Fara í efni

Nýsköpun

Nýsköpun er málaflokkur sem þarf sífellt að vera að hlúa að og er það eitt af hlutverkum SSNE.

Starfsfólk SSNE sinnir mörgum verkefnum sem ætlað er að styðja við nýsköpun og frumkvöðla. Nýsköpun var valið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar. SSNE er hluti af Norðanátt sem er samstarfsverkefni Eims, SSNV og SSNE, sem hefur það að markmiði að skapa kraft mikið frumkvöðlaumhverfi á Norðurlandi. 

SSNE hefur tekið þátt nokkrum samstarfsverkefnum sem snúa að nýsköpun og má þar nefna Hacking Norðurland, Ratsjáin,  Nýsköpunarvikuna og Matsjáin.  Lestu um þessi nýsköpunarverkefni hér að neðan.

SSNE hefur þá einnig verið með vinnustofu í umsóknaskrifum fyrir þá sem eru að skrifa umsóknir í sjóði Tækniþróunarsjóðs. Starfsfólk og ráðgjafar SSNE er alltaf til taks og ráðgjafar varðandi verkefni. Hægt er að hafa samband beint við starfsfólk eða senda tölvupóst á ssne@ssne.is.

Norðanátt

Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Norðanátt samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Fyrsti viðburðurinn er Vaxtarrými sem fer fram í haust og miðar að því að efla þau fyrirtæki sem eru nú þegar komin af stað. Í byrjun næsta árs fer fram vinnusmiðja sem styður við bakið á frumkvöðlum á fyrstu stigum og verður hún auglýst í nóvember. Í framhaldinu verður haldið Stefnumót fjárfesta á Norðurlandi þar sem fjárfestar og frumkvöðlar koma saman og kynnast öflugri nýsköpun og fjárfestatækifærum á svæðinu. Að verkefninu Norðanátt koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun.

Vaxtarrými var fyrsti viðburður Norðanáttar. Vaxtarrými var átta vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni, mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Vaxtarrými er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla en þó sérhannað með þarfir þátttakanda í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin sem voru valin, hittu reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi, sátu vinnustofur og fræðslufundi og mynduðu sterkt tengslanet sín á milli. Hraðallinn fór fram að mestu leyti á netinu en jafnframt hittust teymin fjórum sinnum á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Hér getur þú horft á uppskeruhátíð Vaxtarrýmis og kynningar frá teymunum átta.

Matsjáin

Matsjáin er verkefni sem er ætlað smáframleiðendum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni. Matsjáin fer fram á 14 vikna tímabili frá 6. janúar til 7. apríl og samanstendur af sjö lotum með heimafundum/jafningjaráðgjöf, fræðslu og erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Verkefnið fer fram á netinu þvert á landið og lýkur með veglegri uppskeruhátíð þar sem þátttakendur hittast í raunheimi.

Verkefnið hlaut styrk úr Matvælasjóði og er byggt upp að fyrirmynd Ratsjárinnar sem er verkefni fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu þróað af Íslenska ferðaklasanum. Samtök smáframleiðanda matvæla og landshlutasamtök sveitarfélaga um land allt standa að Matsjánni en verkefnisstjórn er í höndum RATA.

,,Eitt af megin markmiðum Samtaka smáframleiðenda matvæla er að hámarka ávinning félagsmanna af aðild og lykil áhersluverkefni að auka þekkingu og þróa verkfæri sem geta nýst þeim í þeirra rekstri. Við sóttum því um styrk í Matvælasjóð til að bjóða upp á metnaðarfullt fræðsluverkefni í samstarfi við landshlutasamtökin - sem myndi einnig stuðla að auknu samstarfi og samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt sem er einmitt megintilgangur samtakanna. Við erum stolt af því að geta stutt við bakið á okkar félagsmönnum og bjóðum alla aðra smáframleiðendur sem vilja slást í hópinn velkomna.” (Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla)

Matsjáin mun snerta á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag en endanleg dagskrá mun vera unnin í samstarfi við þátttakendur sem geta með kosningu haft áhrif á þá fræðslu sem boðið verður upp á. Listi yfir möguleg umfjöllunarefni er að finna inn í umsóknarforminu hér. Meðal ávinninga af þátttöku má nefna að efla fókus í starfsemi og framleiðsluferli, öðlast ný verkfæri og þekkingu, aukin leiðtogafærni, koma auga á ný viðskiptatækifæri og aukið tengslanet og mögulegt samstarf meðal þátttakenda.

,,Landshlutasamtökin tóku þátt í Ratsjánni fyrr á árinu og var mikil ánægja meðal þátttakenda og samtakanna með fyrirkomulagið og fræðsluna. Eftir samtal við SSFM sáum við að það var tækifæri á að nýta hugmyndafræðina í fleiri greinum og þróa verkefni fyrir smáframleiðendur matvæla. Við teljum verkefnið vel til þess fallið að efla stjórnendur í matvælaframleiðslu, ýta undir nýsköpun og vöruþróun í greininni og ekki síst stórefla tengslanetið á milli aðila sem getur ýtt undir samstarf og ný viðskiptatækifæri - allt þetta þvert á landið.” (Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV)


Frekari upplýsingar um Matsjánna veitir Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri SSNE / annalind@ssne.is / sími: 848-7440. 

Ratsjáin

Ratsjáin var fyrst keyrð í samstarfi Ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2016 en svo með stuðningi frá svonefndri Byggðaáætlun frá árinu 2019 sem lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum. Í dag er það Íslenski ferðaklasinn sem leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og Samtök sveitarfélaga á landsbyggðinni. Ratsjáin er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu en umræðu og verkefnavinnu er stýrt þannig að þátttakendur taki á flestum þeim áskorunum sem fyrirtæki í þessum geira standa fram fyrir s.s. vöruþróun, markaðssetningu, ábyrgð og sjálfbærni, stafrænni þróun, breyttum veruleika í kjölfar heimsfaraldurs svo eitthvað sé nefnt. Kynningarfundur fyrir Ratsjána 2022 var haldinn 25. janúar 2022 en verkefnið er 8 vikur og stendur yfir frá 15. febrúar - 5. apríl.

Hacking Norðurland

Lausnamótið Hacking Norðurland fór fram dagana 15.-18. apríl þar sem unnið var með sjálfbæra nýtingu auðlinda Norðurlands út frá orku, vatni og mat. Hacking Norðurland var samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri en um 100 manns komu að verkefninu á einn eða annan hátt.

Markmið lausnarmótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum viðskiptatækifærum og verkefnum, ásamt því að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi.

Áður en lausnamótið sjálft hófst var vefstofa til að veita innblástur, þar sem yfirskriftin var Matur – vatn – orka: Leiðin að sjálfbærni. Þar fluttu gestir erindi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra fór með ávarp og talaði um að öflugt frumkvæði væri víða um land og að mikill sóknarhugur væri á öllum landshlutum í nýsköpun og umhverfismálum. Eimur skipulagði vefstofuna og voru um 80 manns sem sóttu hana.

Lausnamótið sjálft hófst svo síðdegis, föstdaginn 16.apríl og stóð í 48 tíma. Lausnamótið fór fram á netinu í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp sem þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Þátttaka var því ekki háð staðsetningu.

Tæplega 70 þátttakendur skráðu sig til leiks og sjö þátttakendur kynntu verkefni sín fyrir dómnefnd. Um helmingur þátttakenda voru af Norðurlandi og þarf af átta búsettir á Norðurlandi vestra. Alls komu um 50 manns að lausnarmótinu á einn eða annan hátt sem fyrirlesarar, mentorar eða dómarar.

Sigurvegari Hacking Norðurland var verkefnið Grænlamb - Keldhverfskt kjöt af algrónu landi, en verkefnið felur í sér að búa til vörumerki fyrir keldhverfska sauðfjárbændur sem er vottun um að féð gangi á velgrónu og sjálfbæru landi. Samhliða því er ætlunin að auka verðmæti sauðfjárafurða Kelduhverfis og um leið gefa neytendum tækifæri til þess að kaupa kolefnislausan íslenskan próteingjafa. Að baki hugmyndarinnar standa frumkvöðlarnir Berglind Ýr Ingvarsdóttir, Guðríður Baldvinsdóttir og Salbjörg Matthíasdóttir sem eiga það allt sameiginlegt að vera sauðfjárbændur í Kelduhverfi.

Auk þess að veita viðurkenningu fyrir besta verkefnið var einnig veitt verðlaun fyrir Frumlegasta verkefnið, Vinsælasta verkefnið og Virkasta þátttakandan.

  • Frumlegasta verkefnið: Geothermal Ginger. Markmið verkefnisins er að rækta engifer og vinna úr því vörur sem og opna augu fleiri fyrir ræktun áður innfluttum vörum.
  • Vinsælasta verkefnið: Automated container farms for fresh and healthy vegetables. Verkefnið byggist á því að þróa fullkomlega sjálfvirkar ræktunareiningar í flutningagáma.
  • Virkasti þátttakandinn: Amber Monroe hlaut viðurkenningu fyrir Virkasta þátttakanda lausnamótsins en Amber var í forsvari fyrir verkefnið Ísponica. Áherslur verkefnisins er að samtvinna fiskeldi og ræktun á matjurtum í vatni (e. aquaponics).

Önnur verkefni sem tóku þátt í lausnamótinu má finna hér.

Nýsköpunarvikan

SSNE tekur þátt í Nýsköðunnarvikunni ár hvert með Norðanátt.

Hér er hægt að nálgast efni frá Nýsköpunarvikunni frá 2021 sem haldin var að mestu á netinu. 

Nýsköpunarhádegið voru sex viðburðir þar sem tekið var á móti góðum gestum úr mismunandi atvinnugreinum til að varpa ljósi á það frjóa og spennandi nýsköpunarstarf sem á sér stað á Norðurlandi. Fjallað var um nýsköpun í ferðaþjónustu, menntamálum, matvælaframleiðslu, hönnun og listum, menningarmálum og fleira.

Nýsköpun á Norðurlandi:

Nýsköpun í ferðaþjónustu:

Nýsköpun í menntamálum:

Nýsköpun í menningarmálum:

Nýsköpun í hönnun:

Nýsköpun í matvælaframleiðslu:

 

Hugmyndaþorpið Norðurland er hugmyndasamkeppni í tengslum við Nýsköpunarvikuna. Leitast var eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að auka og hvetja til fullvinnslu afurða. Keppnin fór fram í gegnum Hugmyndaþorp sem er hannað af Austan mána til að koma með hagnýtar og frumlegar hugmyndir útaf frá viðfangsefninu. Fullvinnsla afurða er sameiginlegt markmið sóknaráætlanna landshlutasamtakanna á Norðurlandi, SSNE og SSNV.

Dómnefnd:

  • Hildur Magnúsdóttir: Pure Natura - Framkvæmdastjóri
  • Jón Garðar Steingrímsson: Genis - Framkvæmdastjóri framleiðslu
  • Sveinn Margeirsson: Sveitarstjóri Skútustaðahrepps og verkefnastjóri Nýsköpun í norðri

Vinningshafar og verðlaun hugmyndaþorpsins: