Umhverfismál
Sterk umhverfissýn er ein af fjórum meginstoðum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2025-2029, þar sem landshlutinn skuli verði leiðandi í umhverfismálum og öðrum til fyrirmyndar. Markvisst hefur verið unnið að umhverfismálum innan SSNE frá því 2020, en þá var fyrst lögð sérstök áhersla á umhverfismál innan landshlutans innan Sóknaráætlunar. Fjölmörg verkefni hafa þegar orðið að veruleika sem munu færa landshlutann áfram í orkuskiptum, fullnýtingu auðlinda og því að draga úr sóun og sú vinna heldur stöðugt áfram.
Starfsfólk umhverfismála hjá SSNE sinnir ráðgjöf og fræðslu til sveitarfélaga svæðisins, leiðir verkefni sem samræmast áherslum Sóknaráætlunar landshlutans og tekur þátt í samstarfsverkefnum stjórnvalda og atvinnulífs fyrir hönd svæðisins þegar þess er óskað. Einnig er hægt að óska eftir ráðgjöf starfsfólks þegar kemur að grænum nýsköpunarverkefnum og sókn í sjóði á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
Áherslur Sóknaráætlunar 2025-2029 í umhverfismálum eru:
- Að vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan landshlutans
- Að auka áherslu á orkuskipti landshlutans og bætta nýtingu orkuauðlinda
- Að efla hringrás lífrænna næringarefna
- Að hlúa að líffræðilegri fjölbreytni
- Að styðja við fjölbreytt samfélagsleg verkefni sem draga úr sóun
- Að styðja við fræðsluverkefni í umhverfis- og loftslagsmálum
Þau umhverfisverkefni sem SSNE stýrir eða hefur beina aðkomu að í dag eru:
Græn skref SSNE
Síða í vinnslu
Verkefnið Græn skref er árangursrík leið fyrir stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins að vinna markvisst að umhverfismálum í skrifstofustarfsemi sinni. Skrefin eru alls fimm og unnið er eftir skýrum gátlistum. Verkefnið er einfalt og aðgengilegt og ættu allar stofnanir að geta tekið þátt. Stofnanir sem skrá sig til leiks fylgja gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og veitt er viðurkenning fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við.
Í byrjunárs 2023 fengu sveitarfélög SSNE boð um að taka þátt í verkefninu Græn skref SSNE, sem byggir á Grænum skrefum í ríkisrekstri. Verkefnið miðar að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sveitarfélaganna, að draga úr losun og að innleiða þekkingu á loftslagsbókhaldi og aðgerðaáætlanagerð.
Verkefninu var sannarlega vel tekið af sveitarfélögum SSNE og ljóst að mikill vilji er hjá sveitarfélögum svæðisins að gera vel í umhverfis- og loftslagsmálum, enda skráðu öll 10 sveitarfélögin sig til leiks. Með þátttöku í Grænum skrefum SSNE fá sveitarfélögin verkfæri í formi gátlista; lista yfir aðgerðir sem hægt er að innleiða á vinnustöðunum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Aðgerðirnar eru bæði smáar og stærri í sniðum, dæmi um aðgerðir er að koma á skýru flokkunarkerfi fyrir úrgang, draga úr magni úrgangs með því að leita leiða til að kaupa notað frekar en nýtt og gera sitt besta til að koma því sem ekki nýtist lengur á vinnustaðnum aftur inn í hringrásarhagkerfið. Einnig er mikið lagt upp úr því að ýta undir virka ferðamáta starfsfólks, t.d. með gerð samgöngusáttmála og að séð til þess að góð aðstaða sé til staðar fyrir hjólandi. Þetta eru eingöngu fá dæmi um þær aðgerðir sem Grænu skrefin fela í sér – en fyrir áhugasöm má nálgast listana hér og skoða þá.
Græn skref SSNE er einskonar tilraun þar sem byrjað er á skrifstofustarfsemi sveitarfélaganna, en lagt er upp með að fleiri vinnustaðir sveitarfélaganna geti tekið þátt þegar fram líða stundir. Með því að byrja á skrifstofustarfsemi sveitarfélaganna byggist upp þekking innanhúss og lykilstarfsfólk skrifstofanna getur í framhaldinu komið þekkingunni á framfæri við vinnustaði sveitarfélaganna.
Sveitarfélögin innleiða skrefin á sínum hraða, en þau sveitarfélög sem eru þátttakendur munu fá aðstoð frá starfsfólki SSNE við að uppfylla lögbundnar skyldur sveitarfélaga í loftslagsmálum. Samkvæmt loftslagslögum skulu sveitarfélög setja sér loftslagsstefnu með samdráttarmarkmiðum ásamt aðgerðaáætlun svo þeim markmiðum verði náð. Til þess að hægt sé að gera það þarf að halda utan um grænt bókhald sveitarfélaga, og stefnt er á að öllum sveitarfélögum SSNE bjóðist fræðsla við skráningu græns bókhalds eftir sumarið.
RECET
RECET stendur fyrir Rural Europe for the Clean Energy Transition og er Evrópuverkefni sem leitt er af Íslenskri nýorku og Eimi. SSNE er þátttakandi í verkefninu, auk Vestfjarðarstofu, en verkefninu er ætlað að efla sveitarfélög í dreifðari byggðum við að innleiða orkuskipti á sín svæði. Sveitarfélög leika lykilhlutverk í orkuskiptum ekki síst þegar kemur að öflun orku, flutnings og dreifingar, enda fara sveitarfélög með skipulagsvaldið. Umtalsverð uppbygging innviða þarf að eiga sér stað svo unnt sé að ná þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér í loftslagsmálum og umskiptingu í græna orku og RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaga og atvinnulífs á svæðinu til að takast á við orkuskiptin og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin.
Með þátttöku í verkefninu gefst sveitarfélögum SSNE færi á að leita til sérfræðinga og byggja á reynslu annarra sem þegar hafa farið í gegnum orkuskipti, en sérstaklega er horft til dönsku eyjunnar Samsø og Energiakademiet sem þegar hafa farið í gegnum orkuskipti og deila sinni aðferðafræði við mótun og þróun orkuskipta.
Verkefnið hófst þann 1. október 2023 og stendur yfir í þrjú ár, en verkefnið hlaut styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins. Sú þekking sem skapast í RECET verkefninu og niðurstöður þess verða aðgengileg öllum sveitarfélögum á Íslandi, auk evrópskra sveitarfélaga.
Tengiliður SSNE við RECET verkefnið er Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sigurborg@ssne.is, og hægt er að fræðast frekar um RECET á heimasíðu verkefnisins; www.recetproject.eu
Hér má finna stutt myndband af málstofunni Orkuskipti og sveitarfélög
Svæðisáætlun úrgangsmála
Eitt af veigamestu hlutverkum sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum snúa að meðhöndlun úrgangs. Bætt meðhöndlun úrgangs stuðlar að heilnæmara umhverfi, samdrætti í losun og eykur líkurnar á að hægt sé að nýta auðlindina sem í úrganginum felst.
Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs skulu sveitarfélög setja sér svæðisáætlun um málaflokkinn og kusu öll sveitarfélög á starfssvæði SSNE, auk Tjörneshrepps, sem og sveitarfélög á starfssvæði SSNV að vinna saman að svæðisáætluninni. Ráðgjafafyrirtækið Environice var fengið til að stýra vinnunni ásamt verkefnastjórum beggja landshlutasamtaka. Svæðisáætlunin var unnin með stefnumarkandi fundum kjörinna fulltrúa og starfsfólki sveitarfélaganna, lögð fyrir sveitastjórnir og síðan lögð til almennrar kynningar.
Öll sveitarfélög svæðisins hafa þannig skuldbundið sig til að starfa eftir Svæðisáætluninni, en henni fylgir aðgerðaáætlun sem skal tryggja að markmiðum áætlunarinnar verði náð. SSNE og SSNV eru í umsjónaraðili hluta þeirra aðgerða og hafa samræmingarhlutverk þar sem sveitarfélög svæðisins vinna saman að framkvæmd aðgerða, en bera þó ekki ábyrgð á því að sveitarfélög framfylgi lögum um meðhöndlun úrgangs eða innleiði þær aðgerðir sem lagðar eru til í svæðisáætlun.
Til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í svæðisáætlun er mikilvægt að Norðurland allt; íbúar, atvinnulíf, sveitarfélög og landshlutasamtök, vinni saman að því að uppfylla svæðisáætlun og væntir SSNE þess að eiga gott samstarf við ofantalda aðila.
Hér má lesa svæðisáætlun úrgangsmála ásamt aðgerðaáætlun.
Tengiliður SSNE vegna svæðisáætlunar úrgangsmála er Kristín Helga Schiöth, kristinhelga@ssne.is
LOFTUM
LOFTUM stendur fyrir loftsags- og umhverfisfræðslu sem er sérsniðin að kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga. Í rafrænum skóla LOFTUM má finna fjölbreytta fræðslu um umhverfismál sem er öllum opin. Að auki hafa verið haldin staðnámskeið og námskeið í gegnum Teams, svo um er að ræða fjölbreytta miðlun með fjölbreyttum efnistökum, en meðal þess sem tekið hefur verið fyrir er hringrásarhagkerfið, hvernig draga má úr skaðlegum efnum í umhverfi leikskóla- og skólabarna og grunnhugtök og innleiðing hringrásarhagkerfisins.
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) og Þekkingarnet Þingeyinga eru framkvæmdaraðilar verkefnisins, en verkefnið er áhersluverkefni SSNE sem lýkur nú í lok 2025. Í upphafi verkefnisins var unnin fræðslugreining þar sem kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélaganna lögðu mat á eigin fræðsluþarfir í málaflokknum og unnið hefur verið eftir þeirri greiningu.
Starfsfólk og kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra geta nýtt sér fræðsluna að kostnaðarlausu, hvort sem eru námskeið í rauntíma eða rafræn fræðsla. Rafræni skólinn er þá opinn öllum íbúum, einungis þarf að búa til notenda og skrá sig inn í skólann.
LOFTUM er mikilvægur hluti af umhverfisstarfi SSNE þar sem fræðsla er til alls fyrst. Að auki styður LOFTUM verkefnið við verkefnið Græn skref SSNE sem sveitarfélögin eru þátttakendur í.
Eldri verkefni í umhverfismálum:
Uppbygging líforkuvers á Dysnesi
SSNE hefur um langt skeið unnið að undirbúningi líforkuvers á Dysnesi, með beinum og óbeinum hætti. Fyrir liggur frumhagkvæmnimat á líforkuveri í Eyjafirði sem unnið var af SSNE, Vistorku og ráðgjöfum fyrir hönd sveitarfélaganna innan SSNE. Helstu niðurstöður skýrslunnar hafa verið kynntar á fundi sem haldinn var í Hofi 1. nóvember 2022 og fyrir sveitarstjórnum á fundum í janúar 2023.
Þá er búið er að reikna út magn þess lífræna úrgangs sem ætti sér farveg í líforkuverið, fyrst og fremst dýraleifar í efsta áhættuflokki, og reikna út fýsilega stærð versins með tilliti til þess. Sérstaklega var horft til reynslu Finna og Norðmanna þegar kemur að vinnslu dýraleifa, þar sem hræ eru unnin í orkugjafa. Þróunarfélag um líforkuver hóf starfsemi í byrjun árs 2024 og undir því var unnin tillaga um samræmt söfnunarkerfi dýraleifa um land allt, með stuðningi umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins og matvælaráðuneytisins sem skilað var í lok sama árs. Auk þess var unnin matskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar vegna umhverfisáhrifa byggingar líforkuvers á Dysnesi, sem skilaði jákvæðri niðurstöðu, enda fellur starfsemin vel að skipulagi svæðisins.
Heimasíða verkefnisins er www.liforkuver.is og þar er hægt að lesa meira.
Loftum - Greining og fræðsluáætlun
Áður en LOFTUM skólinn fór í loftið var unnin greining á fræðsluþörf á umhverfis- og loftslagsmálum innan sveitarfélaga, og upp úr henni fræðsluáætlun. Framkvæmdaraðilar eru Þekkingarnet Þingeyinga og Símey, í samstarfi við SSNE. Könnun var send til starfsfólks sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa í landshlutanum til að kanna fræðsluþörfina sem til staðar er.
Fræðslugreiningin tók til loftslags- og umhverfismála og ýmissa afmarkaðra þátta í málaflokknum, t.d. skipulags-, orku- og sorpmála, veitna, loftgæða og frárennslis. Eftir að greiningu var lokið lá þá fyrir áætlun um hvernig fræðslu í umhverfis- og loftlagsmálum til starfsmanna sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa á Norðurlandi eystra verður háttað til ársins 2025.
Eftir því sem næst verður komist hefur sambærilegt verkefni ekki verið unnið áður fyrir hér á landi og því mun sú vitneskja og fróðleikur sem safnast á einn stað í verkefninu augljóslega nýtast öðrum í framhaldinu.
Hugtökin sem LOFTUM tekur til eru óteljandi mörg. Nefna má hringrásarhagkerfið, loftlagsmál, orku, náttúruvernd, úrgangsmál, veitur, mengunarvarnir, kolefnisjöfnun, vistvænan ferðamáta, kolefnisspor, kolefnisbókhald, loftlagsvá, gróðurhúsalofttegundir, matarsóun – og svo mætti lengi telja.
Uppspretta
Uppspretta var áhersluverkefni SSNE í umhverfismálum árið 2023-2024, sem byggði á fyrra áhersluverkefni, Spretthópar í umhverfis- og loftslagsmálum, þar sem verkefnastjóri fundaði með sérfræðingum og mótaði tillögur að aðgerðum fyrir svæðið. Spretthóparnir ná yfir svið hringrásarhagkerfis, landnýtingar, náttúruverndar í byggðaþróun og aðlögunar gegn loftslagsbreytingum. Þeir takast því á við allar helstu áskoranir sem blasa við landshlutanum í umhverfis- og loftslagsmálum.
Meðal þeirra verkefna sem komust í framkvæmd og byggja á tillögum spretthópanna eru Græn skref SSNE sem öll sveitarfélög á svæðinu taka nú þátt í, undirbúningur loftslagsstefnu fyrir starfssvæðið og ýmis hringrásarverkefni - sérlega tengd uppbyggingu líforkugarðanna á Dysnesi.