðborgarsv. (allt landið)
  • FoodSmart Nordic – Norðurland vestra
  • Humble – Höfuðborgarsvæði og Sandgerði
  • Nanna Lín – Norðurland eystra
  • Olafsdottir - Gestaverkefni frá Færeyjum
  • Skógarafurðir – Austurland
  • Surova – Höfuðborgarsvæði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði hátíðina og brýndi gesti til verka í málaflokknum, en áskoranirnar eru miklar. Guðmundur Gunnarsson stýrði umræðum í pallborðum þar sem Haraldur Hallgrímsson hjá Landsvirkjun, Katrín Sigurjónsdóttir hjá Norðurþingi, Sigríður V. Vigfúsdóttir hjá Primex, Pétur Arason hjá Húnabyggð og Daði Valdimarsson hjá Rotovia stikluðu á stóru um mikilvægi þess að taka frumkvæði og forystu þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun. Sömuleiðis og því að sveitarfélög og svæði marki sér stefnu og fylgi þeim eftir þegar kemur að verðmætasköpun. Seinna pallborðið ávarpaði mikilvægi fjölbreytileika og jafnréttis í nýsköpunar og fjármögnunarumhverfinu. Hekla Arnardóttir hjá Crowberry Capital, Arne Vagn Olsen hjá Lífeyrissjóð verzlunarmanna, Ragnheiður H. Magnúsdóttir hjá Nordic Ignite og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé hjá Öldu ræddu þar að þó ýmislegt gott sé í gangi og að margt sé á réttri leið þurfum við að ávarpa ýmislegt með markvissari hætti. Þar má til dæmis nefna hvernig fjárfestar geta stutt við fjölbreytileika t.d. í nýjum fyrirtækjum, hvað snertir stjórnir, eignarhald o.s.frv. Jafnrétti og fjölbreytileiki eykur getu og hæfni fyrirtækja til að ná árangri. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra ávarpaði gesti í seinni hluta dagskrá þar sem frumkvöðlar voru með fjárfestakynningar í bátahúsi Síldarminjasafnsins. Í framhaldi fjárfestakynninga fór fram stefnumót frumkvöðla og fjárfesta og annarra lykilaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi í Salthúsinu, nýjum safnkosti Síldarminjasafnsins og var þetta í fyrsta sinn sem viðburður var haldinn þar.

Það var samdóma álit gesta og þátttakenda að svona vettvangur sé gríðarlega mikilvægur fyrir verkefni í leit að fjárfestingum þar sem þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðarsamvinnu.

Viðskiptahraðallinn Startup Stormir

Norðanátt hélt viðskiptahraðalinn Startup Storm í fjórða sinn. Viðskiptahraðallinn gaf þátttakendum tækifæri til að efla sig og sín verkefni með þátttöku í hraðlinum. Hraðalinn hófst 3. október og stóð yfir í sjö vikur. Þátttakendur fengu fræðslu, tóku þátt í vinnustofum, fóru á mentora fundi með reynslu miklu fólki úr atvinnulífinu.

Lokaviðburður var haldinn með pompi og prakt fimmtudaginn 14. nóvember síðastliðinn í Hofi á Akureyri. Nýsköpunarteymin stigu á stokk og kynntu verkefni sín fyrir gestum. Á lokaviðburðinum var einnig fjölbreytt dagskrá, Vilhjálmur Bragason var kynnir kvöldsins og skemmti gestum, Albertína og Katrín framkvæmdastjórar SSNE og SSNV fræddu okkur um Sóknaráætlun og áherslu samtakanna beggja á nýsköpun og frumkvöðla. Verkefnin sem tóku þátt í ár voru Akur organic, Syðra Holt, Hret víngerð, Brimsalir, Skynró, Kayakar og Listakot Dóru.

Þessi fjölbreytta flóra verkefna sýnir fram á þann kraft og sköpunargáfu sem býr í frumkvöðlum á Norðurlandi. Startup Stormur hraðallinn hefur veitt þessum teymum dýrmætt tækifæri til að þróa hugmyndir sínar og koma þeim á framfæri.

Starfamessa

Haldin var starfamessa í Háskólanum á Akureyri fyrir nemendur 9. og 10. bekk. Á Starfamessu fengu nemendur tækifæri til að skoða og ræða við fólk sem hefur fjölbreytta atvinnureynslu en yfir 30 fyrirtæki tóku þátt í ár. Mikilvægt er að ólíkar starfsstéttir taki þátt í svona kynningu til að brúa bilið á milli skóla og atvinnulífs. Öllum grunnskólum á starfssvæði SSNE var boðið til þátttöku. Þessi nasaþefur af atvinnulífinu gerir ungmenni meðvitaðri um starfsmöguleika og getur auðveldað þeim að velja sinn framtíðarfarveg í gegnum nám og atvinnu.

MENNING

Menning og skapandi greinar hafa hlotið mikla umfjöllun á Íslandi á árinu, enda ljóst með útkomu skýrslunnar ,,Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi” að hagræn áhrif eru mikil, auk mikilvægi hefðbundnari félags- og samfélagslegra gilda sem tengd eru við menningu og skapandi greinar.

Hér mætti nefna niðurstöður í skýrslunni sem benda til þess að beint framlag menningar og skapandi greina hafi numið 3,5% af landsframleiðslu, eða um 150 milljörðum kr., árið 2022, sem er litlu minna en framlag fiskveiða og fiskeldis. Að auki er gott að undirstrika hér að niðurstöður benda til þess, að opinber fjárfesting einnar krónu í menningu og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu. Menning og skapandi greinar eru því mikilvægur partur af starfi SSNE og annarra landshlutasamtaka, að gæta þess að uppbygging og tækifæri á sviði menningar og skapandi greina dreifist um land allt til að fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum, efla búsetuskilyrði og búsetufesti.

Í takt við Sóknaráætlun voru áherslur SSNE árið 2024 að styrkja verkefni á sviði menningar og skapandi greina með fjármagni, ráðgjöf og samstarfi. Það var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þeirri grósku og framtakssemi sem er sýnileg í umsóknum í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra og tillögum í farveg áhersluverkefna Sóknaráætlunar. Nálgast má upplýsingar um þau verkefni sem hlutu framgang í úthlutun Uppbyggingarsjóðs hér. Áhersluverkefni Sóknaráætlunar sem snéru að menningu og/eða skapandi greinum árið 2024 voru þrenn: Upptaktur, Fiðringur og HönnunarÞing. Öll hafa verkefnin vakið mikla athygli innan og utan landshlutans og stuðla öll að því að styrkja stöðu menningar og skapandi greina í landshlutanum, sem og á landinu. 

Hagsmunagæsla fyrir vöxt menningar og skapandi greina um allt land

Verkefnastjórar á sviði menningar hjá landshlutasamtökunum öllum vinna gjarnan saman að því að jafna aðgengi að menningu, sem og að minna á allt það frábæra frumskapandi fólk í byggðum landsins sem vinnur ötullega og fagmannlega í sínum störfum á sviði menningar og skapandi greina. Sem dæmi um opna kynningarfundi mætti nefna þá sem haldnir voru í samstarf við STEF og Rannís. Á árinu fóru m.a. fram góðir samstarfsfundir með Tónlistarsjóði, RÚV, Rannsóknarsetri skapandi greina, Bandalagi íslenskra listamanna, List fyrir alla og menningar- og viðskiptaráðuneytinu þar sem gætt er að landsbyggðarvinklum. Þá má jafnframt nefna málþingin um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum og styrkjaumhverfi listasafna.

Á árinu fór jafnframt af stað samstarfsverkefnið B.9 sem er hluti af aðgerðaáætlun Byggðaáætlunar og unnið fyrir ráðuneyti menningar og viðskipta. Markmið aðgerðarinnar er m.a. að efla menningarstarfsemi í byggðum landsins, í takt við meginmarkmið byggðaáætlunar sem er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Fyrsti fasi verkefnisins felst í því að safna gögnum frá öllu landinu utan höfuðborgarsvæðisins um húsnæði eða staði þar sem fram fer menningar- og/eða listtengd starfsemi. Markmiðið er að afrakstur fasans undirbyggi skilgreiningar og stefnumótun um menningarhús og starfsemi menningarhúsa á landsbyggðinni sem framvegis muni liggja til grundvallar þegar fjallað er um þau mál. Skýrar skilgreiningar, heildrænt yfirlit og góð innsýn landshlutanna sjálfra er grundvöllur fyrir því að stefnumótunin verði þeim til hagsbóta og geti auðveldað eða einfaldað umræðu um menningarstarfsemi á landsbyggðinni; frá listrænni og faglegri sýn til fjármögnunar rekstrarforma og mismunandi starfsemi.

Vorfundur menningarfulltrúa fór fram að hausti í þetta sinn. Vorfundurinn er staðfundur og flakkar milli landshluta frá vori til vors. Þar fer fram sameiginleg þróunarvinna, hagsmunagæsla en síðast en ekki síst innlit í starfið í hverjum landshluta fyrir sig. Þá þá er lært af reynslu annarra og verkefni gjarnan heimfærð í aðra landshluta. Að þessu sinni fóru menningarfulltrúar um Vestfirði þar sem einstaklega vel var tekið á móti hópnum á öllum vígstöðum og óhætt að segja að mikill innblástur á sviði og rekstri menningar og skapandi greina hafi átt sér stað, sjá nánar hér.

Samstarf sveitarfélaga SSNE um menningarmál

Á árinu var komið á fót reglulegum samráðsfundum starfsfólks sveitarfélaga í menningarmálum á starfssvæði SSNE. Alls voru haldnir fimm fundir, en fundirnir eru hugsaðir til að styðja við starfsfólk sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra sem á það sameiginlegt að vinna við að styðja við menningu- og skapandi greinum í sínum sveitarfélögum. Markmið þannig er að koma á fót vettvangi þar sem einstaklingar í sambærilegum verkefnum hafa tækifæri á samtali, svigrúm til að spegla verkefni á menningarrófinu, að auka samstarf og sóknarstyrk menningar og skapandi greina, auka slagkraft í faglegu starfi og vöruþróun á sviðinu. Á fundunum miðlar SSNE jafnframt styrkjamöguleikum og öðrum tækifærum á sviði menningar og skapandi greina, kemur á framfæri skilaboðum frá ráðuneyti menningar og öðrum þegar við á. Starfsfólk SSNE heldur utan um vettvanginn og stýrir fundum. Ýmsir gestir hafa komið inn á fundina til að kynna verkefni sem eiga við allan landshlutann. Sjá nánar hér.

HönnunarÞing

HönnunarÞing er hátíð hönnunar og nýsköpunar sem Hraðið miðstöð nýsköpunar er forsprakki að og SSNE samstarfsaðili. Meginmarkmið HönnunarÞings eru annars vegar að auðga og vekja athygli á menningarlífi og skapandi störfum í landshlutanum, og hins vegar að hvetja til og stuðla að samstarfi fólks og fyrirtækja á sviði hönnunar og nýsköpunar. Með viðburðinum er leitast við að opna augu fólks fyrir möguleikum þess að vinna að nýsköpun, hönnun og öðrum skapandi greinum um allt land. Markmið sem falla einkar vel að Sóknaráætlun landshlutans. Hátíðin var haldin í annað sinn í október 2024 og var áhersla ársins á tónlist og margvíslegar og snertifleti tónlistar, hönnunar og nýsköpunar, en lagt er upp með að flétta mismunandi atvinnugreinum saman við hönnun og nýsköpun ár hvert. Fyrsta árið var áhersla á vöruhönnun, ár tvö tónlist, en árið 2025 verður áherslan á mat. Dagskráin var opin öllum og unnið markvisst að því að kynna skapandi störf fyrir ungum sem öldnum. Á dagskránni voru meðal annars erindi frá prófessor við Listaháskóla Íslands, bátahönnuður, hugarheimur Skálmaldar, ný hljóðtækni, stjórnarmanneskja frá Bang & Olfusen, tölvuleikjahönnun CCP, hljóðsköpunarverkstæði fyrir börn, kynning fyrir framhaldsskólanema á námi LHÍ í vöruhönnun og starfsmöguleikum, sem og fjölbreyttar tónlistaruppákomur. Nánari upplýsingar má finna hér

Fjölbreytt verkefni á árinu

Á meðal hlutverka SSNE er að stuðla að fjölbreyttum atvinnumöguleikum, gæta að jöfnum tækifærum í byggðum landsins til að njóta og standa að viðburðum, sem og efla sýnileika svæðisins.

Kvikmynda- og dagskrágerð um allt land

Það var því vel við hæfi að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd málþings um kvikmynda- og dagskrárgerð á Norðurlandi eystra. Áherslur málþingsins voru:

  • nýja tækni og þar með fleiri tækifæri til sóknar í dagskrárgerð um allt land
  • áhrif kvikmyndagerðar á ferðaþjónustu
  • fjölmiðlun í dreifðum byggðum
  • tækifærin og áskoranir í kvikmynda- og dagskrárgerð í landsbyggðum

Nýtt framleiðslufyrirtæki á Norðurlandi, Castor Miðlun, átti hugmyndina og framleiddi málþingið en að málþinginu komu m.a. Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menningarmála, Tira Shubart fjölmiðakona frá Bretlandi, Atli Örvarsson alþjóðlegt kvikmyndatónskáld, Baldvin Z leikstjóri og framleiðandi, Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV og Rakel Hinriksdóttir fjölmiðlakona á Norðurlandi eystra. Lögðu allir þátttakendur ríka áherslu á að efla skapandi greinar um allt land, mikilvægi héraðsmiðla og þess að gæta þurfi þess að störf í kvikmyndaiðnaðinum séu ekki einungis í boði á suðvesturhorninu.

Í tilefni af málþinginu opnaði framleiðslufyrirtækið jafnframt nýtt myndver í húsnæði á Húsavík, sem er eina sjónvarpsmyndaverið utan höfuðborgarsvæðisins frá því að sjónvarpsstöðin N4 hætti starfsemi. Sjá nánari upplýsingar hér.

Tónleikar í Heimskautsgerðinu

Eitt af markmiðum Sóknaráætlunar er að efla menningartengda ferðaþjónustu, sérstaklega utan háannatíma. Uppbyggingarsjóður er mikilvægt verkfæri SSNE til að örva atvinnugreinina og hvetja menningarfrumkvöðla. Til að mynda hlutu umsóknir aukastig sem lögðu upp með að efla menningartengda ferðaþjónustu utan háanna tíma. Dæmi um slíkt verkefni eru tónleikar Skálmaldar í Heimskautsgerðinu við Raufarhöfn þann 7. september. Þar voru sameinaðir kraftar fjölbreyttra skapandi greina til að vekja athygli á list, ferðaþjónustu og náttúru norðausturhornsins utan háanna tíma; eða tónlist, kvikmyndalist, sviðslistir, menningararfurinn og stærsta útilistaverk landsins.

Gott veður og rífandi stemning var á tónleikum þar sem starfsfólk og hátt í 1600 gestir voru samankomnir í dásamlegu veðri í stórkostlegu umhverfi á Raufarhöfn. Samsvarar þessi tala því að um 1,2 milljón gesta hefðu mætt til Reykjavíkur á tónleika á Arnarhóli. Aðkoma í þorpinu, gisting, tjaldsvæði, veitingasala og hvað eina gekk vonum framar, mikil samstaða var í þorpinu og allir hjálpuðust að við að gera helgina ógleymanlega fyrir heimafólk og gesti. Ljóst er að Heimskautsgerðið er mikilfenglegur staður sem býður upp á magnað og eftirminnilegt viðburðarhald. Í aðdraganda tónleikanna og á eftir, var fjölbreytt umfjöllun og segja sumir að þetta verkefni hafi komið Raufarhöfn á kortið. Umfjöllun um Gerðið og Raufarhöfn var mjög mikil og sást vel í google trend greiningu. Heimildarmynd sem tekin var upp samhliða mun halda þessari góðu ímynd á lofti. Það er norðlenska framleiðslufyrirtækið Castor Miðlun sem framleiðir myndina, en hún verður unnin fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað. Samhliða tónleikaupptöku var starfsfólk Castor Media að störfum á Raufarhöfn í aðdraganda tónleikanna og tók upp mikið myndefni í samfélaginu og verður nýtt til að segja sögu samfélagsins á Raufarhöfn samhliða tónleikamyndinni. RÚV hefur keypt sýningarrétt efnisins og verður það sýnt á fyrri hluta ársins 2025.

 

Samstarf við Listahátíð í Reykjavík og Sæskrímslin

Listahátíð er vettvangur fyrir listsköpun í hæsta gæðaflokki frá öllum heimshornum en á líka í kröftugu og lifandi sambandi við almenning í landinu og leitast við að tendra áhuga sem flestra til að taka þátt og njóta lista á eigin forsendum. Gott samstarf var milli listræns stjórnanda Listahátíðar og menningarfulltrúa landshlutasamtaka á árinu. Listafólk frá Norðurlandi eystra var meðal sýnenda á hátíðinni en jafnframt fóru fjölbreytt verkefni Listahátíðar fram í landshlutanum og þar með aðgengi að menningu og listum bætt. Á meðal viðburða í dagskrá Listahátíðar 2024 voru Intoo, alþjóðleg listahátíð á vegum Alþýðuhússins í Fjallabyggð, Er þetta norður? Samsýning í Listasafninu á Akureyri og þann 12. júní birtust ótrúlegar kynjaverur í kringum höfnina á Húsavík þegar sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props tókum höndum saman í nýju, íslensku götuleikhúsverki fyrir alla fjölskylduna. Tíu ungmenni af svæðinu fengu hlutverk í sýningunni, ásamt því að fá innsýn í götuleikhústækni og uppsetningu sýninga. Sæskrímslin byggja á íslenskum þjóðsagnaarfi og unnu meðal annars börn í grunnskólanum á Húsavík hugmyndavinnu Sæskrímslanna í gegnum listasmiðjur sem listafólk og þjóðfræðingar stýrðu. Smiðjurnar voru í boði í gegnum List fyrir alla. Nánari upplýsingar um Sæskrímslin, samstarfið og sýninguna á Húsavík má finna hér.

Samstarf safna, setra og sýninga

Starfssvæði SSNE er ríkt af list, sögum og menningararfleið ýmissa lifnaðarhátta, starfsstétta og tímabila sem varðveitt eru á söfnum, setrum og sýningum svæðisins, sem svo aftur miðla til núverandi kynslóða og gæta fyrir komandi kynslóðir. Söfnin eru mikilvægar stofnanir í samfélaginu, bæði á sviði minjavörslu og rannsókna en ekki síður sem áfangastaðir sem bjóða ferða- og heimafólki Norðurlands eystra í heimsókn og halda uppi hefðum, sögu, list- og menningarviðburðum allan ársins hring.

Á vormánuðum lauk áhersluverkefni SSNE ,,Samstarf safna“ en verkefnahópur á vegum Safnaklasanna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem og menningarfulltrúi SSNE hafa síðustu ár staðið fyrir röð vinnustofa fyrir starfsfólk safna, setra og sýninga á svæðinu. Viðfangsefnin hafa verið afar fjölbreytt. Til að mynda samfélagsmiðlamiðlun, fræðsla fyrir jaðarhópa, efnisgerð, skapandi samstarf við grunnskóla, meðferð ljósmynda, grisjun muna og tæknibrellur í sýningahönnun. Sjá nánar hér.

Samstarf SSNE við verkefni Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst og Byggðastofnunar

Skortur á rannsóknum á áhrifum skapandi greina í dreifðari byggðum Íslands var kveikjan að námskeiði á meistarastigi sem er liður í stærra verkefni sem stutt er af Samstarfssjóði háskólanna. Námskeiðinu er ætlað að efla rannsóknavirkni á meistara- og doktorsstigi á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina. Fræðafólk í Evrópu hefur í auknum mæli beint athygli sinni að mikilvægi staðbundinna áhrifa MSG, ekki síst í landsbyggðum. Samspil MSG og nýsköpunar er einnig í brennidepli þar sem víðtæk samfélagsleg áhrif eru skoðuð samhliða tækniþróun. Fjöldi starfandi fólks á sviði skapandi greina á Norðurlandi eystra lagði námskeiðinu lið, þar á meðal verkefnastjóri SSNE sem fjallaði um raunveruleg áhrif Uppbyggingarsjóðs við uppbyggingu svæða. Sjá nánar hér.

UMHVERFISMÁL

Umhverfismál skipuðu stóran sess í starfi SSNE á árinu. Haldin voru námskeið og fjölbreyttir samráðsfundir til þess að auka fræðslu og miðla þekkingu um þessi mál milli sveitarfélaga. Árið hefur einkennst af miklum meðbyr í umhverfis- og loftslagsmálum þar sem mikið hefur áunnist og bæði atvinnulífið og opinberir aðilar stefna að sömu markmiðum.

Starfsfólk SSNE hefur sinnt ráðgefandi hlutverki í umhverfis- og loftslagsmálum á árinu og unnið náið með sveitarfélögum að gera landshlutann grænni. Bíllausi dagurinn var haldinn hátíðlega í mörgum sveitarfélögum, mörg Græn skref voru stigin, orkuskiptin komust á skrið, LOFTUM hleypti af stokkunum rafrænum skóla og margt fleira. Þannig hefur starf SSNE stutt við heildarsýn Norðurlands eystra í umhverfismálum.



 

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs

Metnaðarfull svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs var samþykkt af öllum sveitarfélögum árið 2023. Á árinu var síðan gerð könnun um framfylgd og stöðu aðgerða á þeirri svæðisáætlun. Niðurstöður hennar voru að mikil vinna hefur þegar verið unnin hjá sveitarfélögunum, bæði við að framfylgja svæðisáætluninni og við að mæta kröfum nýrra laga. Sumar aðgerðir hafa reynst erfiðari í afskekktari byggðum, en grenndarstöðvar eru byrjaðar að stinga upp kollinum hjá flestum. Einhver sveitarfélög hafa lokið útboðsferli og önnur eru langt komin. Ekkert sveitarfélaga á Norðurlandi eystra hefur lokið vinnu við allar aðgerðir. Næstu skref verða að koma verkefnum svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs í skýran farveg í samstarfi við SSNV þar sem sveitarfélögin á Norðurlandi fá tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna.

Uppspretta - umhverfis- og loftslagsmál sveitarfélaga

Á árinu fór af stað áhersluverkefnið Uppspretta sem meðal annars hefur það hlutverk að halda utan um ýmis verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála innan landshlutans. Vinnan byggir á vinnu sem fór fram á árinu 2023 í svokölluðum spretthópum sem komu með tillögur að aðgerðum fyrir svæðið. Meðal þeirra verkefna sem fóru í framkvæmd eru Græn skref SSNE, undirbúningur loftslagsstefnu fyrir landshlutann og fleira sem lesa má um hér fyrir neðan. 

Samfélagsleg losun

Í júní kom út skýrsla um kolefnisspor Norðurlands eystra sem var unnin af Environice fyrir SSNE. Í skýrslunni er að finna sundurliðuð gögn um losun í hverju sveitarfélagi fyrir sig ásamt landshlutanum sem heild. Skýrslan nýtist starfsfólki sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum í landshlutanum vel til að greina helstu tækifæri svæðisins í loftslagsmálum en í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að helstu tækifæri landshlutans séu í þremur verkefnum, endurheimt votlendis, endalokum urðunar og loftslagsvænni samgöngum.

Skýrslan minnir á að grípa þarf til skjótra og róttækra aðgerða til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þá var samþykkt í nýrri Sóknaráætlun landshlutans að unnin verði aðgerðaráætlun í tengslum við skýrsluna sem feli meðal annars í sér aðgerðir í bættri landsnýtingu, eflingu hringrásar á lífrænum úrgangi og virkum ferðamátum. 

Græn skref SSNE

Öll aðildasveitarfélög SSNE eru skráðir þátttakendur í Græn skref SSNE og hafa þar með skuldbundið sig til að innleiða Græn skref í rekstur sveitarfélaganna. Verkefnið byggir á Grænum skrefum í ríkisrekstri, sem áralöng reynsla er komin á. Græn skref SSNE styðja við sveitarfélögin í innleiðingu lögbundinna skylda í loftslagsmálum, þar sem þau innifela gerð losunarbókhalds, gerð loftslagsstefnu en aðgerðir eru innleiddar samhliða stefnumótunarvinnunni. Þau sveitarfélög sem taka þátt fara þannig yfir innkaup sín með grænum gleraugum, draga úr úrgangsmagni, draga úr orkunotkun húsnæðis og hvetja til notkunar vistvænni samgöngumáta, svo dæmi séu tekin.

Starfsfólk SSNE heldur utan um verkefnið, fundar með tengiliðum verkefnis, stendur fyrir fræðslu, fer yfir gátlista og veitir viðurkenningar þegar skrefi er náð. Nokkur sveitarfélög fengu viðurkenningu fyrir að hafa lokið Grænu skrefi árið 2023 og enn fleiri bættust við á liðnu ári. Má þar nefna Amtsbókasafnið á Akureyri, Þingeyjarsveit, Eyjafjarðarsveit og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Mikið hefur áunnist á liðnu ári og heldur vinnan áfram með góðan byr í seglum á því næsta.

LOFTUM

LOFTUM verkefnið hefur það að markmiði að efla þekkingu starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE í loftlags- og umhverfismálum. Málaflokkurinn er víðfeðmur og oft á tíðum flókinn og því er lögð áhersla á einfalda og skilvirka framsetningu upplýsinga og fræðsluefnis.

Undir formmerkjum LOFTUM eru haldin námskeið, vinnustofur og fyrirlestrar um umhverfismál. Á liðnu ári voru haldnir fyrirlestrar um gerð loftslagsbókhalds sveitarfélaga, blágrænar ofanvatnslausnir, sjálfbært skipulag og virka ferðamáta, sjálfbærni í opinberum innkaupum, orkumál í hnotskurn og aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum.

Á liðnu áru var Rafrænn skóli settur á laggirnar með það að sjónarmiði að bjóða upp á hnitmiðað nám á mannamáli, aðlagað að þörfum ólíkra hópa innan sveitarfélaganna. Starfsfólk og kjörnir fulltrúar geta skráð sig inn á skólann og setið þar fjölmörg námskeið sem hafa verið tekin upp og klippt í stutt myndbönd til að einfalda fræðsluna og gera hana aðgengilegri. Hægt er að nálgast efnið hvar sem er, á öllum tímum sólarhringsins.

 

Orkuskipti á Norðurlandi RECET

Mikill framgangur varð á árinu í RECET verkefninu. Haldið var málþing um orkuskipti í febrúar þar sem efni málþingsins var staða mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir. Málstofan var afar vel sótt af yfir 160 góðum gestum og markaði gott upphaf að vinnu RECET á Norðurlandi eystra. Fjölmenn fræðsluferð var farin með starfsfólki sveitarfélaga og fulltrúum sveitarstjórna af Norðurlandi eystra og Vestfjörðum til Samsö í Danmörku. Vinnustofan var í höndum Energi Akademiet sem hafa áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir. Árið 1997 tóku þau ákvörðun um að verða fyrsta sjálfbæra eyjan í Danmörku og á 10 árum tókst þeim að umbreyta raforkuframleiðslu í 100% sjálfbæra orku en eyjan framleiðir allt sitt rafmagn með vindmyllum sem eru að stærstum hluta í eigu íbúanna. Á liðnu ári voru einnig haldnar vinnustofur með öllum sveitarfélögum innan SSNE. Vinnustofurnar fóru fram í október og nóvember og lögðu áherslu á hvernig sveitarfélög geta nýtt skipulagsmál og stjórnsýslu til að hraða orkuskiptum og draga úr bruna jarðefnaeldsneytis innan sinna marka. Þá komu út greiningar á raforkuþörf við hafnir á Norðurlandi eystra og um olíusölu á Íslandi 

 

Líforkuver á Dysnesi

Verkefni um uppbyggingu líforkuvers í Eyjafirði hafði verið rekið undir stjórn SSNE um nokkuð skeið en öðlaðist á árinu sjálfstætt líf utan veggja SSNE, þar sem félagið Líforkuver ehf. var stofnað með það að markmiði að vinna að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi. Í stjórn félagsins sitja fulltrúar Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, SSNE og sláturleyfishafa. Undanfarið ár hefur verkefnið verið leitt af Kristínu Helgu Schiöth, verkefnastjóra í umhverfismálum hjá SSNE. En hún var á liðnu ári ráðin af stjórn Líforkuvers ehf. til að stýra verkefninu áfram.

Í lok árs tóku ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála og matvælaráðuneyti yfir verkefnið sem snýr að söfnunarkerfi dýraleifa, en áfram er unnið að því að endastöð þeirra verði í líforkuveri á Dysnesi. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir um framhaldið verði teknar í samstarfi við ráðuneytin á árinu 2025.

Söfnun Dýraleifa

Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið og SSNE settu af stað vinnu við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu, í áhættuflokki 1, með það að markmiði að efnið komist í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Vinnan að söfnunarkerfi var unnin í samstarfi við Líforkuver ehf. og finnska ráðgjafafyrirtækið GMM, sem hefur áralanga reynslu af söfnun og meðhöndlun dýraleifa. Söfnun og rétt meðhöndlun dýraleifa er mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis; urðun dýrahræja hefur í för með sér umtalsverða losun gróðurhúsalofttegunda og unnt er að vinna orkugjafa úr efninu sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis. 

 

Samgönguvika og Bíllausi dagurinn

Sveitarfélög innan SSNE tóku virkan þátt í Evrópsku samgönguvikunni og Bíllausa deginum. Meðal stórra verkefna þetta árið voru þrír stórir viðburðir í landshlutanum. Á Akureyri var viðburðurinn Hjólafjör í Kjarnaskógi, á Dalvík var hjólafjör fyrir alla fjölskylduna með lögreglunni og á Húsavík var Regnbogagata lokuð fyrir bílaumferð og leiksvæði sett upp fyrir börn . Mikil þátttaka var í öllum þessum viðburðum og ánægja með framtakið. Frá árinu 2002 hafa borg og bæjarfélög á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Verkefnið er unnið í samráði við umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið.

Samstarf um umhverfismál

Á árinu var samtalsvettvangur starfsfólks sveitarfélaga í umhverfismálum á starfssvæði SSNE virkur. Hópurinn var settur saman til að hvetja til aukins samtal á milli sveitarfélaga og koma á fót vettvangi þar sem einstaklingar í sambærilegu verkefnum hefur tækifæri á að tala saman, miðla reynslu og sækja upplýsingar. Starfsfólk SSNE heldur utan um vettvanginn og stýrir fundum.

Starfsfólk SSNE á auk þess í virku samtali við fulltrúa umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, fulltrúa Byggðastofnunar og starfsfólk annarra landshlutasamtaka, m.a. í gegnum samráðshóp sem Byggðastofnun heldur utan um. SSNE situr einnig í vinnuhópi umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins um Evrópsku samgönguvikuna.

SAMSTARF

Mikið af verkefnum SSNE byggjast upp á samstarfi og góðum tengslum. Eitt af markmiðum ársins var að efla tengsl við stofnanir á Norðurlandi, en einnig á landsvísu. Óhætt er að segja að það markmið hafi gengið eftir og verkefnið hér eftir verður að viðhalda þessum góðu tengslum í gegnum fjölbreytt verkefni.

Föstudagsfundir

SSNE hefur á liðnum árum lagt áherslu að efla upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa og efla samstarf þeirra á milli. Mikilvægur liður í því hafa verið fundir SSNE með kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna og framkvæmdastjórum þeirra, svokallaðir föstudagsfundir. Á árinu 2024 voru fundirnir ársfjórðungslega og voru þeir vel sóttir af kjörnum fulltrúum, og eftir atvikum starfsfólki sveitarfélaganna.

Í lok árs kom upp sú hugmynd að útvíkka föstudagsfundina og nýta þá til samtals um ólíkar áskoranir í ólíkum atvinnugreinum á Norðurlandi eystra. Verður betur sagt frá því í næstu ársskýrslu SSNE.

Fjölmenningarráð SSNE

Fjölmenningarráð var endurskipað í byrjun árs og eiga nú öll sveitarfélög innan SSNE fulltrúa í ráðinu. Íbúum í landshlutanum með erlent ríkisfang hefur fjölgað hratt þrátt fyrir að landshlutinn sé enn undir meðaltali yfir landið. Ráðið fundaði þrisvar á árinu. Rýnt var í helstu áskoranir og þarfir sveitarfélaganna þegar kemur að innflytjendum/einstaklingum af erlendum uppruna. Ráðið fékk kynningu frá Jafnréttisstofu um gerð jafnréttis- og mannréttindastefnu ásamt kynningu frá Reykjavíkurborg um verkefnið Hverfið mitt sem er nýtt móttökuverkefni fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna. Gögnum um stöðu móttökuáætlanir öllum sveitarfélögum var safnað og tekin ákvörðun um að fara í frekari rýnivinnu um helstu þarfir innflytjenda í landshlutanum.

Ungmennaþing SSNE
Í tengslum við skipulag og undirbúning Ungmennaþings hefur orðið til gott samstarf starfsfólks sveitarfélaganna sem hefur með málaflokkinn að gera. Í ár sat starfsfólkið undirbúningsfundina sem jók á skilvirkni, faglegt starf og tengingu milli allra. Jafnframt varð úr að skipuleggja tvö málþing eða tvær samhliða dagskrár, sem báðar gengu út frá tímasetningum og þörfum ungmenna, og því fagleg dagskrá fyrir bæði ungmenni og starfsfólk sveitarfélaga. Um samstarfið má lesa nánar hér

 

 

Íslandsstofa

Samstarf við Íslandsstofu var við mótun og gerð á tækifærissíðu fjárfestingarverkefna. Áfram er unnið að því að koma inn verkefnum frá svæðinu á síðuna. https://www.invest.is/investment-opportunities

Þá var gott samstarf í kringum MIPIM ráðstefnuna sem var skipulögð af Íslandsstofu. 

Byggðastofnun

Samstarf landshlutasamtakanna við Byggðastofnun efldist nokkuð á síðasta ári. Þannig eru haldnir reglulegir samráðsfundir Byggðastofnunar með framkvæmdastjórum landshlutasamtakanna, reglulegir fundir verkefnastjóra á sviði atvinnuráðgjafar með sérfræðingum lánasviðs Byggðastofnunar, auk reglulegra funda með starfsfólki á sviði umhverfismála með starfsfólki Byggðastofnunar.

Þá vann Byggðastofnun á árinu stöðugreiningu landshluta árið 2024 sem nýttist við vinnu Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Þar er búið að taka saman heilmikið af ólíkum upplýsingum um stöðu landshlutanna. Gögnin hafa verið sett inn á mælaborð Byggðastofnunar, en mæla má við þeim við áhugasama um byggðatengda tölfræði. 

Landshlutasamtök

Samtal landshlutasamtakanna um land allt er ákaflega mikilvægt, enda fjölmörg sambærileg viðfangsefni þó landshlutarnir séu ólíkir. SSNE var í forsvari fyrir óformlegt samtal þeirra á árinu og sat framkvæmdastjóri SSNE meðal annars fundi Stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál á árinu sem fulltrúi landshlutasamtakanna. Formenn og framkvæmdastjórar funduðu svo bæði í tengslum við Landsþing og Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Þá má nefna að komið var á reglulegum samráðsfundum með formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga sem reyndust vel á árinu. 

 

 

Eimur

SSNE er einn af bakhjörlum Eims sem er samstarfsverkefni með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Landsvirkjun, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur. Markmiðið með Eimi er að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Á árinu 2024 var starfssvæði Eims útvíkkað og komu systursamtök SSNE, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNV) inn í samstarfi og útvíkkaðist starfssvæði Eims við þá breytingu og ná þau nú yfir allt Norðurland líkt og Markaðsstofa Norðurlands. Þá gáfu þau út áhugaverða skýrslu á árinu um olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi. Skýrsluna má nálgast hér, en allar upplýsingar og fréttir af starfsemi Eims eru aðgengilegar á heimasíðu þeirra, www.eimur.is.

Framkvæmdastjóri SSNE sat í stjórn Eims árið 2024.

 

Markaðsstofa Norðurlands

Nokkur samstarfsverkefni voru unnin á árinu með Markaðsstofu Norðurlands en jafnframt situr fulltrúi SSNE í stjórn MN.

Í janúar fór fram Ferðaþjónustuvikan sem er regnhlífaviðburður ferðaþjónustunnar sem haldinn er í Reykjavík. Þangað mættu galvaskir ferðaþjónar af Norðurlandi og tóku þátt í fjölbreyttum viðburðum og ber þar helst að nefna frábæran lokaviðburð Straumhvarfa sem er vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu, og auðvitað lokaviðburð ferðaþjónustuvikunnar, Mannamót Markaðsstofa landshlutanna sem áttu 10 ára afmæli. Rúmlega 60 ferðaþjónar af Norðurlandi voru þar mættir á Mannamót til að kynna allar þær frábæru vörur og þjónustu sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Markaðsstofa Norðurlands vann stöðugreiningu og aðgerðaráætlun fyrir Norðurhjarasvæðið í samvinnu við Langanesbyggð, Norðurþing og ferðaþjónustuna á svæðinu. Markmið verkefnisins var að móta sameiginlega sýn Norðurhjara svæðisins fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu og móta aðgerðaráætlun til að vinna með til framtíðar. 

 

Rannsóknarmiðstöð ferðamála.
Heimafólk og ferðamannaleiðir, SSNE og SSNV voru samstarfsaðilar verkefnis á vegum RHA sem styrkt var úr Byggðarannsóknasjóð. Könnunarsvæðin voru Melrakkaslétta og Vatnsnes. Könnuninni var beint að heimafólki á þessum tveimur svæðum, þá jafnt þeim sem hafa þar fasta búsetu allt árið, sem og land- og húseigendum ásamt þeim sem dvelja á svæðunum hluta árs.

Staða íbúðabyggingar

HMS, Tryggð byggð og Samtök iðnaðarins í samstarfi við SSNE héldu fund á Akureyri um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur. Á fundinum var fjallað um stöðu íbúðauppbyggingar á Norðurlandi eystra, þróun íbúafjölda á svæðinu og þarfir í uppbyggingu. 

GREININGARVINNA

Öflun og greining grunnupplýsinga til bættrar ákvörðunartöku
Íbúakönnun

Landshlutasamtök sveitarfélaga standa sameiginlega að íbúakönnun á Íslandi og hefur Vífill Karlsson, hagfræðingur hefur leitt þá vinnu í samstarfi við starfsmenn landshlutasamtaka. Könnunin tekur til þátta varðandi almenna velferð íbúa, ánægju þeirra og framtíðaráform, vinnumarkað og búsetuskilyrði. Könnunin veitir sveitarstjórnarmönnum mikilvægar vísbendingar um forgangsröð í verkefnum sveitarfélagsins og öðrum opinberum aðilum hvar tíma og fjármunum er best varið.

Síðasta íbúakönnun fór af stað í lok október 2023 og var fylgt eftir með áminningarpóstum næstu vikur. Úrvinnsla úr niðurstöðum könnunarinnar fór fram á vormánuðum 2024 og voru niðurstöðurnar birtar í júní 2024. Í kjölfarið komu voru svo birtar frekari greiningar á einstökum þáttum. Í niðurstöðum könnunarinnar kom m.a. fram að Eyfirðingar voru í efsta sæti þegar spurt var um búsetuskilyrði og Akureyri í því þriðja. Norðurland eystra kom einnig mjög vel út þegar spurt um hvort gott væri að búa. Þar voru í efstu sætum Akureyri, Þingeyjarsýsla og Eyjafjörður.

Íbúakönnun landshlutanna 2023 – Niðurstöður

Íbúakönnun landshlutanna 2023 – Gögn og aðferðir

Íbúakönnun landshlutanna í mælaborði Byggðastofnunar

Fyrirtækjakönnun

Fyrirtækjakönnun landshlutanna er á vegum allra landshlutasamtaka á landsbyggðinni, atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar. Hún er ætluð öllum, stórum og smáum rekstaraðilum/fyrirtækjum í eigu einstaklinga, félaga eða hins opinbera. Markmiðið er að kanna hver staða þeirra er til að geta stutt þau betur hvar sem þau eru á landinu.

Í könnuninni er spurt um væntingar fyrirtækja. Þá er spurt um nokkur atriði er lýsa tegund og eðli rekstursins. Að lokum er spurt út í tækifæri í rekstrinum og hvort hið opinbera styðji við hann eða hindri

Fyrirtækjakönnun kom síðast út 2022 en á árinu 2024 stóð yfir undirbúningur á nýrri könnun sem send er út í mars 2025.

Fyrirtækjakönnun landshlutanna 2022

Lýðfræði landshlutans

Íbúar á starfsvæði SSNE voru 32.026 talsins 1. janúar 2024 og hafði fjölgað um 452 frá 1. janúar 2024, sem jafngildir 1,4% fjölgun. Á sama tíma var fjölgun á landsvísu 1,5%.

Í landshlutanum varð hlutfallsleg fjölgun mest í Hörgársveit þar sem íbúum fjölgaði um 56 sem nemur 7,1%. Næst mest var hlutfallsleg fjölgun í Langanesbyggð þar sem íbúum fjölgaði um 20 sem nemur 3,7%.

Í tveimur sveitarfélögum fækkaði íbúum á milli ára, þó aðeins um 7 í hvoru. Í Fjallabyggð nam þessi fækkun -0,4% en í Grýtubakkahreppi nam fækkunin -1,8%.




FJÁRMÁL OG REKSTUR

Ársreikningur 2023

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 19. mars 2023 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársþing samþykkti reikninginn á ársþingi SSNE 18.-19. apríl.Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2023 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals 488,1 m.kr. en gjöld án fjármagnsliða námu 422,0 m.kr. Fjármunatekjur voru samtals 4,5 m.kr. og því var hagnaður á rekstri félagsins árið 2023 sem nam rúmum 70,5 m.kr. sem er talsverð breyting frá fyrra ári þegar tapið nam réttum fimm m.kr. Ástæður þessa mikla hagnaðar eru að árin 2012 – 2019 hafði Eyþing umsjón með rekstri almenningssamgangna í landshlutanum fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna. SSNE hefur átt í viðræðum við samgönguyfirvöld um fjárhagslegt uppgjör verkefnisins á undanförnum árum. Á árinu 2023 fékk SSNE staðfestingu á því að Vegagerðin hefði fellt niður þær kröfur sem voru til staðar vegna verkefnisins og er tekjufærsla vegna þess 40,5 m.kr. í uppgjörinu. 

Ársreikningur 2024

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning 2024 fyrir stjórn á fundi þann 17. mars 2024 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársreikningurinn er síðan lagður fram á ársþingi 2. – 3. apríl til staðfestingar.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2024 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur samtakanna á árinu 2024 námu kr. 415,7 m.kr. en voru kr. 488,1 m.kr. árið 2023. Rekstrarafgangur ársins nam kr. 9,2 m.kr. í samanburði við kr. 70,5 m.kr. í rekstrarafgang árið 2023. Heildareignir samtakanna í árslok 2024 námu kr. 261,6 m.kr. og eigið fé var um kr. 61,4 m.kr.

Lausafjárstaða SSNE var ágæt á árinu og var í árslok tæpar 163,6 m.kr. (lækkun um 1,6 m.kr. milli ára), en stærsti hluti lauss fjár eru úthlutaðir, ógreiddir styrkir fyrri ára. Eiginfjárstaða samtakanna var í árslok 2024 jákvæð um 61,4 m.kr., hækkun um 9,2 m.kr.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2024

Fyrstu drög að fjárhagsáætlun ársins 2024 voru lögð fram á ársþingi í apríl og er gert ráð fyrir rúmlega 5,6 m.kr. hagnaði af rekstri félagsins. Verkefnastjóri fjármála og rekstrar benti á að talsverð óvissa væri um þróun rekstrar á árinu 2024, einkum þar sem enn væri ekki búið að leiða kjarasamningar til lykta og verðbólga enn nokkuð há sem leiðir til kostnaðarhækkana á húsaleigu og öðrum föstum samningum sem bundnir eru breytingum á neysluvísitölu.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir 2024 var kynnt á aukaþingi SSNE í október og var þá gert ráð fyrir að hagnaður ársins yrði hærri en í upphaflegri áætlun, þó var enn ekki búið að ganga frá kjarasamningum en hægst hafði á hraða verðbólgu sem gefur væntingar um að tímabil stöðugleiga geti verið framundan.

ÁLYKTANIR, UMSAGNIR OG BÓKANIR STJÓRNAR

Mikilvægur þáttur í hagsmunagæslu SSNE felst í því að setja sjónarmið, viðbrögð og áskoranir fram með formlegum hætti. Á fundum stjórnar eru slík mál tekin til umræðu og stjórn bókar um málin. Framkvæmdastjóri kemur bókunum stjórnar á framfæri við viðeigandi aðila, stofnanir og ráðuneyti.

Bókun stjórnar SSNE um Fljótagöng | SSNE.is

Umsögn um þingsályktunartillögu um Landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Umsögn um borgarstefnu á Samráðsgátt Stjórnvalda.

61. fundur, 19. mars 2024

Umsögn um borgarstefnu á Samráðsgátt Stjórnvalda.

Á fundinum var eftirfarandi bókun gerð vegna minnisblaðs URN um áform ráðuneytisins um að styðja sérstaklega umhverfistengd verkefni landshlutasamtaka 2024:

Stjórn SSNE fagnar þessum áformum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og telur að þarna sé stigið mikilvægt skref í áttina að eflingu Sóknaráætlana landshlutanna.

62. fundur, 3. apríl 2024

Umsögn um flutning höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina, mál 136.

Á fundinum var eftirfarandi bókun gerð vegna Ungmennaþings SSNE:

Stjórn þakkar fyrir kynninguna og samþykkir að vísa niðurstöðum Ungmennaþings SSNE 2023 til vinnu sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Stjórn vill einnig þakka ungmennunum sérstaklega fyrir þeirra mikilvæga framlag inn í Sóknaráætlun, sem og starfsfólki sveitarfélaganna sem kom að vinnunni við Ungmennaþing SSNE 2023.

63. fundur, 30. apríl 2024

Umsögn um fjármálaáætlun, mál 1035.

64. fundur, 5. júní 2024

Umsögn um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030, mál 1036.

Á fundinum var eftirfarandi bókun gerð vegna vinnu við Sóknaráætlun Norðurland eystra 2025-2029:

Stjórn þakkar kynninguna og samþykkir að eftirfarandi flokkar verði lagðir til grundvallar samtals á vinnufundum með íbúum í haust: Atvinnulíf, blómlegar byggðir, og umhverfismál. Stjórn vill jafnframt hvetja sveitarstjórnarfólk, starfsfólk sveitarfélaga og íbúa landshlutans til að taka virkan þátt í vinnustofunum í haust.

65. fundur, 4. september 2024

Umsögn um nýja og uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á Samráðsgátt stjórnvalda.

Á fundinum var eftirfarandi bókað vegna Fljótaganga:

Stjórn SSNE skorar á stjórnvöld að bregðast umsvifalaust við þeirri stöðu sem komin er upp á Tröllaskaga vegna nýafstaðinna atburða í kjölfar mikillar úrkomu. Brýn þörf er á að flýta undirbúningi Fljótaganga og tryggja þannig öryggi vegfarenda fyrir Tröllaskaga.

Uppbygging Fljótaganga er í forgangi í samgöngu- og innviðastefnu SSNE, enda er ljóst að þessi framkvæmd er mikilvægur þáttur í að tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur á Norðurlandi eystra. Auk þess að vera mikilvæg samgönguleið fyrir íbúa á utanverðum Tröllaskaga, myndu Fljótagöng tryggja mikilvæga varaleið þegar Öxnadalsheiði er lokuð. Uppbygging Fljótaganga myndi því einnig auka áreiðanleika samgangna milli landsvæða og tryggja að hægt sé að ferðast óhindrað, jafnvel við erfiðar aðstæður.

Stjórn SSNE leggur því á það áherslu að undirbúningur við Fljótagöng hefjist strax í haust, göngin sett í forgang í samgönguáætlun og tryggt að verkefnið verði fjármagnað og því lokið sem allra fyrst.

66. fundur, 30. september 2024

Fjárlög 2025, 1. mál.

67. fundur, 5. nóvember 2024

Á fundinum var eftirfarandi bókað vegna skiptingu framlaga til Sóknaráætlana landshluta 2025-2029:

Stjórn áréttar mikilvægi þess að ekki verði dregið úr framlögum til Sóknaráætlana landshlutanna nú þegar nýjar Sóknaráætlanir taka gildi um áramót og þar með dregið úr gildi þeirra. Stjórn SSNE skorar á fjárlaganefnd Alþingis að tryggja að svo verði ekki.

68. fundur, 25. nóvember 2024

Á fundinum var eftirfarandi bókað um úthlutun Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra 2025:

Stjórn SSNE þakkar úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og starfsfólki SSNE fyrir góða og vandaða vinnu. Stjórn samþykkir tillögu úthlutunarnefndar um úthlutun 2025. Úthlutað verður 72.500.050 krónum úr Uppbyggingarsjóði. Stjórn vekur athygli á að rafræn úthlutunarhátíð verður haldin 5. desember næstkomandi kl. 15.00.

69. fundur, 13. desember 2024

Á fundinum var eftirfarandi bókað um Sóknaráætlun Norðurlands eystra:

Stjórn þakkar fyrir allar þær umsagnir og ábendingar sem bárust. Stjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu fyrir sitt leiti og vísar henni til aukaþings SSNE til endanlegrar staðfestingar.