Fara í efni

Ársskýrsla 2022

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA

Það má með sanni segja að árið 2022 hafi verið ár uppbyggingar og breytinga hjá félaginu. Þetta var fyrsta ár samtakanna þar sem Covid-19 faraldurinn fór að gefa undan og var í vor ársþing SSNE haldið í fyrsta skipti á staðfundi á Húsavík.

Í maí fóru fram sveitarstjórnarkosningar og komu því til starfa fjölmargir nýir sveitarstjórnarfulltrúar og samhliða því nýir sveitarstjórar í einhverjum tilfellum. Við sveitarstjórnarkosningar fækkaði sveitarfélögunum innan SSNE um tvö þegar Langanesbyggð og Svalbarðshreppur annars vegar og Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur hins vegar sameinuðust. Þá var ný stjórn SSNE skipuð í kjölfar sveitarstjórnarkosninga og tók Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri við keflinu af Hildu Jönu Gísladóttur sem formaður stjórnar SSNE.

En það urðu fleiri breytingar hjá okkur á árinu. Framkvæmdastjóraskipti urðu á árinu þegar Eyþór Björnsson hvarf til starfa hjá Norðurorku en undirrituð tók við stjórn félagsins 15. júní sl. Þá urðu einnig breytingar á starfsmannahópnum, en Rebekka Kristín Garðarsdóttir verkefnastjóri hætti störfum hjá félaginu í ágúst, og Arna Björg Bjarnadóttir verkefnastjóri Brothættra byggða verkefnisins Glæðum Grímsey lauk störfum um áramót en þá lauk verkefninu. Þá lét Kolfinna María Níelsdóttir verkefnastjóri einnig af störfum á árinu og færði sig yfir til Eims. Það er viðeigandi að nýta þetta tækifæri og þakka þeim öllum vel unnin störf hjá félaginu og óska þeim velfarnaðar í nýjum störfum. Tveir starfsmenn voru ráðnir til starfa hjá félaginu á síðasta ári. Kristín Helga Schiöth kom til starfa í nóvember sem verkefnastjóri í áhersluverkefni umhverfismála og Díana Jóhannsdóttir var ráðin sem verkefnastjóri í stað Rebekku Kristínar í haust en hún kom til starfa í janúar á þessu ári.

Starfsemi SSNE á Húsavík flutti á Hafnarstétt 3, eða á Stéttina eins og samfélagið þar er kallað. Við erum ákaflega glöð að vera komin í það skapandi og drífandi samfélag sem þar er, en þar koma saman m.a. Þekkingarnet Þingeyinga, Hraðið, FabLab Húsavík, Náttúrustofa Norðurlands eystra, Háskóli Íslands og fleiri stofnanir, félög og einstaklingar. Ef þið eruð á Húsavík eða eigið leið þangað hvet ég ykkur eindregið til að heimsækja okkur á Stéttinni.

Annars hefur þetta þriðja starfsár SSNE verið heilt yfir bæði gefandi og hvetjandi á margan hátt og er tilfinning okkar að jákvæðni sé ríkjandi á starfssvæðinu. Uppgangur er víða sem meðal annars má sjá í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis víðsvegar á starfssvæðinu, sem og uppbyggingu og fjárfestingum í ýmsum atvinnugreinum – allt frá ferðaþjónustu til sjávarútvegs. Það var stórviðburður þegar Hólasandslína 3 var spennusett á árinu, en aðgengi að orku er eitthvað sem skiptir miklu máli fyrir uppbyggingu samfélaga. Áframhaldandi uppbygging flutnings- og dreifinets raforku og aðgengi að grænni orku hefur líklega aldrei verið mikilvægari eins og fram kemur í Grænbók um orkumál sem kom út á árinu.

Starfsfólk og stjórn SSNE hafa verið að ná góðum takti saman og hefur vinna síðustu ára við samræmingu og innleiðingu ýmissa stefna og ferla verið að skila sér í skilvirkari vinnubrögðum og aukinni uppbyggingu verkefna. Það tókst vel til með úthlutanir bæði úr Uppbyggingarsjóði og áhersluverkefnum Sóknaráætlunar og var spennandi að fylgjast með þeim taka á sig mynd á árinu. Hér í skýrslunni má lesa meira um þessi vel heppnuðu verkefni.

 

Umhverfismálin voru fyrirferðarmikil á árinu og var sérstakt ánægjuefni að ráða annan starfsmann í umhverfismál í áhersluverkefni umhverfismála – spretthópavinnu í tengslum við loftslagsmál, sem við höfum miklar væntingar til að muni skila sér í forystu landshlutans í þessum málaflokki. Þá hefur starfsfólk okkar í umhverfismálum unnið ötullega að hagkvæmnimati líforkuvers í Eyjafirði, auk þess sem úrgangsmálin voru fyrirferðarmikil á síðasta ári.

Við hjá SSNE höfum verið að leggja æ meiri áherslu á stuðning við nýsköpun og má segja að verkefni tengd nýsköpun hafi blómstrað hjá okkur á árinu. Norðanáttin tók flugið á fjárfestahátíð á Siglufirði, stuðningsverkefnin Matsjá og Ratsjá heppnuðust vel, menningin blómstraði og náði félagið sérstaklega góðum árangri í styrkjasókn úr Byggðaáætlun svo fátt eitt sé nefnt. Fagráðin unnu sömuleiðis öflugt starf og verður spennandi að sjá hvernig aðkoma þeirra að starfsemi SSNE mun efla samtökin í framtíðinni. Allt um þessi verkefni og svo margt fleira má lesa um bæði hér í þessari ársskýrslu, en einnig er rétt að minna á mánaðarlegt fréttabréf okkar sem má finna á heimasíðu SSNE.

Annars má segja að allskyns samstarf hafi verið lykilþema á síðasta ári og er auðvitað alltaf megináhersla í starfsemi SSNE. Þannig eru samtökin vettvangur samstarfs sveitarfélaganna í landshlutanum, en við erum einnig í samstarfi við fjölmarga aðra aðila í tengslum við ýmis fjölbreytt verkefni. Þannig störfum við til að mynda með SAMNOR sem er samstarfsvettvangur framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra og erum aðili að EIMI og Norðanáttinni og fleira mætti nefna. Í lok september var landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri, en dagana á undan þinginu tók SSNE á móti formönnum og framkvæmdastjórum hinna landshlutasamtakanna á Húsavík. Samstarf landshlutasamtakanna, sem og Sambandsins, er nokkuð sem er starfseminni mjög dýrmætt og var því sérstaklega skemmtilegt að geta tekið á móti þeim hér og kynnt fyrir þeim ýmis verkefni á svæðinu, auk þess sem góður tími fór í samtal um sameiginleg verkefni og hagsmunamál. Þá hefur samstarfið við þingmenn kjördæmisins og Austurbrú verið til mikillar fyrirmyndar, en haldnir voru nokkrir fundir á árinu þar sem stjórnir landshlutasamtakanna funduðu með þingmönnum kjördæmisins um hagsmunamál kjördæmisins. Þá var sérstaklega skemmtilegt að hafa tækifæri til þess að heimsækja austursvæðið á árinu, þar sem við heimsóttum fyrirtæki og sveitarstjórnina í Langanesbyggð, en ferðinni lauk á Raufarhöfn þar sem haldinn var starfsdagur.

Að lokum vil ég þakka starfsfólk SSNE fyrir sérstaklega vel unnin störf á árinu 2022 og fyrir góðar móttökur þegar ég kom til starfa. Það reynir alltaf á þegar skipt er um forystu og hefur eflaust reynt stundum á þolinmæðina. Starfsmannahópurinn er öflugur og hafa þau sýnt bæði dugnað og samheldni á árinu sem sannarlega er til fyrirmyndar.


Með kærri kveðju
Albertína Friðbjörg 

 


STARFSMENN OG STARFSSTÖÐVAR


Starfsstöðvar SSNE:
Húsavík:Ari Páll Pálsson, Hildur Halldórsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson
Raufarhöfn: Nanna Steina Höskuldsdóttir
Ólafsfjörður: Anna Lind Björnsdóttir
Akureyri: Elva Gunnlaugsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson, Kristín Helga Schiöth og Díana Jóhannsdóttir

Viðvera SSNE
Bakkafjörður: Gunnar Már Gunnarsson
Dalvík og Siglufjörður: Anna Lind Björnsdóttir

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri er með starfsstöð á Akureyri en með fast viðveru á Húsavík  og reglulega viðveru á Tröllaskaga.

STJÓRN SSNE

Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar, Sigurður Þór Guðmundsson, Þröstur Friðfinnsson, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Þórunn Sif Harðardóttir og Helgi Einarsson. Katrín Sif Ingvarsdóttir tók sæti Helga í janúar 2023.

Fráfarandi stjórn SSNE

Frá vinstri: Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar, Sigurður Þór Guðmundsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Jón Stefánsson, Aldey Unnar Traustadóttir, varamaður Kristjáns Þórs Magnússonar, Þröstur Friðfinnsson og Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri. Á myndina vantar Helgu Helgadóttur.

 

SKÝRSLA STJÓRNAR

Árið 2022 hjá SSNE sannarlega fjölbreytt og gefandi og héldu samtökin áfram að vaxa og dafna, þrátt fyrir umtalsverðar breytingar á árinu. Ný stjórn tók við í júní í kjölfar sveitarstjórnarkosninga og hefur samstarf stjórnarinnar verið til fyrirmyndar. Á sama tíma og ný stjórn kom til starfa nýr framkvæmdastjóri.

Rétt er að þakka fyrrum formanni Hildu Jönu Gísladóttur og fyrri stjórn fyrir sérstaklega vel unnin störf á erfiðum tíma þar sem ekki aðeins var verið að byggja upp nýtt félag við sameiningu þriggja félaga, heldur þurfti að gera það og efla samstarfið í landshlutanum á sama tíma og Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst. Sömu þakkir má færa starfsfólk samtakanna sem stóðu sannarlega sína plikt í störfum sínum á síðasta ári í gegnum allar þær breytingar sem urðu á starfsemi félagsins. Það er dýrmætt fyrir félagið að hafa jafn framúrskarandi starfsfólk sem vinnur ötullega að framgangi og uppbyggingu félagsins og raun ber vitni.

Stjórn SSNE fundar alla jafna í fjarfundi, en haldnir voru þrír staðfundir. Þeir voru haldnir á Grenivík í mars, á Akureyri í ágúst og svo var einn staðfundur í haust en hann fór fram á Stéttinni, Húsavík þann 9. desember. Það var ánægjulegur dagur, en ekki aðeins fundaði stjórnin heldur var Stéttin formlega opnuð af Forseta Íslands við hátíðlega athöfn þennan sama dag. Það verður spennandi að fylgjast með samfélaginu á Stéttinni vaxa og dafna í framtíðinni en þarna er fer fram virkilega dýrmætt starf fyrir landshlutann, ef ekki landið allt.

Annars var margt fleira gleðilegt sem gerðist á árinu. Okkur tókst loks að halda ársfund þar sem þingfulltrúar mættu í persónu á Húsavík í apríl, sem og aukaþing í Eyjafjarðarsveit í september, en á árinu voru haldnir fjölmargir viðburðir sem samtökin stóðu að sjálf og í samvinnu við aðra. Þannig voru meðal annars haldnir á árinu opnir súpufundir um starfsemi SSNE á Tröllaskaga og fundur um orkumál á Húsavík, Norðanáttin blés á Siglufirði í apríl, haldið var málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri og ráðstefna um innviði – áskoranir í íbúðauppbyggingu og orkuöflun í apríl í samstarfi við Landsnet og Samtök iðnaðarins. Þá var haldið seinna aukaþing SSNE í desember en það fór fram í fjarfundi. Þá tókum við einnig á móti samstarfshópi stjórnarráðsins um Byggðamál á Akureyri í haust þar sem farið var yfir hvernig gengið hefur að vinna að markmiðum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

 

 

Eins og alltaf var Sóknaráætlun Norðurlands eystra og meðfylgjandi aðgerðaráætlun leiðarljósið sem unnið var eftir á árinu. Áhersluverkefni Sóknaráætlunar hafa mörg hver tekið á flug og voru fjölmörg ný og spennandi verkefni sett af stað á árinu 2022.

Í samræmi við ákvörðun fyrra ársþings var aukinn þungi settur í umhverfismálin á árinu 2022, en á árinu voru tveir verkefnastjórar sem sinntu umhverfistengdum verkefnum. Nokkuð mikil vinna fór í að vinna svæðisáætlun úrgangsmála fyrir Norðurland en þeirri vinnu lýkur nú í vor.

Frá því að samtökin voru stofnuð hefur SSNE verið þátttakandi í tveimur Brothættra byggða verkefnum; Glæðum Grímsey og Betri Bakkafjörður. Bæði þessi verkefni gengu vel á árinu 2022, en verkefninu Glæðum Grímsey lauk um áramót eftir að hafa verið í gangi frá árinu 2015. Þrátt fyrir að verkefninu sé lokið mun SSNE auðvitað halda áfram að styðja við íbúa í Grímsey eins og mögulegt er, líkt og aðrar byggðir á starfssvæðinu.

Fjölmargt fleira mætti nefna úr starfi SSNE á árinu 2022. Má þar nefna aukið samstarf landshlutasamtakanna og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, bókun stjórnar um lækkað fjármagn til Sóknaráætlunar og atvinnuráðgjafar, vinnu við samgöngustefnu og nýjan samning við Byggðastofnun um atvinnuráðgjöf og fleira.

Starfsemi SSNE grundvallast á samvinnu og er það sú samvinna sem skilar þeim sköpunarkrafti sem í samtökunum búa. Það er lykilatriði að við kjörnir fulltrúar, í samstarfi við starfsfólk SSNE, höldum áfram að byggja upp þennan dýrmæta samstarfsvettvang okkar. Stuðla þarf einnig áfram að öflugu samstarf samtakanna við ríkisvaldið og atvinnulífið. Saman tryggjum við bjarta framtíð landshlutans og áframhaldandi uppbyggingu.

F.h. stjórnar SSNE
Lára Halldóra Eiríksdóttir
Formaður

SÓKNARÁÆTLUN NORÐURLANDS EYSTRA 2022

Sóknaráætlun Norðurlands eystra var unnin 2019 og tók gildi árið 2020. Hún var gerð til 5 ára og gildir því til ársloka 2024. Fyrir áætlunina var unnið stöðumat landshlutans en á því byggist framtíðarsýn og markmið áætlunarinnar í tilgreindum málaflokkum. Áherslur hennar hafa áhrif á forgangsröðun verkefna og ráðstöfun fjármuna í landshlutanum. Hún skiptist í þrjá meginflokka; atvinnuþróun og nýsköpun, menningu og umhverfismál. Allt starf SSNE miðar að því að ná markmiðum sóknaráætlunar. Sóknaráætlunin er alltaf kynnt sérstaklega í öllum kynningum SSNE enda er hún stefnuskjal landshlutans og allt starf SSNE tekur mið af henni.
SSNE vinnur árangursmat á aðgerðum Sóknaráætlunar sem má finna hér

Aðgerðaáætlun SSNE er lifandi skjal þar sem verkefnum er safnað úr ýmsum áttum t.d. frá þingum SSNE, úr fagráðum SSNE, úr umhverfinu, starfsfólki SSNE, frá sveitarfélögum og stefnum stjórnvalda. Verkefnin geta fengið ólíkan farveg en öll eiga þau sameiginlegt að eiga stoð í sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Samráðsvettvangur

Í samningi um sóknaráætlun kemur fram að landshlutasamtökin skuli skipa samráðsvettvang sem hafi beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og sé upplýst um framgang hennar. Samráðsvettvangur SSNE var kallaður samaní fyrsta skipti20. desember 2022. Í honum situr fjölbreytur hópur fólks af öllu starfssvæði SSNE, fulltrúar stofnanna, sveitarfélaga, menningarlífs,ungmennaráðs, fjölmenningarráðs, atvinnulífs, verkalýðsfélaga og almenningur.

Á fundinum var farið yfir ítarlega kynningu á starfsemi SSNE og sérstaklega Sóknaráætlun, markmiðum hennar og verkfærum. Fundinum var ætlað að opna samtalið við þessa aðila, en á næsta fundi í byrjun árs verður árangursmat sóknaráætlunar kynnt og óskað eftir tillögum frá þeim í aðgerðaráætlun Sóknaráætlunar.



Uppbyggingarsjóður

Úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra í byrjun febrúar en til úthlutunar voru 75 m.kr. sem var 1 m.kr. lækkun frá fyrra ári. Metfjöldi umsókna barst þetta árið, 201 umsókn í heildina sem var 27% aukning á milli ára. 85 verkefni hlutu styrk sem skiptist svona:

Umsýsla Uppbyggingarsjóðs var í nokkuð föstum farvegi. Í úthlutunarnefnd sitja 6 einstaklingar, formenn allra fagráða og þrír skipaðir af stjórn SSNE:

Katrín Sigurjónsdóttir, formaður
Eva Hlín Dereksdóttir, formaður Fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður Fagráðs menningar
Ottó Elíasson, formaður Fagráðs umhverfismála
Thomas Helming
Guðni Bragason

Nefndin vann í fyrsta sinn eftir nýju verklagi við yfirlestur umsókna sem felst í því að hver umsókn er ítarlesin af tveimur aðilum úthlutunarnefndar en lauslesin af hinum fjórum. Var þetta gert til að minnka álagið við yfirlestur umsókna sem hefur fjölgað nokkuð ár frá ári og var orðið erfitt að manna nefndina vegna þessa. Úthlutunarnefnd hélt áfram með sérstaka áherslu í umhverfismálum.

Umsóknarfrestur fyrir árið 2022 var 10. nóvember 2021. Í aðdraganda umsóknafrests uppbyggingarsjóðs vegna úthlutunar 2022 voru auglýstar opnar vinnustofur starfsfólks á 12 stöðum vítt og breitt á starfssvæði SSNE dagana 4. til 7. október 2021. Tveir opnir kynningarfundir voru einnig haldnir á Teams fyrir þá sem ekki sáu sér fært að mæta á staðvinnustofu.

Reglulega eru tekin viðtöl við styrkþega og birt á miðlum SSNE. Þeim er ætlað að hvetja aðra til að sækja um styrki um leið og við aukum sýnileika þeirra verðugu verkefna sem unnið er að til uppbyggingar landshlutans alls.

Úthlutunarhátíð var haldin rafræn fimmtudaginn 3. febrúar frá Hlöðunni, Litla Garði. Hátíðin var einkar vel sótt enda umsóknir afar fjölbreyttar og bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá hvaða verkefni hljóta styrk; hvaða gerjun og gróska á sér stað á svæðinu okkar. Upptaka frá hátíðinni var í framhaldinu sett inn á Youtube rás samtakanna sem og Facebook síðu þeirra. Uppsafnaður áhorfsfjöldi fyrir upptökurnar voru 770 í lok árs, svo ljóst er að fólk hefur áhuga á hvert fjármagn Sóknaráætlunar fer.Framkvæmdastjóri fór yfir nýsköpunina í stjórnsýslunni, fyrrum styrkþegar veittu innsýn í sín verkefni og mikilvægi fjármagns í takt við ástríðu, formaður nefndarinnar og stjórnar fóru yfir tölfræði og mikilvægi þess að styðja við hugmyndaauðgi heimafólks og fá fjármagn heim í hérað til úthlutunar; sókn er besta vörnin. Alls bárust 158 umsóknir í sjóðinn sem skiptust þannig að 69 umsóknir voru í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar, 72 í flokki menningar og 17 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki.

Sótt var um rúmlega 341 m.kr. í 158 verkefni en til úthlutunar voru 75 m.kr. sem er sama fjárhæð og árið áður og skiptist þannig:

  • 27 verkefnastyrkir í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar, tæplega 30 milljónir 
  • 42 verkefnastyrkir í flokki menningar, tæpar 32 milljónir 
  • 11 stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar, rúmar 12 milljónir 

Umsóknir bárust úr öllum sveitarfélögum. Vert er að taka fram að mörg verkefni fóru fram í fleiri en einu sveitarfélagi en myndin hér að neðan endurspeglar lögheimili umsækjenda:

Útgefinn bækling vegna úthlutunar Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra 2022 þar sem verkefnin eru útlistuð má finna hér.

Breyting varð á úthlutunarnefndinnisíðla árs 2022 þegar Katrín Sigurjónsdóttir óskaði eftir lausn frá setu í nefndinni og tók Hilda Jana Gísladóttir við keflinu sem formaður nefndarinnar. Að auki óskuðu Guðni Bragason og Eva Hlín Dereksdóttir eftir lausn frá setu í nefndinni. Í þeirra stað komu Preben Jón Pétursson og Sigurður Þór Guðmundsson. SSNE þakkar Katrínu, Guðna og Evu Hlín kærlega fyrir góð og vel unnin störf.

Úthlutunarnefnd 2022 -2024:

Hilda Jana Gísladóttir, formaður
Thomas Helming, formamaður Fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður Fagráðs menningar
Ottó Elíasson, formaður Fagráðs umhverfismála
Preben Jón Pétursson, skipaður af stjórn SSNE
Sigurður Þór Guðmundsson, skipaður af stjórn SSNE

Fjallað verður nánar um kynningu og úthlutun 2023 í næstu ársskýrslu.


Áhersluverkefni

Stjórn og starfsfólk SSNE hefur náð góðum tökum á úthlutun og vinnslu áhersluverkefna. Þau hafa reynst árangursrík til að gera SSNE kleift að mæta markmiðum Sóknaráætlunar, en einnig mæta þörfum sveitarfélaga.Á stjórnarfundi 28. janúar 2022 samþykkti stjórn SSNE áhersluverkefni ársins og framlög til þeirra, síðar staðfest af stýrihópi Stjórnarráðsins. Um er að ræða 14 verkefni sem öll hafa skírskotun í sóknaráætlun. Alls var 62.895.000 kr. úthlutað að þessu sinni.Hægt er að smella á hlekkina hér að neðan til að lesa meira um hvert og eitt verkefni, auk þess sum um þau er fjallað víðar í þessari ársskýrslu.
Nafn verkefnis og upphæð:

Kynning og upplýsingamiðlun á ensku  2.000.000 kr.
Markaðs- og kynningarsókn framhaldsskólanna  3.200.000 kr.
Gullakistan: Námskráin og tækifærin allt um lykjandi - barnamenning 4.000.000 kr. 
Lærisneið 2.000.000 kr. 
Sjálfbær ferðaþjónusta á Norðurlandi 1.170.000 kr. 
Fræðsluáætlun varðandi umhverfis og loftslagsmál 4.525.000 kr. 
Ungmennaþing 1.000.000 kr. 
Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskólanemenda á Norðurlandi eystra 3.000.000 kr. 
Forgangsverkefni fjölmenningarráðs 1.500.000 kr. 
Stefnumótun og aðgerðaráætlun í landsnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum 15.000.000 kr. 
Norðurslóðamiðstöð Íslands 10.000.000 kr. 
Nýsköpun 6.000.000 kr.
Velferðartækni 7.000.000 kr. 
Samgöngu og innviðastefna Norðurlands eystra 2.500.000 kr. 

 

SSNE tók á móti stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál á Akureyri 1. nóvember. Í stýrihópnum sitja fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk áheyrnarfulltrúa frá Byggðastofnun. Farið var yfir framvindu Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og nokkur áhersluverkefni kynnt sérstaklega. Í almennum umræðum um sóknaráætlanir landshluta lýsti fulltrúi SSNE því mati sínu að sóknaráætlanir landshluta hafi stuðlað að valdeflingu heimamanna og stóreflt samstarf innan landshlutans, bæði milli sveitarfélaga og íbúanna sjálfra. Í lok fundar var sérstaklega rætt um millilandaflug um Akureyrarflugvöll og það mikilvæga hlutverk sem Akureyrarflugvöllur spilar fyrir svæðið. Sóknaráætlun Norðurlands eystra hefur stutt við bakið á þessum verkefnum, m.a. þá fékk Niceair styrk til að ráðast í rannsóknir áður en félagið hóf flug og stuðningur við uppbyggingu Akureyrarflugvallar.

Fundurinn var haldinn í Menningarhúsinu Hofi. Áður en fundurinn hófst sagði Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri frá starfsemi Menningarfélags Akureyrar og þeim verkefnum sem hafa verið styrkt úr Sóknaráætlun. Þá kynnti Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistastjóri starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í glæsilegu hljóðveri hennar, en hljóðverið er eitt af þeim verkefnum sem fengið hafa styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra, sem gaf þeim byr undir báða

ATVINNU- OG BYGGÐAÞRÓUN

SSNE starfar eftir samningi við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun, en markmið samningsins er m.a. að skapa grundvöll samstarfs um byggðaþróun í samræmi við stefnu Alþingis í byggðamálum, með áherslu á búsetuskilyrði og samkeppnishæfni, nýsköpun- og atvinnuþróunarsamstarf. Félagið gerir m.a. úttekt á möguleikum atvinnulífs á svæðinu og hvernig megi nýta þá sem best. 

Samtökin leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífsins, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Félagið miðlar fengnum upplýsingum um starfsemi þessara aðila og vinnur að bættum samskiptum þeirra við atvinnulíf á starfssvæðinu. Samtökin taka þátt í námskeiðahaldi varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja, fjármögnun viðskiptahugmynda o.þ.h. í samstarfi við Byggðastofnun og aðrar stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs og byggðaþróunar. 

Með því að stuðla að samstarfi aðildarsveitarfélaga er ekki aðeins verið að styrkja landshlutann og efla samstöðu, heldur einnig verið að skjóta styrkari stoðum undir atvinnu- og byggðaþróun. Markmiðið styður einnig hlutverk SSNE í að „vinna að málum sem eru aðildarsveitarfélögunum sameiginleg innan starfssvæðisins.“ 

  • Fagráð atvinnuþróunar- og nýsköpunar kom ekki saman á árinu vegna starfsmannabreytinga hjá SSNE en hefur þegar komið saman á árinu 2023.

    Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar 2022-2024:

    Thomas Helmig, formaður fagráðs, Norðurþing

    Sigríður Róbertsdóttir, Eyjafjarðarsveit

    Preben Jón Pétursson, Akureyrarbær

    Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, Fjallabyggð

    Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, Þingeyjarsveit

Föstudagsfundir

SSNE leggur mikla áherslu á að auka samstarf við sveitarfélögin og efla samstarf þeirra á milli. Mikilvægur liður í því eru fundir SSNE með kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og framkvæmdastjórum þeirra, svokallaðir föstudagsfundir. Þessir fundir eru orðnir fastir í sessi mánaðarlega, með hléi yfir sumartímann og þegar þing SSNE eru haldin. Viðfangsefni fundanna eru mjög fjölbreytt og yfirleitt höfum við fengið aðila inn á fundinn til að fara yfir málefni sem efst eru á baugi eða teljast mjög brýn.

  • Á föstudagsfundinum í janúar kom Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sveitarfélaga og byggðarmála í innviðaráðuneytinu, áður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Hún kynnti stefnu í málefnum sveitarfélaga með sérstakri áherslu á aðgerðaráætlun stefnunnar fyrir árin 2019-2023, aðdraganda og stöðu hvers verkefnis fyrir sig.

    Í febrúar kom Fjóla María Ágústsdóttir frá Sambandinu og kynnti starfrænt ráð sveitarfélaganna, fór yfir stöðu mála og greindi frá þeirri vinnu sem var í gangi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

    Á októberfundinum fjallaði Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður SSNE um vinnu loftslagsráðs, en hann situr í loftslagsráði fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og heldur þar hagsmunum sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins sérstaklega á lofti.

    Í nóvember fengum við kynningu á svæðisskipulagi Austurlands frá Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar og þá vinnu sem lá þar að baki.

Sýnileiki SSNE á miðlum SSNE

Heimasíða SSNE www.ssne.is er þungamiðja í miðlun upplýsinga og gegnir lykilhlutverki í öllu okkar kynningarstarfi. Á vefnum er til gott safn gagnlegra upplýsinga m.a. um starfsemina, stefnumál stjórnvalda, fundargerðir, reglur og samþykktir, styrkjaumhverfið og fréttum af innra starfi. Þar er einnig hægt að panta viðtal við atvinnuráðgjafa og skrá sig á póstlista fréttabréfs SSNE. Birtar voru 207 fréttir á árinu og rétt yfir 100 viðburðir og umsóknarfrestir. Til stendur að fara í breytingar á heimasíðunni til einföldunar og til að tryggja að það efni sem er sett þar inn sé aðgengilegt.

SSNE heldur úti Facebook síðunni, en á henni eru um 1500 fylgjendur. Síðan er notuð til að draga inn umferð á heimasíðu SSNE og er fréttum meðal annars deilt þangað inn í þeim tilgangi. Jafnframt er Facebook síðan notuð til að deila myndum og öðru efni af fundum og fyrirlestrum sem SSNE tekur þátt í. SSNE notast einnig töluvert við viðburðaeiningu Facebook til að kynna viðburði á sínum vegum enda ljóst að slíkir viðburðir fá oft góða dreifingu.

Instagram síða SSNE er almennt notuð til að koma á framfæri auglýsingum og upplýsingum um viðburði og fundi sem SSNE heldur eða tekur þátt í. Þar eru rétt um 700 fylgjendur sem fylgjast með uppfærslum síðunnar.

SSNE heldur úti Youtube rás en tilgangur hennar er einungis að vera vettvangur til að geyma upptökur og myndbönd svo hægt sé að deila þeim á öðrum miðlum.

Haldið hefur verið úti mánaðarlegu fréttabréfi þar sem dregnar eru saman helstu fréttir líðandi mánaðar en einnig er birtur pistill frá framkvæmdastjóra í hverju fréttabréfi. Yfir 200 aðilar eru skráðir á fréttabréfalista SSNE, en í núverandi kerfi er ekki hægt að fá yfirlit yfir hversu margir opna fréttabréfið eða lesa fréttirnar. Til stendur á næsta ári að taka í notkun nýja fréttabréfaeiningu þar sem betur er hægt að skoða lestur og útbreiðslu fréttabréfsins. Við hvetjum alla til að skrá sig á póstlista fréttabréfsins.

Fjölmenningarráð
Eftir kröftuga byrjun fór lítið fyrir starfsemi Fjölmenningarráðs SSNE á árinu og er það miður. Ráðið hefur ekki verið endurmannað eftir sveitarstjórnarkosningar en nokkrar mannabreytingar voru nauðsynlegar eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir. Þá urðu mannabreytingar hjá SSNE líka en fulltrúi okkar í ráðinu hvarf til annarra verka í um sumarið og hennar staða ekki fyllt fyrr en 1.janúar 2023. Verkefni ráðsins eru mikilvæg og hefur starfsemin verið tryggð með fjármögnun úr sjóði áhersluverkefna SSNE 2023. Það er því frekari frétta að vænta af störfum ráðsins á nýju ári.

Ungmennaþing SSNE
Ungmennaþing SSNE fór fram í menningarhúsinu Bergi á Dalvík dagana 13.-14 október og var þar samankominn hópur ungmenna úr sveitarfélögum landshlutans, ásamt starfsmönnum sveitarfélaga. Markmið þingsins var að valdefla ungmennin, fá raddir þeirra í Sóknaráætlun og gefa þeim tækifæri til að kynnast ungmennum úr öðrum sveitarfélögum. Þingið var vel heppnað og stefnt er að því að halda slíkt árlega. Þetta var í þriðja sinn sem Ungmennaþing er haldið í landshlutanum en verkefnið var eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2022.
Lesa má nánar um þingið hér í niðurstöðu skýrslu þingsins.

Auka fjármagn inná svæðið í gegnum styrktarsjóði

Markmið SSNE er að vera leiðandi í verkefnum sem leiða af sér fjölgun atvinnutækifæra og starfandi fyrirtækja með fjölbreytni að leiðarljósi. Stuðningur við öflugt atvinnulíf til framtíðar með áherslu á nýsköpun, menningu og atvinnuþróun, mótun svæðisskipulags og hagsmunagæslu þar af lútandi. SSNE lagði töluverðan tíma í stuðning við frumkvöðla á árinu m.a. með þátttöku í Norðanátt sem er samstarfsverkefni SSNE, SSNV og EIMS.

Eitt af markmiðum SSNE er að auka styrkjafé inná starfssvæði SSNE. Svæðið á mikla möguleika á að sækja í sjóði til rannsókna og atvinnuuppbyggingu. Starfsfólk SSNE hefur fylgst með þróun úthlutana og vakið athygli á auglýstum styrkjum. Veitt er ráðgjöf við umsóknaskrif en SSNE hefur einnig boðið stuðning við mjög sérhæfða ráðgjöf í umsóknaskrifum, sjá nánar hér.

Sérstaklega má nefna sjóði eins og Lóu, Matvælasjóð, Atvinnumál kvenna og sjóði Tækniþróunarsjóðs. Haldnir hafa verið rafrænir kynningafundur sem SSNE hefur tekið þátt í og vakið athygli á. En einnig hafa sjóðirnir bætt mjög upplýsingagjöf sína um dreifingu styrkjanna yfir landið og því auðveldara átta sig á hlutfallinu sem kemur á starfssvæði SSNE.

Þó að gengið hafi ágætlega síðustu ár að ná styrkjum inn á svæðið er ljóst að við gætum verið að ná mun meiri árangri, ekki síst þegar litið er til þess hversu öflugir bakhjarlar eru á svæðinu með Háskólann á Akureyri í fararbroddi.

Frumkvöðlasetur –samvinnusetur – stuðningur SSNE

Samvinnu- og frumkvöðlasetur hafa verið að skjóta upp kollinum víða um land og er Norðurland eystra ekki undantekning. Regus var með í undirbúningi skrifstofuhótel á Siglufirði sem opnaði formlega í mars 2023. AkureyrarAkademían hefur með samningi við Akureyrarbæ boðið upp á fría aðstöðu fyrir einstaklinga til að vinna að þróun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna. Stéttin á Húsavík er samfélag stofnana, m.a. SSNE, fyrirtækja og einstaklinga á Húsavík sem starfa við nýsköpun, rannsóknir, þróun og þekkingarstarfsemi. Þar geta einstaklingar og fyrirtæki leigt aðstöðu.

Í Langanesbyggð hófstá árinu undirbúningur að myndun atvinnu- og þróunarseturs í húsnæði Langanesbyggðar, Fjarðarvegi 5, á Þórshöfn. Atvinnu- og þróunarsetrið fær að líkindum nafnið „Kistan – þróun og þekking“. Vinnuhópur var skipaður til að hafa umsjón með verkefninu til loka árs 2023 og er m.a. skipaður fulltrúa frá SSNE, Gunnari Má Gunnarssyni.

Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands (Veltek)

Veltek var áfram áhersluverkefni SSNE á árinu. Klasinn hefur komið undir sig fótunum og hélt afar vel heppnað málþing í júní með þemað „Samþætting heilbrigðis- og velferðarþjónustu, sjálfbær þjónusta og sjálfstæðir notendur“.

Við opnun málþingsins flutti heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, rafrænt ávarp og því næst voru kynnt ýmis norræn verkefni á sviðinu. Ávörp voru flutt um áskoranir á norðurslóðum, nýsköpun og velferðartækni til stuðnings við sjálfstæða búsetu. Að loknum hádegisverði var svo fjallað um dagþjálfun á hjúkrunarheimilum, velferðartækni í heimahjúkrun, nýsköpun í öldrunarþjónustu Fjallabyggðar, heilbrigðisfræðslu og leiðir til að styðja sjúklinga til meiri virkni í eigin meðferð.
Ýmis fyrirtæki kynntu lausnir sínar, en markmið Veltek er að leiða saman atvinnulífið, sveitarfélög og menntastofnanir á breiðum grundvelli til að styðja við innleiðingu heilbrigðis- og velferðartækni á Norðurlandi.

Meðan á málþinginu stóð var undirrituð yfirlýsing Veltek, Fjallabyggðar og HSN um samstarf varðandi innleiðingu velferðartækni í sveitarfélaginu. Dagskrána má sjá hér.

Síðasta starfsár hafði Veltek frumkvæði að því að setja saman norrænan hóp sem samanstendur af aðilum sem deilt geta reynslu og sambærilegum áskorunum og sveitarfélögin á Norðurlandi eystra. Hópinn skipa, auk Íslendinga, aðilar frá Færeyjum, Norður Svíþjóð og Írlandi. Hópurinn stefnir að því að sækja saman um styrk í Norðurslóðaáætlun með það fyrir augum að efla nýsköpun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu í dreifðum byggðum.

Efla aðgengi og fjölbreytni í námsframboði á öllum skólastigum

Eitt af markmiðum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra er að efla aðgengi og fjölbreytni í námsframboði á öllum skólastigum með áherslu á list-, tækni- og verknám. Verkefni SSNE eru að ýmsum toga og má þar til dæmis nefna stuðning við starfamessu sem haldin er í Háskólanum á Akureyri sem skipulögð er af námsráðgjöfum í grunnskólunum á Akureyri. Öllum grunnskólum á starfssvæði SSNE var boðið að taka þátt.

Samstarf SSNE og SAMNOR (samstarfsvettvangur framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra) hefur verið farsælt og gott. Á árinu 2022 var unnið að sameiginlegri kynningarherferð framhaldsskólanna sem valin var eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Afrakstur verkefnisins fór í loftið í mars 2023.

Listnám á háskólastigi var áhersluverkefni 2021 sem dróst vegna samkomutakmarkanna. Málþing var haldið á fyrri hluta árs 2022 og var það vel sótt og vakti verðskuldaða athygli. Þar skrifuðu rektor Háskólans á Akureyri Eyjólfur Guðmundsson, og rektor Listaháskóla Íslands Fríða Björk Ingvarsdóttir undir áframhaldandi samstarfsyfirlýsingu skólanna. SSNE vann í framhaldinu greiningu á möguleikum sem felast í samstarfi skólanna.

Hér má sjá myndir frá málþinginu

Frá og með hausti 2023 mun Háskólinn á Akureyri bjóða upp á nám í iðnaðar- og orkutæknifræði á Norðurlandi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Lengi hefur verið rætt um þörfina fyrir tækninám við háskólann til að mæta þörfum atvinnulífs á Norðurlandi. SSNE fagnar mjög þessum áformum Háskólans á Akureyri.

Eitt af því sem SSNE hefur talað fyrir er mikilvægi aðgengis að fjarnámi á háskólastigi. Í samhengi við það var eftirfarandi ályktun samþykkt á aukaþingi SSNE í september:

„Aukaþing SSNE haldið í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit 23. september 2022 leggur þunga áherslu á aukið aðgengi að fjarnámi á háskólastigi, sem skiptir sköpum fyrir lífsgæði og atvinnulíf á svæðinu. Hvetur þingið háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til að beita sér af fullum þunga fyrir því að háskólar landsins bjóði upp á fjölbreytt fjarnám. Þar sem stærsti háskóli landsins, Háskóli Íslands, hefur ekki sýnt nægjanlegan vilja í verki til að sinna nemendum utan höfuðborgarsvæðisins, sér aukaþing SSNE ástæðu til þess að hvetja sérstaklega stjórnendur HÍ og kennara skólans til að gera almennt betur í þjónustu við íbúa landsbyggðanna, sem hvorki þarf að vera kostnaðarsamt né flókið.“

Lærisneið

Eitt af áhersluverkefnum ársins var Lærisneið – múrarnir rofnir. Framkvæmdaraðili var Ásgarður skóli í skýjunum. Markmið verkefnisins var að bjóða uppá fjölbreyttar valgreinar fyrir 8.-10. bekk í fámennum skólum.

Í samráði við skólastjórnendur í fjórtán skólum var ákveðið að gefa nemendum kost á að koma með tillögur að valgreinum og taka þátt í forvalskönnun þar sem við þrengdum hugmyndir þeirra úr 40 valgreinahugmyndum og niður í nítján. Við erum í skýjunum! Kökuskreytingar, íþróttaval, eðlis- og efnafræðival, kvikmyndagerð, franska, þýska, hljóðblöndun, kynjafræði, rafíþróttir, tölvuleikjahönnun og leiklist – svo eitthvað sé nefnt. Nemendur blandast inn í hópana og sem dæmi má nefna að krakkar úr fjórum ólíkum skólum velja sér eðlis- og efnafræði, eitthvað sem mjög erfitt hefði verið að sinna inni í hverjum skóla fyrir sig og er erfitt að sinna í fjölmennari skólum líka.

Ég þori að fullyrða að allir sem hafa komið að verkefninu hingað til eru að springa úr spenningi. Hér erum við í sameiningu að vinna að mjög mikilvægum byggðaverkefnum sem eru í raun svo mikilvæg að við efumst ekki um að áhrifin verða veruleg. Ef nemendur í fámennum skólum geta fengið reglubundin aðgang að valgreinum við hæfi og sérhæfðri ráðgjöf og þjónustu í gegnum netið – þá erum við að auka fjölbreytni, efla tengslanet nemenda, nýta sérþekkingu kennara þvert á sveitarfélög, auka stærðarhagkvæmni, styrkja og efla gæðastarf í grunnskólum og rjúfa félagslega einangrun. Ennfremur verður lögð áhersla á grunnþætti menntunnar, lykilhæfni nemenda og sköpun.

Kristrún Lind Birgisdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs

Norðurslóðamiðstöð Íslands

Ein af áherslum SSNE er að styðja við Norðurslóðastarf á starfssvæðinu. Eitt af verkefnunum hefur verið að vekja athygli á starfseminni, fjölbreytileika hennar og gagnsemi, efla sveitarfélögin til að taka þátt og vinna með þeim. Starfsmenn Norðurslóðanetsins heimsóttu flest sveitarfélögin á árinu og kortlögðu áherslur og verkefni á svæðinu. Einnig er í undirbúningi vinna ljósmyndasýningu og nýja heimasíða. Undirbúningur við Arctic Art Summit fór einnig í gang á árinu en áætlað er að hátíðin verði haldin sumarið 2024 á Akureyri og nágrenni. Hátíðin er haldin árlega og þar koma saman fulltrúar norðurskautslanda og frumbyggja til að örva samvinnu í listum og skapandi greinum. SSNE tekur þátt í undirbúningnum en einnig situr starfsmaður SSNE sem áheyrnafulltrúi í stjórn Norðurslóðanetsins.

Stuðla að jákvæðri byggðaþróun og standa vörð um hagsmuni jaðarbyggða

Með því að stuðla að jákvæðri byggðaþróun er sérstaklega verið að styðja við verkefni innan byggðaáætlunar, sóknaráætlunar og verkefni innan Brothættra byggða þar sem markvisst er unnið að því að stuðla að öflugu atvinnulífi og að gera landshlutann að samkeppnishæfum valkosti, bæði til atvinnu og búsetu.  Á árinu 2022 voru tvö verkefni í Brothættum byggðum hýst hjá SSNE; Glæðum Grímsey og Betri Bakkafjörður.

Glæðum Grímsey

Verkefnið í Grímsey hófst árið 2015 og hóf verkefnisstjóri störf í nóvember sama ár. Íbúaþing var haldið í Múla í Grímsey í byrjun maí 2016 og út frá niðurstöðum þess var unnin framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið. Þar völdu Grímseyingar líka nafn verkefnisins, þ.e. Glæðum Grímsey. Drög að stefnumótun kynnt fyrir íbúum á vel sóttum fundi í lok árs 2016. Verkefnið byggir í grunninn á þremur meginmarkmiðum og undir þeim eru svo skilgreind 34 tímasett starfsmarkmið.

Á íbúafundi í Grímsey í júlí 2021 greindi Halla Björk Reynisdóttir, formaður verkefnisstjórnar og forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá ákvörðun um framlengingu verkefnisins til loka árs 2022. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar samtals fulltrúa Akureyrarbæjar við stjórnvöld og samþykktar ríkisstjórnar þar að lútandi. Byggðastofnun lagði til fjármuni úr Brothættum byggðum líkt og verið hafði undanfarin ár til verkefnisstjórnunar og til að styrkja framfaraverkefni. Að auki lögðu Akureyrarbær og SSNE verkefninu lið og annaðist SSNE umsýslu þess ásamt Byggðastofnun. Þáttur íbúa í Grímsey við að styrkja samfélagið með ýmsum framfaraverkefnum og dugnaði sínum vegur þó þyngst í verkefninu.

Verkefnisstjóri Glæðum Grímsey frá ágúst 2021 til loka árs 2022 var Arna Björg Bjarnadóttir.

Meginmarkmið Glæðum Grímsey voru:

  • Traustur atvinnuvegur
  • Samheldið samfélag
  • Einstakur staður

Í upphafi árs 2022 var úthlutað úr Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey. Heildarkostnaður við verkefnin var alls um 55.5 m.kr. Sótt var um styrki að upphæð alls 23.3 m.kr. Samtals voru 16.430.000 kr. til úthlutunar og var þeim úthlutað til 12 samfélagseflandi verkefna. Um er að ræða upphæð fyrir bæði úthlutunarárin 2021 og 2022, auk endurúthlutunarfjár vegna óunninna verkefna. Þetta var síðasta styrkjaúthlutun í verkefninu Glæðum Grímey, en því lauk í lok árs 2022. Fjöldi og metnaður umsókna sem bárust í Frumkvæðissjóðinn endurspeglar áhuga fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á að þróa og efla atvinnulíf og samfélag í Grímsey. Nánar hægt að lesa um verkefnin hér.

Málþing um leiðir til verðmætasköpunar í matvælavinnslu og ferðaþjónustu var haldið í Grímsey þann 23. október í samvinnu við Háskólann á Hólum og Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. Dagskrá málþingsins var fjölbreytt og var farið m.a. í gegnum uppbyggingu áfangastaða frá skapandi hugsun til blómstrandi byggða. Þórhildur María Jónsdóttir hélt erindi um Matarauð - Sóknarfæri til verðmætasköpunar. Laufey Haraldsdóttir lektor kynnti fyrstu niðurstöður úr rannsókn á meðal ferðamanna í Grímsey sumarið 2022. Umræður sköpuðust um tækifæri til uppbyggingar og aukinnar verðmætasköpunar í Grímsey. Mikillar bjartsýnni gætti á fundinum.

Almennur íbúafundur var haldinn í beinu framhaldi af ráðstefnunni þann 24. október 2022. Á fundinum ákváðu íbúar sjálfir dagskrá fundarins m.t.t. þess hvað þeim þótti mikilvægast að ræða. Þá var farið yfir núverandi starfsmarkmið en þau rímuðu mjög við þá dagskrá sem íbúar voru búnir að ákveða. Flestir vildu ræða ferjumál en Grímseyingar telja mikla þörf á nýrri ferju strax.

Annað umræðuefni var borun eftir heitu vatni. Verkefnisstjóri lagði til að skipaður yrði spretthópur/jarðhitahópur til að fara yfir þann möguleika, þ.e. safna göngum um boranir sem gerðar voru eftir heitu vatni í Grímsey á fyrsta áratug aldarinnar og koma með tillögur að næstu skrefum. Í hópinn buðu sig fram Halla Ingólfsdóttir, Ingólfur Bjarni Svafarsson og Sigurður Henningsson.

Á meðan verkefnisstjóri dvaldi í eyjunni bauð hún upp á samtöl og atvinnuráðgjöf sem voru vel sótt. Jarðhitahópurinn fundaði tvisvar sinnum og fór í vettvangsferð á boranasvæðið. Verkefnið hlaut svo brautargengi úr stefnumótandi byggðaáætlun C1: Kostir í hitavæðingu Grímseyjar. Fyrirhugað er að staðsetja vinnsluholu og endurmeta fyrri gögn. Verkefnið hlaut styrk að upphæð 4.300.000 kr.

Mikið var leitað til verkefnisstjóra með atvinnuráðgjöf og aðstoðaði verkefnastjóri við margar umsóknir í uppbyggingarsjóð og aðra sjóði.

Betri Bakkafjörður

Í upphafi árs fór fram úthlutun styrkja úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar fyrir árið 2022. Alls voru 8,8 milljónum króna úthlutað til tíu samfélagseflandi verkefna á árinu 2022 en sautján umsóknir bárust um styrki að upphæð kr. 42,9 milljónir. Sjá nánar hér

Þá fór einnig fram undirritun samfélagssáttmála milli íbúa við Bakkaflóa, Langanesbyggðar og Byggðastofnunar vegna byggðar við Bakkaflóa. Tvennir íbúafundir voru haldnir á Bakkafirði á árinu. Sá fyrri var haldinn 24. mars þegar Bakkfirðingar tóku á móti forseta og forsetafrú í opinberri heimsókn þeirra í Langanesbyggð. Seinni íbúafundurinn var haldinn 18. ágúst af verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar. Íbúar ræddu sín á milli árangur verkefnisins Betri Bakkafjörður og settu fram endurnýjuð starfsmarkmið. Fundurinn var afar vel sóttur en að honum loknum var nýr útsýnispallur vígður á Bakkafirði. Um er að ræða fyrsta áfanga verkefnisins „Hafnartanginn á Bakkafirði – áningarstaður við ysta haf“.

Sótt var í ýmsa sjóði á árinu til styrktar byggðar við Bakkaflóa. Langanesbyggð hóf t.a.m. tilraunaverkefni um orkusparnað, í samstarfi við bæði Orkusjóð og SSNE, sem hlaut 10.000.000 kr. styrk úr C.01 - Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða til að koma að verkefninu með Langanesbyggð. Bakkafjörður er staðsettur á skilgreindu köldu svæði og gengur verkefnið út á að bora holur í jörð á völdum stöðum, gagngert til að nýta með jarðvarmadælum. Þá auglýsti Þjóðskjalasafn Íslands til umsóknar tímabundið starf á Bakkafirði við skráningu sóknarmannatala. Starfið byggir á styrktarsamningi Þjóðskjalasafns Íslands við Byggðastofnun f.h. innviðaráðherra, með vísan í aðgerð B.8 – Fjarvinnslustöðvar í stefnumótandi byggðaáætlun. Tilraunaverkefni um pöntunarþjónustu, framhald fyrra verkefnis frá 2019 sem er lokið, fékk einnig styrk að upphæð kr. 1.644.000 á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verkefna sem tengjast aðgerð A.9 – Verslun í dreifbýli. Að lokum gerðu SSNE og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með sér samning sem hefur það að markmiði að koma á samstarfi um stofnun starfsstöðvar í náttúrurannsóknum á Bakkafirði. Framlag til verkefnisins kemur einnig úr stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, aðgerða C.9 – Náttúruvernd til eflingar byggðaþróunar.

Þá voru Bakkfirðingar duglegir að sækja í aðra sjóði. Þannig hlutu t.a.m. þrjú verkefni Bakkfirðinga styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra að þessu sinni. Fiskvinnslufyrirtækið Bjargið ehf. hlaut einnig styrk að upphæð kr. 4.500.000 úr Lóunni nýsköpunarsjóði fyrir verkefnið Grásleppugæði, og Bakkasystur ehf. hlutu styrk til atvinnumála kvenna að upphæð kr. 1.500.000.

Heimsókn í Hrísey

Í september heimsóttu fulltrúar stjórnar í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar eyjuna. Verkefnið var hluti af samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Akureyrarbæjar og SSNE og íbúa eyjarinnar undir hatti Brothættra byggða. Tilgangur ferðarinnar var að hitta heimafólk og sjá hver framvindan hefði verið eftir að verkefninu lauk í lok árs 2019. Einnig var við þetta tækifæri afhentur styrkur til þróunarverkefna í Hríseyjarskóla að upphæð 2.329.920 kr., en um var að ræða fjármuni sem ekki höfðu nýst í verkefnum í fyrri úthlutunum í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar. Þórunn Björg Arnórsdóttir, skólastjóri sagði gestunum frá skólastarfinu og sýndi þeim skólann. Þá fóru Linda María Ásgeirsdóttir og Ingólfur Sigfússon yfir helstu málefni eyjarinnar og sögðu frá því hvað hefði áunnist, bæði í vinnu að markmiðum sem sett voru fram í upphafi verkefnisins og fyrir tilstilli styrkja til frumkvæðisverkefna.


Ljósmynd: Kristján Halldórsson

Svæðisborgin Akureyri

Í október var skipaður starfshópur til að móta borgarstefnu. Starfshópurinn vinnur á grundvelli aðgerðar C.4 (Borgarstefna) í byggðaáætlun 2022-2036. Markmið aðgerðarinnra er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins. Þannig er hlutverk hópsins annars vegar að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar á hópurinn að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar og hvernig hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri SSNE situr í starfshópnum fyrir hönd SSNE. Að auki sitja í starfshópnum Ásthildur Sturludóttir og Gunnar Már Gunnarsson fyrir hönd Akureyrarbæjar, Dagur B. Eggertsson og Hildur Björnsdóttir fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Páll Björgvin Guðmundsson fyrir hönd SSH og Ingvar Sverrisson framkvæmdastjóri Aton JL sem er formaður starfshópsins. Þá starfar starfsfólk innviðaráðuneytisins og Byggðastofnunar með hópnum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023 og hafa störf starfshópsins gengið vel fram að þessu.

Stefnumótandi byggðaáætlun

SSNE hefur gengið vel að sækja í sjóði stefnumótandi byggðaáætlunar til verkefna á starfssvæðinu.

Á árinu kom styrkur gegnum aðgerð B.08 í stefnumótandi byggðaáætlun, fjarvinnslustöðvar. Þar er um að ræða samstarfsverkefni SSNE, Þjóðskjalasafns, Norðurþings og Langanesbyggðar. Störfin felast í vinnu við innslátt sóknarmannatala í rafrænan gagnagrunn. Um er að ræða tvö stöðugildi til 18 mánaða sem eru staðsett á Raufarhöfn og Bakkafirði.

Innviðaráðherra úthlutaði úr aðgerð A.09 í stefnumótandi byggðaáætlun, verslun í dreifbýli. Markmið aðgerðarinnar er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Að þess sinni var úthlutað 30 milljónum og komu 13,7 milljónir í hlut verslana á starfssvæði SSNE. SSNE óskar þeim öllum til hamingju með styrkinn.

Eftirfarandi fengu styrk:

  • Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði – 1.644.000 kr.
  • Hríseyjarbúðin – 4.730.000 kr.
  • Verslun í Grímsey – 2.000.000 kr.
  • Lágvöruverslunin Skerjakolla á Kópaskeri – 2.826.000 kr.
  • Verslunin Urð efh., Raufarhöfn – 2.500.000 kr.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) gerðu með sér samning á grundvelli aðgerðar C.09 í stefnumótandi byggðaáætlun, Náttúruvernd til eflingar byggðaþróunar. Markmið verkefnisins er að koma á samstarfi um stofnun starfsstöðvar í náttúrurannsóknum á Bakkafirði. Auk SSNE taka Langanesbyggð og Náttúrustofa Norðausturlands þátt í verkefninu, en aðkoma fleiri aðila verður skoðuð í þeirri vinnu sem er framundan. Styrkur að fjárhæð 3.000.000 kr.

Innviðaráðherra hefur úthlutað styrkjum að fjárhæð 120 milljónum króna til átta verkefna á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C.1). Verkefnin sem hlutu styrk á Norðurlandi eystra voru fjögur og hlutu styrk upp á um 60 milljónir króna. Þau eru:

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu í Fjallabyggð. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra fá styrk að fjárhæð kr. 37.675.000,- árin 2022-2024. Með verkefninu er stefnt að því að Fjallabyggð verði nýsköpunar- og þróunarsamfélag á sviði þjónustu við eldra fólk. Markmiðið er að endurmeta uppbyggingu, hugmyndafræði, áherslur, vinnulag, tækni og samhæfingu í velferðarþjónustu hjá sveitarfélaginu.

Gróðurhús í Öxarfirði. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, fá styrk að fjárhæð kr. 1.500.000,- á árinu 2022, en þetta er framhaldsverkefni. Ráða á verkefnisstjóra með aðsetur á Kópaskeri. Verkefnið snýst um nýtingu auðlinda í Öxarfirði, með jarðhita í sandinum og nýtingu hans fyrir gróðurhús.

Orkusparnaður á Bakkafirði. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra fá styrk að fjárhæð kr. 10.000.000,- fyrir árið 2022. Bakkafjörður er á köldu svæði og húshitunarkostnaður hár. Markmið þessa verkefnis er að útvega hitun fyrir Hafnartangann og aðliggjandi svæði, en þar má finna alla þjónustu Bakkafjarðar við heimamenn og gesti.

Áfram Hrísey. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra fá styrk að fjárhæð kr. 10.000.000,- árin 2022-2023. Markaðssetja á Hrísey sem vænlegan búsetukost. Ráðinn var verkefnisstjóri í því skyni hjá Ferðamálasamtökum Hríseyjar.

 

ATVINNURÁÐGJÖF

Atvinnuráðgjöf er viðamikill hluti af starfsemi SSNE og nær til einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Ráðgjöfin tengist oft verkefnum sem sækja um í Sóknaráætlun og aðra styrki. Mætti þar sérstaklega nefna sjóði Tækniþróunarsjóðs, Barnamenningar, Lóu og Matvælasjóð.
Áherslan er á að veita almenna atvinnuráðgjöf og stuðla að nýsköpun og stofnun fyrirtækja og standa fyrir fræðslu.
SSNE hefur lagt áherslu á að kynna þessa þjónustu sína og vekja athygli á henni bæði í kynningum og á sínum miðlum.

Bizmentors
Áfram hélt vinnan við Bizmentors eins og síðustu ár en verkefnið felst í að para fólk úr atvinnulífinu (mentora) og saman við frumkvöðla eða aðra sem vilja þróa eitthvað innan fyrirtækis hjá sér á markvissan og skipulagðan hátt. Vefvangurinn fór í loftið í byrjun árs 2022. Verkefnið hélt áfram sem brúarverkefni norðurslóðaáætlunarinnar sem heitir HubMent en það er samstarfsverkefni írskra og íslenskra aðila. Ásamt SSNE var Matís aðili að verkefninu. Það fólst í að þróa áfram netlægt samskiptatorg frumkvöðla og leiðbeinenda á sviði rekstrar, nýsköpunar og atvinnuþróunar en einnig sviði samfélagsþjónustu og þróunar. Frekari þróunarvinna var háð áframhaldandi styrkveitingu sem því miður fékkst ekki og er því verkefninu formlega lokið.

MENNING

Á Norðurlandi eystra eru náttúruöflin sterk, landslag svipmikið og kröftugt fólk sem lætur norðanáttina veita sér byr í segl. Með samheldni og samhentu átaki kemur mannauðurinn hlutunum til leiðar. Menningarlegar hefðir eru margar og samfélagsleg þátttaka gjarnan mikil og óneitanlega mikilvægur og stór þáttur lýðheilsu samfélaga. Nýsköpun og atvinnuþróun innan menningar hefur fengið stærra svið undanfarið ár, enda ljóst að hagræn áhrif geta verið umtalsverð og því mikilvægt að hlúa að sprotum sköpunar og fóstra innan menningargeirans. Má þar sérstaklega nefna verkefnin Upptakt og Fiðring þar sem skapandi hugsun frá hugmynd að veruleika er þjálfuð meðal ungmenna.

SSNE hefur ýmis tæki og tól til að styðja við menningarstarfsemi í landshlutanum, starfsfólk lagði upp með níu stór verkefni á sviði menningar og hagsmunagæslu í starfsáætlun ársins 2022. Tvö þeirra voru framhald af verkefni ársins á undan önnur fjögur þeirra hlutu framgang og fjármögnun sem áhersluverkefni SSNE; Önnur verkefni voru áframhaldandi þátttaka í menningarviðburðum þar sem fest er í sessi samstarf við menningarstofnanir og hátíðir frá öðrum landshlutum, svo sem, Þjóðleikur, List fyrir alla og Ungskáld. Auk þess hófst undirbúningur með listrænum stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík varðandi viðburði og samstarf þó svo verkefnið hafi ekki hlotið framgang sem áhersluverkefni 2023. Það má því segja að vel hafi gengið að vinna að settu marki.

Því næst var hugmyndavinna með aðstandendum Fablab á Norðurlandi eystra til undirbúnings smiðja og námskeiða fyrir vorönn 2023 í þeim tilgangi að fjölga listnámskeiðum og listasmiðjum á svæðinu í takt við Sóknaráætlun. Það verkefni er enn á teikniborðinu þar sem húsnæðið FabLab á Húsavík, Stéttin opnaði síðar en áætlað var, eða í desember 2022. Aftur á móti hefur mikið samtal orðið til í aðdragandanum. Már þar til dæmis nefna að STEM verkefni sem hlaut framgang innan Uppbyggingarsjóðs 2022 hefur nú þegar haldið námskeið fyrir leik- og grunnskólakennara í húsnæði FabLab Húsavíkur. Í lok árs 2022 var ráðgert að halda málstofu um notkun sýndar- og viðbótarveruleika í safnastarfi til að svara markmiðum Sóknaráætlunar um að kynna og miðla menningararfleið svæðisins með nýstárlegum hætti. Ekki varð af þeirri málstofu þar sem verkefnastýrur Samstarfs safna töldu betra að geyma hana til ársins 2023 þar sem áhersluverkefnið Samstarf safna var enn í gangi árið 2022.

Fagráð menningar

Fagráð menningarmála hóf störf haustið 2022 með tilkomu fjármagns frá ársþingi vorið 2022. Haldnir voru tveir fundir á árinu þar sem lagðar voru fram tillögur að áhersluverkefnum og áherslum í starfi SSNE. Í ráðinu sitja fimm aðilar frá öllu svæðinu Hulda Sif Hermannsdóttir (formaður) frá Akureyrarbæ, Anita Elefsen úr Fjallabyggð, Guðni Bragason frá Norðurþingi, Sigurður Guðni Böðvarsson úr Þingeyjarsveit og Sigríður Örvarsdóttir úr Eyjafjarðarsveit.

Samstarf safna á svæðinu

Á árinu var samtali við Safnaklasa Eyjafjarðar aukið og safnaklasinn austan Vaðlaheiðar, Safnaþing endurvakinn. Vegna Covid-19 voru samtalsfundir Safnaþings rafrænir, en mikill áhugi var til að hittast. Ljóst er að kalla þarf til staðfundar með Safnaþingi til að virkja þann vettvang betur. Vinnustofur voru allar í boði fyrir báða klasana (stað- og fjarvinnustofur) og með því lagður grunnur að frekara samtali þeirra á milli.

Með því að vinna verkefni sem stuðla að eflingu safnastarfs á svæðinu er SSNE þátttakandi í því að efla fagmennsku innan safna og setra á svæðinu og að stuðla að jákvæðu viðhorfi íbúa til menningar. Þá er aukin áhersla á barnamenningu í Sóknaráætlun landshlutans. Tvö áhersluverkefni á sviði safna voru í gangi á árinu.

 Samþykkt var breyting á áhersluverkefni frá árinu 2021 sem bar heitið Safnastefna Norðurlands eystra. Ljóst var á niðurstöðum fýsileikakönnunar sem framkvæmd var til undirbúnings, að ekki væri tímabært að ráðast í slíka stefnumótun. Eitt af markmiðum Safnastefnunnar var að stuðla að frekari samstarfi safna, setra og sýninga á svæðinu og var því ný verkefnalýsing og -áætlun mótuð þar að lútandi og í samræmi við aðgerð C.14 í aðgerðaáætlun Byggðaáætlunar. Mynduð var verkefnastjórn fyrir verkefnið. Verkefnalýsing og vörður verkefnisins felast í því að halda fjölbreyttar vinnustofur með það að markmiði að auka samstarf, njóta og nýta styrk ólíkra safna og þekkingu á svæðinu, efla faglegt starf og þannig búa til sameiginlega verkfærakistu. Með vinnustofunum má bæta við tólum og tækjum við verkfærakistuna sem hvert safn nýtir eftir sýnum áherslum. Tvær vinnustofur voru haldnar í maí og snéru þær báðar að markaðsstarfi og samfélagsmiðlaefnisgerð sem undirbúningur fyrir sumarstarfið. Fimm vinnustofur voru haldnar í október og snéru þær allar að faglegu safnastarfi og því góður undirbúningur fyrir vetrarstarf safna, setra og sýninga.

 

Gullakistan – námsskráin og tækifærin alltumlykjandi

Verkefnið var áhersluverkefni SSNE, sem hefur það hlutverk efla samtal og tengingu milli skólastarfs og menningarstofnana með því að tryggja flæði upplýsinga milli þeirra stofnana/setra/sýninga sem sinna menningararfinum og hinna fjölmörgu menntastofnana á leik- og grunnskólastigi í landshlutanum. Með þessu verkefni erum við að brúa bil og leggja grunn að sterkri nálgun og miðlun lista og menningararfs til barna og ungmenna og varpa ljósi á fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem börn eru virkir þátttakendur. Verkefnið styður við faglegan metnað, virðingu fyrir sögu og verndun arfleiðar um leið og það veitir kennurum skarpari sýn á möguleikana sem söfn/setur/sýningar hafa upp á að bjóða til að víkka út kennslu samkvæmt námskrá. Þetta er því ný leið til að miðla þeim tækifærum sem eru í boði núna, en kortlögð út frá aðalnámskrá skólanna og miðuð að þörfum kennara; ný leið fyrir kennara til að nálgast upplýsingabrunn safna/setra/sýninga á Norðurlandi eystra. Á árinu voru haldnar kynningar fyrir söfn/setur/sýningar á svæðinu, kynningartexti sendur út, sett saman verkefnastjórn fagaðila og verkefnið mótað í takt við samtal við safnafólk og að lokum verkefnastjóri ráðinn. Verkefni næsta árs er samtal við skólafólk og kortleggja upplýsingar safna/setra/sýninga í takt við þarfir þeirra. Lokaafurðin verður sniðin að þörfum kennara og verður tilbúin í lok árs 2023. Verkefninu verður viðhaldið af verkefnastjóra menningar hjá SSNE í framhaldinu.

Fiðringur

Fiðringur var eitt af áhersluverkefnum ársins 2022. Verkefnið snérist um að innleiða í fyrsta sinn hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi í anda Skrekks á höfuðborgarsvæðinu og Skjálftans á Suðurlandi. Það þarf frjóan huga og skapandi hugsun til að takast á við krefjandi verkefni framtíðarinnar. Í Fiðringsferlinu fá krakkar tækifæri til að æfa sköpunarvöðvann, vinna lýðræðislega saman við að velja hugmynd og þróa hana, æfa og að lokum flytja. Ávinningurinn felst í valdeflingu ungs fólks, auknu samfélags- og menningarlæsi og kynningu á atvinnutækifærum framtíðarinnar.

Krakkarnir fá tækifæri til að prófa sig áfram í hinum ýmsu verklegu greinum og upplifa mikilvægi þeirra fyrir heildina. Sérhvert atriði þarfnast tæknifólks; hljóðgúrúa, ljósameistara, sviðsmanna og tæknibrellugrallara, svo ekki sé talað um hár- og förðunarfólk, leikgerva- og búningafólk, samfélagsmiðlasnillinga, sviðsmyndar- og myndlistartöffara, peppara og leiðtoga. Svo stórt samvinnuverkefni gefur nemendum tækifæri á að auka samvinnu- og samskiptahæfni sína sem á eftir að koma þeim vel í hvers kyns störfum.

Við á Norðurlandi eystra erum lánsöm með framtakssamt fólk sem er annt um samfélagið og gefur sér tíma til að hlúa að þeim sem munu sjá um okkur og samfélagið í framtíðinni. María Pálsdóttir er frumkvöðullinn að baki Fiðrings, en verkefnið hlaut framgang sem áhersluverkefni SSNE. Stefnt er að því að Fiðringur verði árviss hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi eystra en fyrsta árið var grunnskólum á Akureyri og nærsveitum boðið að taka þátt og módelið prófað, með það að markmiði að þróa og undirbúa Fiðring 2023 með þátttöku allra grunnskóla á svæðinu. Alls voru það átta atriði sem kepptu um Fiðringsfarandgripinn í Hofi og ávörpuðu samtímann í beinni á RÚV svo eftir var tekið. Nánari upplýsingar um Fiðring má finna hér

UMHVERFISMÁL

Í Sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024 var umhverfismálum bætt við sem nýjum málaflokki og hafa umhverfismálin vægi til jafns við málaflokka sem eiga sér lengri sögu, þ.e. atvinnuþróun og nýsköpun, sem og menningu.

Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil í starfsemi SSNE á árinu. Landshlutasamtökin eru mörg að auka áherslu á málefni sem tengjast umhverfismálum og sömu sögu er að segja af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórnvöldum og stofnunum samfélagsins enda er verkefnið ærið og víðfeðmt. Þessi aukna áhersla hefur boðið uppá aukin tækifæri til samstarfs.

Í byrjun árs tók til starfa verkefnastjóri umhverfismála, Smári Jónas Lúðvíksson, hjá SSNE og hafa samtökin tekið þátt í samstarfsverkefnum og sýnt metnað í að byggja á því góða starfi sem hefur verið unnið í landshlutanum og gera enn betur. Um haustið bættist við liðsauki í umhverfismálin þegar Kristín Helga Schiöth var ráðin inn sem verkefnastjóri áhersluverkefnis í umhverfis- og loftslagsmálum.



Fagráð umhverfismála
Fagráð umhverfismála er að slíta barnsskónum og að ljúka sínu fyrsta starfsári. Haldnir voru þrír fundir á árinu þar sem lagðar voru fram tillögur að áhersluverkefnum og áherslum í starfi SSNE. Í ráðinu sitja Guðmundur H. Sigurðarson, Rut Jónsdóttir, Ottó Elíasson (formaður), Áki Guðmundsson og Salbjörg Matthíasdóttir. 

Nokkuð hefur verið um mannabreytingar á árinu. Salbjörg fór í fæðingarorlof og Sigríður sem kom í staðinn fyrir hana gerði það einnig og situr Árdís H. Jónsdóttir í staðinn fyrir Salbjörgu Matthíasdóttir í fagráðinu að svo stöddu. Sveinn Margeirsson sagði sig frá setu í fagráðinu á síðasta ársþingi og tók Áki Guðmundsson hans sæti. Áki þurfti hins vegar frá að hverfa í nóvember og var því eitt sæti ómannað í lok árs. Fagráði umhverfismála er þakkað fyrir góð og vönduð störf á árinu.

Samráðshópur um umhverfis- og loftslagsmál; landshlutasamtök, Byggðastofnun og Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið
Starfsfólk SSNE sem starfar við umhverfis- og loftslagsmál sitja reglulega fundi sem boðað er til af Byggðastofnun, á mánaðarfresti eða svo. Fundina situr starfsfólk umhverfis- og loftslagsmála allra landshlutasamtaka, auk fulltrúa Byggðastofnunar og fulltrúa ráðuneytis. Fundirnir eru nýttir til þekkingaruppbyggingar milli landshluta, tækifærisgreininga á samstarfi og upplýsingagjafar til og frá ráðuneytis. Fundirnir eru mjög gagnlegir; SSNE miðlar sínum verkefnum og fær speglun frá öðrum landshlutum og upplýsingagjöf til og frá ráðuneyti ýtir undir betri samskipti varðandi stærri verkefni og stefnumótun.  

Loftslagsráð
Á árinu tók verkefnastjóri Umhverfismála, Smári Jónas Lúðvíksson, sæti í Loftlagsráði. Sætið er annað tveggja sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir í og sat Sveinn Margeirsson áður í því sæti. Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur á umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar skipar hitt sæti Sambandsins.

Að eiga fulltrúa í Loftlagsráði er fengur fyrir landshlutann og er mikilvægt að sýndur sé metnaður í því starfi sem þarf að eiga sér stað í loftlagsmálum. Seta fulltrúa SSNE í Loftslagsráði tryggir að sjónarmið sveitarfélaganna heyrist þar inn, og að nýjustu upplýsingar berist aftur í landshlutann.

Úrgangsmál
Ný lög um úrgangsmál tóku gildi í byrjun árs 2023 sem kallaði á mikla vinnu í málaflokknum. Ákveðið var að ný svæðisáætlun í úrgangsmálum yrði unnin á vettvangi SSNE og SSNV, fyrir Norðurland allt. Breytingar á úrgangslögum fela í sér ný skilyrði þegar kemur að meðhöndlun úrgangs, mengunarvarnir og bæta við framlengdri framleiðendaábyrgð og nokkuð mikil vinna hefur farið í að aðstoða sveitarfélögin við að fóta sig í þeim breytingum.

Mat á tækifærum endurheimtar votlendis
Á árinu var unnin samantekt á tækifærum til endurheimtar votlendis á Norðurlandi eystra. Verkefnið er hugsað sem fyrsta skref til að hefja samtalið og benda á tækifæri til endurheimtar í landshlutanum. Í samantektinni var litið sérstaklega til lands sem er í beinni eigu sveitarfélaganna. Horft er til þess að með því að fara í gegnum ferlið, að endurheimta votlendi í landi sem er ekki í notkun og í eigu sveitarfélaga, verði til reynsla sem auðveldar öðrum landeigendum að gera slíkt hið sama. Mikil vinna er eftir við að raunmeta hentugleika þessa lands til endurheimtar, en vonast er til að samantektin nýtist í brýnni umræðu um endurheimt vistkerfa og loftlagsmál árið 2023.



Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs
Í byrjun árs hófst vinna við endurskoðun svæðisáætlunar í úrgangsmálum fyrir Norðurland. Fljótlega eftir áramót var ráðgjafafyrirtækið Environice fengið til að aðstoða við endurskoðun svæðisáætlunar og var mjög metnaðarfull tímaáætlun um að ljúka verkinu fyrir mitt ár. Það kom hins vegar fljótt í ljós að vegna óvissu í umhverfi úrgangs meðhöndlunar væri óraunhæft að klára svæðisáætlun á árinu, þó lengi hafi verið haldið í vonina. Mikil endurnýjun kjörinna fulltrúa eftir kosningar tafði einnig vinnuna.

Vinnan hófst með stöðumati eins og það lá fyrir þegar vinnan hófst. Gögnin eru því í mörgum tilvikum frá árinu 2020. Vinna við stefnumótunina sjálfa var síðan sett af stað þann 25. apríl með opnum fundi sem hafði það markmið að fá fram áherslur til að marka stefnu í málaflokknum. Fundurinn var partur af verkefninu Saman í átt að hringrásarhagkerfi sem Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir. Með þetta nesti voru drög að svæðisáætlun mótuð og þau síðan kynnt fyrir öllum sextán sveitarfélögunum á haustmánuðum. Sveitarfélögin fengu mánuð til að koma með athugasemdir sem var unnið úr. Í byrjun árs 2023 verður svæðisáætlun auglýst opinberlega og býðst almenningi að koma með athugasemdir sem verður tekið tillit til áður en áætlunin fer til lokasamþykktar hjá sveitarfélögunum. Nálgast má svæðisáætlunina hér.

Líforkuver
Meðal þeirra breytinga sem ný úrgangslög fela í sér eru bann við urðun lífúrgangs. Með þeim breytingum eykst enn hvati samfélaga til að koma úrgangsauðlindum í nýtingu og inn í hringrásarhagkerfið. Í því sjónarmiði vann SSNE, ásamt Vistorku og utanaðkomandi ráðgjöfum, frumhagkvæmnimat um líforkuver. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar þann 1. nóvember í Hofi, Akureyri og í gegnum streymi. Lokaútgáfu skýrslunnar var síðan komið til sveitarfélaganna og ráðuneytis þann 22. desember og skýrslan gerð opinber á heimasíðu SSNE í ársbyrjun 2023.

Markmið skýrslunnar var að leggja mat á hvort hagkvæmt væri að safna lífúrgangi á Norðurlandi eystra í líforkuver, þar sem hægt yrði að framleiða moltu, metangas, lífdísil og kjöthrat til uppgræðslu. Niðurstöður skýrslunnar voru í stuttu máli þær að vert væri að gera frekari greiningu á tækifærum sem kunna að felast í byggingu líforkuvers á svæðinu, og hefur Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið komið að borðinu við að kanna næstu skref. Skýrsluna má nálgast hér.

Fræðsluáætlun varðandi umhverfis- og loftslagsmál 
Þekkingarnet Þingeyinga og Símey tóku að sér gerð fræðsluáætlunar fyrir hönd SSNE sem áhersluverkefni 2022. Íverkefninu er unnið að gerð fræðslugreiningar varðandi umhverfis- og loftslagsmál fyrir sveitarfélög og aðra hagaðila á Norðurlandi eystra. Út frá þeirri greiningu verður útbúin fræðsluáætlun sem mun hafa yfirfærslugildi á fleiri aðila og stofnanir á svæðinu.Verklok eru áætluð í mars 2023.

Spretthópar í umhverfismálum
Eitt af áhersluverkefnum SSNE í umhverfismálum var „stefnumótun og aðgerðaáætlanir í landnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum.“ Lýsing verkefnisins var eftirfarandi: Mótaðir verða þrír vinnuhópar með tvo sérfræðinga á hverju sviði Í hverjum vinnuhópi utan starfsmanns SSNE sem er í öllum hópum. Hóparnir munu vinna hluta af þeirri undirbúningsvinnu og gagnaöflun sem þarf til að svæðið geti komi til móts við sínar skuldbindingar, greint tækifæri og byggi upp þekkingu. 

Verkefnið þróaðist þó nokkuð áður en það hófst, en ákveðið var að fjölga hópunum úr þremur í fimm, og að í hverjum hópi sætu þrír sérfræðingar auk starfsmanns SSNE. Sá starfsmaður var tímabundið ráðinn til að fylgja verkefninu eftir. Verkefnastjóri spretthópa í umhverfis- og loftslagsmálum, Kristín Helga Schiöth, hóf störf 1. nóvember og verkefnið mun halda áfram a.m.k. fram á byrjun sumars 2023.

Þrír hópar luku fundarsetu á árinu; hópur um orkuskipti sem í sátu Sigurður Ingi Friðleifsson, Ragnar Ásmundsson og Ágústa Loftsdóttir, hópur um innleiðingu hringrásarhagkerfis og sjálfbær samfélög sem í sátu Ísak Már Jóhannesson, Hrönn Björgvinsdóttir og Rakel Guðmundsdóttir og að lokum hópur um bætta landnýtingu sem í sátu Brynjar Skúlason, Borgar Páll Bragason og Iðunn Hauksdóttir. Þeir tveir hópar sem munu funda á árinu 2023 eru hópur um aðlögun gegn loftslagsbreytingum og hópur um náttúruvernd í byggðaþróun.

Nokkrar tillögur frá spretthópunum sem fundað hafa eru þegar farnar í ferli og framkvæmd, en vænt afurð spretthópavinnunnar er samantekt á tillögum sem kynntar verða árið 2023.

NÝSKÖPUN

Eins og fram hefur komið hefur mikil áhersla verið á stuðning við nýsköpun og frumkvöðla. Margt hefur áunnist og mörg verkefni unnin til að mæta því markmiði. Fyrst er að nefna úthlutun úr Uppbyggingarsjóði og ráðgjöf til verkefna, þátttaka í Nýsköpunarvikunni, sem og í stuðningsverkefnum s.s. Ratsjá og Matsjá, og síðast en ekki síst Norðanátt sem er samstarfsverkefni SSNE, SSNV og EIMS. Þá hefur SSNE sérstaklega styrkt einstaklinga til að sækja sér sérhæfða ráðgjöf til að sækja í stærri sjóði.

Stuðningur við starfandi fyrirtæki í nýsköpun hefur verið SSNE hugleikin síðasta árið og hefur áhersla verið lögð á að kynna fyrir þeim skattafrádrátt rannsókna- og þróunar, en einnig tækifæri til umsókna í stærri styrktarsjóði. Fyrirtækjaheimsóknir hafa alltaf verið mikilvægar í starfsemi SSNE og starfsfólk finnur vel hvað þær skipta miklu máli bæði til að heyra af starfsemi fyrirtækja en einnig til að miðla upplýsingum um SSNE. Á meðan Covid-19 faraldurinn gekk yfir gáfust fá tækifæri til heimsókna, en á síðasta ári var tækifærið nýtt og heimsóknunum fjölgað.

Tveir ráðgjafar SSNE, þær Rebekka Kristín Garðarsdóttir og Arna Björg Bjarnadóttir tóku að sér hlutverk leiðbeinanda (e. mentor) þegar 50 kvenfrumkvöðlar komu saman í Háskólanum á Akureyri. Lotan var hluti af nýsköpunarhraðli sem fór fram í febrúar og mars. Sérstök áhersla var lögð á að ná til kvenna á landsbyggðinni og kvenna af erlendum uppruna, en hraðallinn er samstarfsverkefni HÍ, HA, bandaríska sendiráðsins, FKA og WOMEN.

Ratsjáin
Ratsjá er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Íslenski ferðaklasinn leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og landshlutasamtök um allt land. Ratsjáin var keyrð með blönduðu sniði af rafrænni fræðslu, vinnustofum og verkefnalotum og stóð verkefnið yfir á tímabilinu 15. febrúar - 5. apríl. Ratsjáin var keyrð með landshlutasamtökunum öllum og voru sex fyrirtæki þátttakendur frá okkar svæði.  

Matsjáin var haldin á vegum Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og landshlutasamtakanna, en SSFM fékk úthlutað styrk fyrir verkefnið úr Matvælasjóði. Verkefnið er byggt upp að fyrirmynd Ratsjáarinnar sem er verkefni fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu þróað af Íslenska ferðaklasanum og leiddi Rata, ráðgjafafyrirtæki, verkefnið fyrir hönd samstarfsaðilanna. Matsjáin snertir á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag og unnin út frá jafningjaráðgjöf, fræðslu, erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Alls voru sjö lotur á 14 vikna tímabili.

Alls sóttu um 80 aðilar um í Matsjánna þegar auglýst var eftir þátttakendum, en sex smáframleiðendur á Norðurlandi eystra voru valin til þátttöku í ár. Þeir voru: Sparifé frá Gilsbakka, Nægtabrunnur nátttúrunnar, Syðra Holt, Árdalur, Matgæðingar ehf og Böggvisbrauð.

Hér má sjá umfjöllun um uppskeruhátíð og matarmarkað Matsjárinnar

Norðanátt

Norðanátt er hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi sem miðar að því að auka fjárfestingar á svæðinu og skapa kraftmikið umhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vinna að nýsköpun með áherslu á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Hlutverk Norðanáttar er að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki frá fyrstu stigum hugmyndar yfir í leit að fjárfestum, en það er gert með því að standa fyrir fjölda viðburða á hverju ári, svokallaðri hringrás Norðanáttar, sem styðja við nýsköpunarhugmyndir á ólíkum stigum og leggja áherslu á sjálfbærni og hafa skírskotun í hinn svokallaða “food-water-energy” nexus eða ,,matur-vatn-orka”.

Norðanátt hlaut styrk frá umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu vorið 2022 til að fjármagna aðra hringrás sem hófst á nýsköpunarkeppninni Norðansprotinn í maí 2022.

Þá voru undirritaðar samstarfsyfirlýsingar vorið 2022 milli Norðanáttar og Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum með það að markmiði að skapa enn öflugra vistkerfi nýsköpunar á svæðinu. Háskólarnir eru mikilvægur hlekkur í því vistkerfi og því mikill fengur af samstarfinu.

Að verkefninu Norðanátt koma EIMUR, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og ásamt stuðningsfyrirtækinu RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins sem hraðar framþróun og nýsköpun.

Fyrsta fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin á Siglufirði 31. mars 2022. Norðanátt stóð fyrir hátíðinni og var hún lokaskref í nýsköpunarhringrás sem hófst á lausnamóti. Að loknu lausnamótinu tók við átta vikna viðskiptahraðall þar sem fyrirtæki fengu stuðning við að þróa sínar hugmyndir og móta enn frekar. Lokaskrefið var svo fjárfestahátíðin. Norðanátt var styrkt af Lóu, nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina.

Á hátíðinni, sem hefur fengið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum, kynntu 10 teymi verkefni sín sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar. Viðburðurinn var eingöngu ætlaður fjárfestum sem horfa til landsbyggðarinnar sem ákjósanlegs fjárfestingakosts og voru um 30 fjárfestar mættir til leiks, auk aðila úr stoðkerfi nýsköpunar, fulltrúar sveitarfélaga og annarra hagaðila. Auk fjárfestakynninga fluttu ráðherrar kraftmikil og hvetjandi erindi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra opnaði hátíðina, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fluttu einnig ávörp. Einnig héldu Josh Klein, athafnamaður og frumkvöðull, Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans og Hólmfríður Sveinsdóttir nýskipaður rektor Háskólans á Hólum erindi. Sjá nánari umfjöllun hér.

Norðansprotinn er nýsköpunarkeppni þar sem leitað er að áhugaverðustu nýsköpunarhugmyndum Norðurlands. Lagt er upp með að þátttakendur komi með hugmyndir í takt við áherslur Norðanáttar um mat, vatn og orku. Norðanátt stendur að viðburðinum í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum.

Norðansprotinn var fyrsti viðburður í upphafi nýrrar hringrás Norðanáttar. Keppnin fór fram í maí 2022 þegar nýsköpunarvikan stóð yfir og stendur til að halda keppnina næst í september 2023. Af þeim þrettán umsóknum sem bárust stóð María Dís Ólafsdóttir, lífverkfræðingur og framkvæmdarstjóri AMC, uppi sem sigurvegari Norðansprotans með hugmynd sína Roðleður. Hugmyndin snýst um að geta boðið upp á leður úr roði í metravís, þá sérstaklega fyrir bílsæta- og skóframleiðendur.

Tíu kraftmikil nýsköpunarteymi af Norðurlandi voru valin til þátttöku í viðskiptahraðalinn. Þetta var í annað sinn sem Norðanátt hélt Vaxtarrými fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Norðurlandi.

Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall beint að sjálfbærni, með áherslu á mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakinu. Vaxtarrýmið hófst 3. október og lauk 24. nóvember 2022. Nánar um þátttökuteymin í fyrra hér

 

Sjónvarpsþáttur um Norðanátt var frumsýndur þann 23. ágúst 2022 á sjónvarpsstöðinni N4.
Í þættinum, sem ber heitið Nýsköpun á Norðurlandi, var farið yfir hugmyndafræði nýsköpunarhringrásarinnar og stiklað á stóru um mikilvægi nýsköpunar, auðlindanýtingar og verðmætasköpunar. Þá voru verkefni sem þátt tóku í síðustu hringrás einnig kynnt og deildu þar frumkvöðlar reynslu sinni og upplifun af þátttöku sinni í viðskiptahraðlinum Vaxtarrými.

Hægt er að horfa á þáttinn og lesa nánar hér.

 

BÚSETUÞÆTTIR

SSNE vinnur í samstarfi við sveitarfélögin, einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila að greiningu og eflingu búsetuþátta. Góðar samgöngur eru forsendur jákvæðrar samfélags- og atvinnuþróunar og eru lífæðar samfélagsins. Þær skapa m.a. aðgengi að þjónustu og störfum, skapa farveg til að fá aðföng í framleiðslu og koma afurðum á markað og eru nauðsynlegar til að geta stundað ferðaþjónustu. Á árinu stóð yfir vinna að samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra sem verður eitt af leiðarljósum landshlutans í uppbyggingu innviða til framtíðar.

Samgöngustefna Norðurlands eystra

Samgöngustefna Norðurlands eystra varð að samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra og hlaut styrk sem áhersluverkefni SSNE. Í kjölfarið var stofnaður vinnuhópur með fulltrúum úr öllum sveitarfélögum. Vinnuhópurinn fundaði reglulega á árinu, en RHA var fengið til að vinna að stöðumati í landshlutanum, en gerð stefnunnar sjálfrar var í höndum starfsfólks SSNE. Afrakstur vinnunnar verður til umfjöllunar á sérstöku aukaþingi SSNE vorið 2023 og í framhaldinu verður haldið opið málþing um samgöngur og innviði á Norðurlandi eystra.

Loftbrú

Mikill meirihluti þeirra sem nýtt hefur Loftbrú frá því að henni var komið á fót er ánægður með úrræðið en telur ástæðu til að hækka afsláttinn og fjölga ferðum sem séu innifaldar. Langflestir nýttu ferðirnar til þess að heimsækja ættingja og vini, en margir nota Loftbrú einnig til að sækja heilbrigðisþjónustu, í tengslum við íþróttaiðkun og vegna skólasóknar.

Þetta er meðal þess sem fram kom í rannsókn sem Austurbrú vann í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga á landsbyggðinni og Vegagerðina árið 2022. Um 76% þátttakenda höfðu nýtt sér Loftbrú, mestmegnis Íslendingar, en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kynna þurfi úrræðið betur fyrir íbúum af erlendum uppruna. Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar um Loftbrú var heildarfjöldi þeirra sem nýtti sér hana alls 57.059 árið 2021. Um helmingur flugfarþega var með lögheimili á Norðurlandi eystra eða á Austurlandi. Vegagerðin hefur umsjón með Loftbrúnni fyrir hönd ríkisins og sinnir öllu eftirliti og umsýslu henni tengdri. Bakendakerfi Loftbrúarinnar er hýst á island.is, en heimasíðan loftbru.is er rekin af upplýsinga- og þjónustuveitunni Stafrænu Ísland.

Lesa má nánari niðurstöður rannsóknarinnar hér.

Samþætting flutninga í landshlutanum

Þetta verkefni snýr að því að skoða hvort samnýta megi póst- og farþegaflutninga á norðausturhorninu svo að leiðin verði rekstrarhæf, með það að markmiði að íbúar og ferðamenn geti nýtt sér þjónustuna. Ráðinn var verkefnisstjóri, Silja Jóhannesdóttir, til að vinna að verkefninu. Á árinu varð ljóst að flækjustig á samþættingu farþega- og póstflutninga aksturs er talsvert meira en talið var í fyrstu, ástæður þess eru meðal annars þjónustusamningar Póstsins.

Verkefnið tafðist talsvert vegna skorts á svörum frá vinnuhóp á vegum ráðuneytis og þegar í ljós kom seint á árinu að samþætting við póstflutninga væri ekki raunhæfur kostur var ákveðið að skoða samþættingu við aðra farmflutninga og er vinna við það rétt komin af stað. Því var sótt um frest til loka mars 2023 til að skila lokaskýrslu og hefur sá frestur verið veittur. Verkefnið er unnið fyrir styrk sem SSNE fékk í lok árs 2021 uppá 3.000.000 kr. en verkefnið var unnið að mestu árið 2022.

 Almenningssamgöngur

Reglulegt samtal var við Vegagerðina á árinu, í þeim samtölum var meðal annars rætt um stöðu almenningssamganga í landshlutanum og leitast við að finna leiðir til að fá íbúa til að nýta strætó betur. Í lok árs var óskað eftir athugasemdum frá sveitarfélögunum á Norðurlandi eystra um hvort og þá hvernig þau sjá fyrir sér að auka megi notkunina og verður unnið úr svörum þeirra á árinu 2023.

Raforkuflutningar

Uppbygging flutningskerfi raforku hefur lengi verið eitt af stóru baráttumálum landshlutans. Stórum áfanga var náð haustið 2022 þegar Hólasandslína 3 var spennusett og þar með Fljótsdalsvirkjun orðin tengd við Rangárvelli í gegnum Kröflu. Uppbygging byggðalínunar heldur áfram og vinnu við Blöndulínu 3 miðar áfram. Stór hluti dreifikerfis Rarik er nú kominn í jörðu og er uppbygging Dalvíkurlínu 2 komin á framkvæmdaráætlun eftir að Dalvíkurlína 1 fór illa í aðventustorminum 2019. Eftir stendur uppbygging á norðausturhorni landsins, en staðið hefur atvinnulífi á Þórshöfn fyrir þrifum að vera ekki með nægjanlega flutningsgetu til að sinna þörfum núverandi atvinnulífs, hvað þá til að byggja upp frekari atvinnutækifæri. Þessi staða er sérstaklega bagaleg í ljósi þess að Ísfélagið hefur þurft að brenna olíu til að keyra brennslu sína sem er ekki heppilegt í ljósi loftslagsmálanna. Staða málsins hefur verið nokkuð snúin þar sem Rarik og Landsnet hafa bent hvort á annað varðandi ábyrgð á því að bæta raforkutengingar á svæðinu. Það heyrir þó nú til betri vegar og vonandi fæst niðurstaða í það samtal á árinu 2023.

SSNE stóð fyrir fundi um orkumál ásamt Samtökum atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Fjárfestingarfélagi Þingeyinga. Fundurinn var haldinn á Húsavík þann 29. mars. Á fundinum kynntu fulltrúar Landsvirkjunar, Landsnets og RARIK stöðu raforkukerfisins á Norðurlandi, auk þess sem Daníel Einarsson, nemi í vélaverkfræði og starfsmaður EFLU kynnti hugmyndir um notkun jarðvarma til aukinnar fóður- og áburðarframleiðslu úr innlendu hráefni. Fundurinn var vel sóttur bæði í streymi og á staðnum og þótti vel heppnaður.

Vinnuaðstaða fyrir störf á staðsetningar

Byggðastofnun tók saman á árinu upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir óstaðbundin störf á vegum ríkisins og stofnana þeirra. Upplýsingunum var safnað saman með aðstoð landshlutasamtaka sveitarfélaga, þ.á.m. SSNE. Á korti Byggðastofnunar má finna vel yfir 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga, þar af 29 á Norðurlandi eystra. Landshlutinn er því nú þegar vel í stakk búinn að taka á móti þessum störfum.

 

UPPLÝSINGAÖFLUN

Fyrirtækjakönnun landshlutanna

SSNE tók þátt í fyrirtækjakönnun landshlutanna 2022. Könnunin er að jafnaði framkvæmd annað hvert ár til að kanna viðhorf atvinnulífsins til ýmissa mikilvægra mála og fylgjast með þróun viðhorfanna frá einum tíma til annars. Spurningakönnunin var framkvæmd í janúar, febrúar og mars 2022 og var samantekt á niðurstöðum hennar birt í Deiglu, riti atvinnuþróunarfélaganna, Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna í september 2022.

Könnunin var send öllum fyrirtækjum á landsbyggðinni eftir listum sem landshlutasamtökin halda utan um og rúmlega 3.700 fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Á landsvísu tóku 1644 fyrirtæki þátt, þar af 188 fyrirtæki á Norðurlandi eystra.

Samantekt á niðurstöðum könnunarinnar má nálgast hér.

SAMSTARF OG SAMRÁÐ

Það er löng hefð fyrir nánu samstarfi starfsmanna og stjórna landshlutasamtakanna og var engin breyting á því á árinu 2022. Auk ýmissa verkefna sem nefnd hafa verið hér að ofan þá funduðu formenn og framkvæmdastjórar reglulega, ekki síst í tengslum við aðra viðburði eins og Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Landshlutasamtökin skiptast á forystuhlutverki í samstarfinu, en á sumarfundi formanna og framkvæmdastjóra samtakanna fluttist hlutverkið yfir til Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjunum. Á hverju ári skiptast landshlutasamtökin einnig á því að taka á móti formönnum og framkvæmdastjórum í sínum landshluta. Í ár kom það í hlut SSNE að bjóða hin landshlutasamtökin velkomin. Ákveðið var að halda fundinn í tengslum við Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ávallt er haldið á Akureyri í september í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Fundurinn var því haldinn í lok september. Fundurinn var haldinn á Húsavík en einnig var farið á fund um orkumál í Norðurorku á Akureyri, auk þess sem Hof var heimsótt þar sem starfsemi MAk var kynnt.

Starfsfólk SSNE tók þátt í vorfundi Byggðastofnunar sem haldin var á Varmalandi í Borgarfirði í maí í aðdraganda aðalfundar Byggðastofnunar og einnig haustfundi atvinnuráðgjafa í Hveragerði í október. Þessir fundir eru mikilvægir fyrir starfsfólk landshlutasamtakanna þar sem verkefni eru rædd og við lærum að hvort öðru.

Í fyrri kjördæmaviku ársins var haldin fundur með þingmönnum kjördæmisins 15. febrúar í fjarfundi, fyrst og fremst var þetta samtal við sveitarfélögin og fengu þau góðan tíma til að fara yfir sín mál og ræða við þingmenn. Að auki var Sóknaráætlun Norðurlands eystra sérstaklega kynnt og helstu áskoranir og tækifæri henni tengd. Markaðsstofa Norðurlands kom inná fundinn ásamt framhaldsskólunum á svæðinu (SAMNOR). Síðari kjördæmavika ársins var í byrjun október þar sem þingmenn fóru um svæðið og hittu öll sveitarfélög á starfssvæði SSNE. Almennt var gott hljóð í sveitarfélögunum og mikil jákvæðni á þessum fundum.

Þemafundir með þingmönnum kjördæmisins, í samstarfi við Austurbrú var ákveðið að koma á fót svokölluðum þemafundum með þingmönnum kjördæmisins þar sem reynslan hefur verið sú að kjördæmavika dugir skammt í okkar stóra kjördæmi. Á fundina voru boðaðir þingmenn kjördæmisins og stjórnir SSNE og SSA. Góð mæting var á fundina og góðar umræður áttu sér stað. Allir voru sammála um að gott væri að taka einn málaflokk eða málefni fyrir hverju sinni og fara ítarlega í efnið.

Fyrri fundurinn var haldinn 4. mars í fjarfundi þar sem fjallað var um heilbrigðismál og mættu fulltrúar frá SAK, HSA og HSN. Fundur tvö var haldinn 5. apríl en þar var fjallað um raforkumál og komu fulltrúar frá Rarik, Landsneti, Landsvirkjun, auk þess sem kynnt var Grænbók í orkumálum.

SSNE hefur tekið virkan þátt í mörgum íbúafundum sveitarfélagana og félagasamtaka með undurbúningi og annarri aðkomu. Þetta er dýrmæt aðkoma fyrir SSNE til að heyra í hópi fólks á starfssvæði SSNE. Sem dæmi var haldin fundur með ferðaþjónustuaðilum á Dalvík í mars, kaffifundur fyrir einyrkja og sjálfstætt starfandi voru haldnir á Dalvík og í Fjallabyggð á árinu. Opnir súpufundir voru einnig haldnir um í Fjallabyggð og Dalvík í mars þar sem starfsemi SSNE var kynnt sérstaklega.

SSNE tók þátt í því að skipulagi og móttöku á síðustu síldartunnunni og skipulagði fyrirtækjaheimsóknir fyrir sendiherra og sendinefnd. Táknræn og gleðileg stund í sögu viðskiptalífs og menningarsambands Noregs og Íslands var haldin á Siglufirði 31. maí en þá var síðasta síldartunnan afhent Síldarminjasafni Íslands, um það bil 40 árum á eftir áætlun – eða mögulega akkúrat á áætlun. Tunnan hefur í raun tengt fólk saman, kallað á samskipti og samveru, nú og minnt á hversu ríkar þjóðirnar eru af samstarfi og sameiginlegri sögu. Stundin á Síldarminjasafnininu var stórskemmtileg og veitti skemmtilega innsýn í síldarævintýrið. Nánar um heimsókn sendinefndar hér.

Starfsfólk SSNE hefur verið duglegt að heimsækja fyrirtæki á öllu starfssvæðinu, upplifun starfsfólks af þessum heimsókn er mjög góð bæði til að miðla upplýsingum um starfsemi SSNE en einnig til að heyra af starfsemi fyrirtækja. Oftar en ekki eru skemmtileg verkefni sem þróast áfram eftir heimsóknirnar. Eftir að samfélagið komst í réttar skorður um mitt ár fóru heimsóknir félagsins á fullt og líklega um 50 fyrirtæki voru heimsótt á árinu.

Menningarfulltrúar allra landshlutasamtakanna hittast allajafna tvisvar á ári, annars vegar að vori og hins vegar að hausti. Í ár var einungis vorfundurinn haldinn sem staðfundur. Þessir fundir eru mikilvægir fyrir heildarstarf menningarfulltrúanna þar sem áhersla er lögð á sameiginleg hagsmunamál, stefnur og samstarfsverkefni og -fundi með tengdum aðilum. Frekari umfjöllun má finna með því að smella hér. Að auki hittast menningarfulltrúar reglubundið rafrænt til að fara yfir Uppbyggingarsjóð og umsóknargáttina þar sem sérstaklega eru lagðar til breytingartillögur er varðar aðgengi og auðveldun notenda, sem og stjórnenda. Þá hafa verið lögð drög að því að hittast hálfsmánaðarlega á örstöðufundum árið 2023 til að fylgja verkefnum vorfundarins úr hlaði sem og undirbúa sameiginlegar umsagnir.

Framkvæmdaáætlun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Í mars stóð utanríkisráðuneytið fyrir málþingi um Framkvæmdaáætlun um stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða. Í kjölfar málþingsins hófst eiginleg vinna við mótun framkvæmdaáætlunarinnar og tók starfsfólk SSNE þátt í þeirri vinnu sem stóð fram í september og lauk með opnum vinnufundi í Háskólanum á Akureyri þar sem vinna þemahópanna var kynnt en vinnunni var skipt í eftirfarandi þemu:

  • Alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar
  • Loftlagsbreytingar, vistkerfi og mengunarvarnir
  • Samfélag og innviðir
  • Uppbygging og framlag til málefna norðurslóða
  • Leit og björgun, fjarskipti, björgunarklasi

Í júní heimsóttu tveir starfsmenn SSNE austurland, til að kynna sér skrifstofuklasa og setur. Fyrst var ferðinni heitið á Neskaupsstað í Múlann samvinnuhús og því næst í Austurnet hugbúnaðarhús á Egilsstöðum. Kollegar hjá Austurbrú voru heimsóttir og samstarfsverkefni rædd og upplýsingum miðlað. Síðasta stoppið var á Seyðisfirði þar sem þær heimsóttu menningar – og félagsheimilið Herðubreið, húsið hýsir fjölbreytta starfsemi og menningar viðburða, það er suðupottur nýsköpunar og var virkilega mikill innblástur að sjá hvernig gamla félagsheimilið í eigu sveitarfélagsins hefur fengið nýtt hlutverk, verið glætt lífi og menningu með öflugu fólki í fararbroddi

Í nóvember var aftur haldið í heimsókn til Austurbrúar og var tilgangur ferðarinnar í þetta sinn að kynnast vinnu við svæðisskipulag Austurlands, sem og reynslu Austurbrúar af verkefnum í tengslum við brothættar byggðir og hvernig unnt er að halda því starfi eftir að formlegu verkefni lýkur.

SSNE tók þátt í fundi með Innviðaráðuneytinu sem bara heitið „Vörðum leiðina saman“ en þar var almenningi boðið til samráðs og framtíðar áskoranir í málaflokknum ráðuneytisins voru megin viðfangsefnið. Einnig var kynning á nýsamþykktri byggðaáætlun.

INNRA STARF SSNE

Starfsdagar

Haldnir voru tveir starfsdagar á síðasta ári, einn að vori og hinn að hausti. Sá fyrri var haldinn á Húsavík þar sem starfsfólk kom saman og unnu sameiginlega að ýmsum innri málum og skipulögðu starfið framundan. Við það tækifæri heimsótti starfsfólk SSNE meðal annars Hraðið á Húsavík og fleiri staði og var dagurinn heilt yfir bæði gagnlegur og hvetjandi.

Í haust var svo haldinn starfsdagur á norðaustursvæði landshlutans og heimsótti starfsfólk SSNE meðal annars Fræðasetrið um forystufé, Sillukot, Ísfélagið á Þórshöfn, auk þess að funda með sveitarstjórn Langanesbyggðar um starfsemi SSNE og helstu verkefni Langanesbyggðar. Gist var á Raufarhöfn þar sem Nanna Steina starfsmaður SSNE var búin að skipuleggja áhugaverða dagskrá fyrir samstarfsfólk sitt, en um morguninn sat starfsfólk tímastjórnunarnámskeið, auk þess sem verkefni haustsins voru undirbúin.

Stjórnarfundir og þing SSNE

Alls voru haldnir 13 stjórnarfundir á árinu 2022. Fundir stjórnar eru almennt rafrænir, en stjórn hefur það að markmiði að hafa staðfundi að meðaltali tvisvar á ári og er þá tækifærið nýtt til að heimsækja sveitarfélög í landshlutanum í leiðinni.

Haldin voru þrjú þing á árinu 2022. Ársþing SSNE var í fyrsta skipti ekki rafrænt og var það haldið á Húsavík 8. og 9. apríl. Fyrra aukaþing SSNE var haldið 23. september í Eyjafjarðarsveit, en það seinna var rafrænt eins og samþykktirnar kveða á um og var það haldið 2. desember.

Fundargerðir stjórnarfunda og þinga SSNE má sjá á heimasíðu SSNE.

FJÁRMÁL OG REKSTUR

Ársreikningur 2021

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 9. Mars 2022 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársþing samþykkti reikninginn á ársþingi SSNE 8.-9. apríl.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2021 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals liðlega 388 m.kr. en gjöld, að teknu tilliti til vaxta, námu tæpum 368 m.kr. Afgangur af rekstri samtakanna var því um 20,7 m.kr., mun betra en áætlun hafði gert ráð fyrir (4,3 m.kr.). Skýring þessa er að enn geisaði covid faraldurinn sem hamlaði mikið ferðalögum og „hefðbundnum“ fundahöldum. Þá voru aukin framlög hins opinbera vegna faraldursins meir en gert var ráð fyrir.

Ársreikningur 2022

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 15. mars 2023 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársreikningurinn er síðan lagður fram á ársþingi 14. – 15. apríl til staðfestingar.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 202 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals 417,6 m.kr. en gjöld án fjármagnsliða námu424,4 millj kr. Fjármunatekjur voru samtals 1,7 millj kr. og því var tap á rekstri félagsins árið 2022 sem nam rúmum fimm milljónum krónasem er talsverð breyting frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam rúmum 20 milljónum króna. Ástæður taprekstrar eru þær helstar að gjaldfærsla vegnalífeyrisskuldbindingar Skólaþjónustu Eyþings hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins nam á árinu nam rúmlega fjórum milljónum króna, um þremur milljónum umfram áætlun. Þá vorugjaldfærð kaup áhalda og tækja vegna standsetningar nýs skrifstofurýmis á Húsavíkum 2,4 milljónir sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í áætlun. Starfmannavelta var nokkur á árinu og því fylgdi ófyrirséður ráðningarkostnaður.

Lausafjárstaða SSNE var ágæt á árinu og var í árslok réttar 114,2 m.kr. (lækkun um 18 millj. milli ára), en stærsti hluti lauss fjár eru úthlutaðir, ógreiddir styrkir fyrri ára. Eiginfjárstaða samtakanna var í árslok 2020 neikvæð um 18,3 m.kr. “sem skýrist af stöðu lífeyrisskuldbindinga og uppsafnaðs taps af rekstri samgöngumála”, eins og kemur fram í áritun endurskoðanda. Til nánari skýringa þá má rifja upp að Eyþing (forveri SSNE) hafði á árunum 2012 til 2019 umsjón með rekstri almenningssamgangna í landshlutanum fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna. Reksturinn var framan af vanfjármagnaður og nemur uppsafnað tap í árslok 2021 59,2 milljónum króna. Stjórn og framkvæmdastjóri vinna að lausn málsins með viðræðum við Vegagerð og innviðaráðuneyti. Vonast er til að lausn finnist á árinu 2023.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2023

Fyrstu drög að fjárhagsáætlun ársins 2023 voru lögð fram á ársþingi í apríl og er gert ráð fyrir óverulegum hagnaði af rekstri félagsins. Verkefnastjóri fjármála og rekstrar benti á að talsverð óvissa væri um þróun rekstrar á árinu 2023, einkum þar sem kjarasamningar yrðu lausir á árinu og verðbólga hefur aukist sem leiðir til kostnaðarhækkana á húsaleigu og öðrum föstum samningum sem bundnir eru breytingum á neysluvísitölu.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir 2023 var kynnt á aukaþingi SSNE í desember og var enn gert ráð fyrir óverulegum hagnaði, hins vegar var áætlunin ekki staðfest vegna áframhaldandi óvissu um kostnaðarþróun komandi árs. Stjórn og starfsfólki var falið að vinna áfram að fjárhagsáætluninni og leita allra leiða til að halda rekstri SSNE í jafnvægi.

Endanleg fjárhagsáætun fyrir árið 2023 og drög að áætlun ársins 2024 var kynnt og staðfest á fundi stjórnar SSNE þann 1. mars og kynnt á ársþingi samtakanna 14.-15. apríl.

Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2023 er gert ráð fyrir óverulegum afgangi af rekstri, þó með þeim fyrirvara að enn er óvissa um launaþróun ársins, en laun eru einn stærsti kostnaðarliður í rekstri SSNE. Þá mun þróun verðbólgu einnig hafa áhrif á reksturinn þar sem fastir þættir, svo sem húsaleiga eru tengdir breytingu á vísitölu neysluverðs. Í áætluninni er gert ráð fyrir að neysluvísitala hækki um 10,4% og 13,5% árið 2024. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á fjölda starfsfólks árin 2024 í fjárhagsáætlun.

ÁLYKTANIR, UMSAGNIR OG BÓKANIR STJÓRNAR

Mikilvægur þáttur í hagsmunagæslu SSNE felst í því að setja sjónarmið, viðbrögð og áskoranir fram með formlegum hætti. Á fundum stjórnar eru slík mál tekin til umræðu og stjórn bókar um málin. Framkvæmdastjóri kemur bókunum stjórnar á framfæri við viðeigandi aðila, stofnanir og ráðuneyti.

38. fundur, 8. júní 2022

Vegna stefnumótandi byggðaáætlunar 2022-2036 og fjármögnun:

Stjórn ræddi fjármagn til byggðaáætlunar í tillögu til þingsályktunar.

Fylgiskjal: 1849/151 stjórnartillaga: stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 | Þingtíðindi | Alþingi (althingi.is). Að gefnu tilefni bókaði stjórn eftirfarandi:

Stjórn SSNE furðar sig á því að á sama tíma og landshlutasamtökum er falin aukin ábyrgð og skyldur í stefnumótandi byggðaáætlun lækki framlög ríkisvaldsins verulega til landshlutasamtaka sem og til sóknaráætlana, sem er eitt mikilvægasta verkefni samtakanna. Slíkt hlýtur að teljast í hrópandi ósamræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur með skýrum hætti að unnið verði að eflingu sóknaráætlana og landshlutasamtaka. Óskar stjórn SSNE eftir útskýringum á þessu ósamræmi.

Undir önnur mál:

38. fundur stjórnar SSNE var síðasti fundur núverandi stjórnar. Formaður og aðrir stjórnarmenn þökkuðu fyrir gott og árangursríkt samstarf. Stjórn þakkaði starfsfólki SSNE sérstaklega fyrir framlag þeirra til uppbyggingar samtakanna og mjög árangursríkt starf.

39. fundur, 17. ágúst 2022

Vegna erindis IRN til sveitarstjórna vegna stefnumótunar í þremur málaflokkum frá 4. júlí s.l.:

Stjórn SSNE tekur undir mótmæli stjórnar SASS vegna óskar innviðaráðuneytis um að nýkjörnar sveitarstjórnir veiti upplýsingar í grænbækur fyrir stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu ríkisins fyrir 31. júlí nk. Víða hafa ekki verið ráðnir nýir framkvæmdastjórar og eins eru margir nýir fulltrúar í sveitarstjórnum. Það ber ekki vott um góða stjórnsýsluhætti að innviðaráðuneytið setji sveitarstjórnum jafn þröngan tímaramma þegar svo háttar, ekki síst þegar um er að ræða jafn viðamiklar og mikilvægar stefnur ríkisins og hér eru undir. Stjórn SSNE tekur því jafnframt undir tilmæli stjórnar SASS um að fresturinn verði framlengdur til 30. september þannig að tryggt verði að öllum sveitarstjórnum sé gefinn eðlilegur tímafrestur til svara.
Stjórn staðfestir bókunina.

Umsögn vegna draga að frumvarpi til laga um sýslumanna var einnig staðfest á þessum fundi.

43. fundur, 2. nóvember 2022

Umsögn um frumvarp til laga um fjárlög 2023 var staðfest á þessum fundi.

45. fundur, 9. desember 2022

Umsögn vegna draga að frumvarpi um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð var staðfest á þessum fundi.