Hvert er markmiðið?
Tilgangur Jafnréttissjóðs Íslands er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að stuðla að jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.
Tilgreint er í fjármálaáætlun hvaða ár úthlutun eigi að fara fram á hverju fimm ára tímabili en gert er ráð fyrir úthlutun á tveggja ára fresti.
Hverjir geta sótt um?
Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök.
Hvernig er sótt um?
Umsóknum í sjóðinn skal skila inn í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís. Umsóknum má skila á íslensku og ensku.
Skilyrði úthlutunar:
Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands nr. 144/2021
Við mat á styrkhæfi umsókna verður lagt mat á gæði verkefnis- eða rannsóknaráætlunar, þ.m.t. markmið og skipulag verkefnis, hagnýtingargildi og mikilvægi þess með tilliti til reglna og markmiða sjóðsins um að auka jafnrétti kynjanna. Í samræmi við þingsályktanir um Jafnréttissjóð Íslands leggur stjórn áherslu á að styrkja verkefni og rannsóknir sem;
- eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu
- varpa ljósi á samfélagslegan, umhverfislegan og efnahagslegan ávinning af jafnrétti
- er ætlað að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum
- stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi
- stuðla að fræðslu og forvarnastarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni og einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt
- stuðla að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis
- stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum
- falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu sem er ætlað að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum
- eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar þátttöku í samfélagslegum verkefnum og stjórnmálastarfi og stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess
- eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð