Hlutverk myndlistarsjóðs skv. myndlistarlögum er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kostun verkefna sem falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. Þannig skal stuðlað að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist hérlendis sem erlendis. Sjóðurinn veitir verkefnastyrki sem ætlaðir eru til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listrannsókna. Jafnframt veitir sjóðurinn styrki til undirbúnings verkefna sem falla undir starfssvið sjóðsins.
Styrkir skiptast í eftirfarandi flokka
- Undirbúningsstyrki – Undirbúningsstyrkir eru veittir til undirbúnings og þróunar viðamikilla verkefna sem síðar geta sótt um styrk til framkvæmdar.
- Sýningarverkefni – Styrkir til sýningarverkefna. Með verkefni er átt við viðburð sem fer fram á afmörkuðu tímabili með skilgreint upphaf og endi.
- Útgáfustyrki, rannsóknarstyrki og aðra styrki – Útgáfustyrkir, rannsóknarstyrki og aðrir styrkir eru veittir til rannsókna á verkum íslenskra listamanna og til útgáfu rita um íslenska listasögu og verk myndlistarmanna auk annarra opinna verkefna sem ekki falla undir aðra liði.
Verkefnastyrkir: Myndlistarmenn, sýningarstjórar, listfræðingar og sjálfstætt starfandi fagmenn á sviði myndlistar geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Listasöfn, gallerí, sýningarstaðir, stofnanir og félög geta notið styrks úr myndlistarsjóði til skilgreindra verkefna. Mikilvægt er að nafn þess sem er í forsvari fyrir hönd, hóps, stofnunarinnar eða félagsins komi skýrt fram sem tengiliður verkefnisins.
Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla íslenskt myndlistarlíf m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær. Myndlistarsjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkenndir myndlistarmenn frá Íslandi eru þátttakendur í.
Umsóknum í myndlistarsjóð skal skilað á umsóknarvef sem byggir á rafrænni eyðublaðagátt https://eydublod.is/ sem finna má einnig á heimasíðu sjóðsins. Notast er við rafræn skilríki eða íslykil. Tekið er við umsóknum til kl. 16 á auglýstum lokadegi umsókna.
Nánari upplýsingar á vefsíðu Myndlistarsjóðs.