Fara í efni

Velheppnuðu ársþingi SSNE í Svalbarðsstrandarhreppi lokið

Velheppnuðu ársþingi SSNE í Svalbarðsstrandarhreppi lokið

Ársþingi SSNE sem hófst í snjóbyl lauk í sumarveðri í gær. Þingið  var afar vel sótt af sveitarstjórnarfólki landshlutans og öðrum góðum gestum og fór vel um okkur á Hótel Natur í Svalbarðsstrandarhreppi. 

Fyrri dagurinn hófst á umræðum um hvernig við getum gripið tækifærin sem búa í landshlutanum. Þar voru með Haraldur Hallgrímsson forstöðumaður hjá Landsvirkjun og Karen Mist Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Eimi með áhugaverð erindi, auk þess sem Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings fór yfir reynslu þeirra af uppbyggingu Grænna iðngarða á Bakka. Eftir hádegi þann dag leiddi Lára Kristín Skúladóttir, lóðs og markþjálfi gesti þingsins í gegnum vinnustofu sem var kölluð Leiðtoginn í heita pottinum þar sem fjallað var á ólíka vegu um samskipti og starfsaðstæður sveitarstjórnarfólks. 

Seinni dagurinn byrjaði á vel heppnaðri vinnustofu um breytingar á 9. kafla sveitarstjórnarlaga sem leidd var af Bryndísi Gunnlaugsdóttur, lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jóhönnu Sigurjónsdóttur, sérfræðingi hjá innviðaráðuneytinu. Í framhaldinu voru ávörp gesta sem í þetta sinn voru Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk þess sem spilað var ávarp frá Eyjólfi Ármannssyni, innviðaráðherra. Góðar umræður sköpuðust undir þessum dagskrárlið. 

Að ávörpum gesta loknum var farið í hefðbundin aðalfundarstörf þar sem formaður stjórnar SSNE, Lára Halldóra Eiríksdóttir, fór yfir skýrslu stjórnar og, auk þess sem ársreikningur 2024 og endurskoðuð fjárhagsáætlun voru samþykkt. Stóra verkefni dagsins voru þó nokkuð umfangsmiklar breytingar á samþykktum félagsins, auk þess sem tvær ályktanir þingsins voru afgreiddar. Ályktanirnar má nálgast hér.  

Stjórn og starfsfólk SSNE þakkar þinggestum fyrir ánægjulega samveru og gagnlegt samtal á Svalbarðsströndinni og þakkar sveitarfélaginu Svalbarðsstrandarhreppi  sérstaklega fyrir móttökurnar. Þinggerð þingsins verður gerð aðgengileg á heimasíðu SSNE um leið og hún liggur fyrir.

Getum við bætt síðuna?