Brothættar byggðir
Markmiðið með verkefninu Brothættar byggðir er t.d. að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og í sveitum landsins. Þá er mikilvægur liður þess að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum, í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög, brottflutta íbúa og aðra. Verkefnið miðar að víðtæku samráði og því að virkja þekkingu og getu íbúa byggðarlaganna til að móta markmið verkefnis. Árið 2012 hófst tilraunaverkefni á Raufarhöfn sem hlaut heitið Raufarhöfn og framtíðin. Hugmyndin var frá upphafi sú, að með þessu tilraunaverkefni yrði til aðferð eða verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu frammi fyrir svipuðum vanda. Frá því tilraunaverkefnið hófst á Raufarhöfn hefur það vaxið og fleiri byggðalög víða um land komið inn sem þátttakendur.
Á Norðurlandi eystra hafa fimm byggðarlög tekið þátt sem öllum er formlega lokið.
- Raufarhöfn og framtíðin lauk árið 2017
- Hrísey, perla Eyjafjarðar lauk árið 2020.
- Glæðum Grímsey lauk árið 2022
- Öxarfjörður í sókn lauk árið 2020
- Betri Bakkafjörður lauk 2024
Árið 2025 valdi Byggðastofnun verkefnin Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn til að taka þátt í nýju tilraunaverkefni til þriggja ára, sem má líta á sem nokkurskonar framhald af verkefninu Brothættar byggðir. Nánari upplýsingar eru að finna í tenglunum hér til hægri.