Velheppnaðir tónleikar Upptaktsins, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna, fóru fram í Menningarhúsinu Hofi, sunnudaginn 24. apríl. Þar voru ellefu verk 13 ungra tónskálda á aldrinum 11-15 ára frá Akureyri, Eyjafjarðarsveit og Hrísey flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum. Verkin ellefu voru valin úr innsendum tónlistarhugmyndum, en börn í 5. -10. bekk í skólum á Norðurlandi eystra gátu tekið þátt í verkefninu. Verkin í ár voru afar fjölbreytt, en þar mátti heyra nýklassísk verk, popp-,rokk-, söngleikja-, jazz- og tölvuleikjalag. Lokapunktur Upptaktsins er svo þegar lögin ellefu verða gefin út á Youtube.