Fara í efni

Farsæld barna

Árið 2022 tóku gildi Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna á Alþingi. Markmið laganna er að stuðla að farsæld barna með samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Í 5. gr. laganna er kveðið á um svæðisbundin farsældarráð:

Sveitarfélög skipa svæðisbundin farsældarráð sem eru vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna. Þar eiga sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga. Ráðið skal hafa samráð við fulltrúa notenda á viðkomandi svæði.
Svæðisbundin farsældarráð skulu vinna áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára sem tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings.
Sveitarfélög vinna skýrslur um framvindu áætlana um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða á tveggja ára fresti. Áætlanir og skýrslur samkvæmt þessari grein skulu sendar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Verkefnastjóri farsældar, mun næstu tvö árin hið minnsta, hafa virkt samráð við sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og þjónustuveitendur farsældar á svæðinu með það fyrir augum að koma á svæðisbundnu farsældarráði.

Mótaðir verða verkferlar og verkáætlun fyrir verkefnið með það að markmiði að innan tveggja ára hafi svæðisbundið farsældarráð tekið til starfa og unnin hafi verið fyrsta áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára.

Verkefnastjóri mun halda utan um störf svæðisbundins farsældarráðs, boða fundi þess og bera ábyrgð á frágangi og skilum á afurð þess til allra sveitarstjórna í landshlutanum auk Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þá mun verkefnastjóri hafa yfirsýn yfir þjónustu er varðar börn í hverju sveitarfélagi með kortlagningu þeirrar starfsemi er þau varðar, auk þess að vera tengiliður SSNE við samráðsvettvanginn Öruggara Norðurland eystra.

Verkefnastjóri mun taka þátt í mótun tengslanets farsældarmála milli landshlutasamtaka sveitarfélaga ásamt því að vera í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneyti, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Verkefnastjóri vinnur auk þess önnur þau verkefni sem framkvæmdastjóri SSNE felur honum og falla að tilgangi verkefnisins.

Nánari upplýsingar um farsæld barna:

https://www.farsaeldbarna.is/
https://island.is/s/bofs/farsaeld-barna