Verkefnastjóri farsældar kynnti svæðisbundið farsældarráð á ársþingi SSNE
Verkefnastjóri farsældar kynnti svæðisbundið farsældarráð á ársþingi SSNE
Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri farsældar á Norðurlandi eystra, hélt fróðlegt erindi á ársþingi SSNE sem haldið var 2.-3. apríl sl. Þar kynnti hann þróun og framtíðarsýn varðandi uppbyggingu svæðisbundins farsældarráðs í landshlutanum.
Í erindi sínu lagði Þorleifur áherslu á mikilvægi samhæfingar í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hann fjallaði m.a. um hlutverk farsældarráða, áskoranir við mótun þeirra og tækifærin sem felast í auknu samráði milli ríkis, sveitarfélaga og annarra þjónustuveitenda, sem og hvernig hægt sé að tryggja að raddir barna, foreldra og annarra hagaðila heyrist í ferlinu.
„Farsæld barna er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ sagði Þorleifur og benti á að verkefnastjórar farsældar víða um land væru að vinna að því að móta nýja sýn á þjónustu við börn – þjónustu sem byggir á þverfaglegri samvinnu, snemmtækri íhlutun og samfelldri eftirfylgd.
Þorleifur veitti innsýn í þau verkefni sem framundan eru á Norðurlandi eystra er varða svæðisbundið farsældarráð, sem og hlutverk verkefnastjóra farsældar í þessari umbótavinnu. Hann hvatti þátttakendur á ársþinginu til að taka virkan þátt í umræðu um farsæld og lagði áherslu á mikilvægi þess að svæðisbundin farsældarráð verði vettvangur opinnar og árangursríkrar samvinnu.
„Með farsældarráði getum við markvisst forgangsraðað aðgerðum í þágu barna með sama metnaði og við sækjum fram í atvinnu- og nýsköpunarmálum,“ sagði Þorleifur og vakti þar athygli á mikilvægi þess að málefni barna og fjölskyldna þeirra njóti forgangs í stefnumótun og framkvæmd þjónustu.