Vel heppnað málþing um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir
Vel heppnað málþing um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir
Þann 5. október síðastliðinn var haldið vel heppnað málþing um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir. Á málþinginu var farið yfir það sem vel hefur gengið og það sem hefur lærst á þessum rúma áratug sem verkefnið hefur verið í gangi. Að auki voru kynntar niðurstöður áhrifamats á verkefninu sem unnið var af KPMG. Nanna Steina Höskuldsdóttir verkefnastjóri SSNE og Norðurþings á Raufarhöfn stýrði dagskránni en hún var áður verkefnastjóri brothættra byggða verkefnisins Raufarhöfn og framtíðin.
Málþingið, sem var fjölsótt bæði á Raufarhöfn og í streymi, þótti mjög áhugavert og var sérstaklega gagnlegt fyrir starfsfólk SSNE að hlýða á hvernig verkefnið hefur gengið í öðrum landshlutum og þann lærdóm sem hægt er að yfirfæra og nýta sér. Einnig var virkilega jákvætt að heyra hversu vel það þótti heppnast á Raufarhöfn að fylgja verkefninu eftir þegar því lauk formlega að hálfu Byggðastofnunar.
Fjórtán byggðalög hafa tekið þátt í verkefninu fram að þessu. Þar af hafa fimm slík verkefni verið keyrð á Norðurlandi eystra. Það fyrsta var Raufarhöfn og framtíðin, svo voru einnig Öxarfjörður í sókn, Glæðum Grímsey og Hrísey – perla Eyjafjarðar, auk Betri Bakkafjarðar sem er það eina sem er enn í gangi í landshlutanum, en það hefur nú verið framlengt um eitt ár, út árið 2024.
Það sem líklega stóð upp úr dagskránni var að heyra upplifun ólíkra verkefnastjóra verkefnanna af starfinu. Það var ánægjulegt að heyra hvernig verkefnin virtust almennt hafa skilað nokkrum árangri, en eins og fram kom í áhrifamati KPMG þá er þó ýmislegt sem mætti brýna og læra af, og því velt upp hvort upphaflegt markmið verkefnanna hafi verið of metnaðarfullt og mögulega óraunhæft. Augljóst sé þó að verkefnið hafi aukið samtakamátt íbúa en meira þurfi til. Gunnar Már Gunnarsson verkefnastjóri Betri Bakkafjarðar kom einmitt inn á það í sínu ávarpi að gera þyrfti meira til að styrkja samvinnu milli aðila, byggðakjarna og sveitarfélaga á köldum svæðum eins og Norð-austurhorninu. Tækifærin séu sannarlega fyrir hendi, en að innviðir þurfi að vera til staðar svo árangurinn sem náist með verkefninu glatist ekki. Gunnar kom einnig inn á þann mikilvæga punkt að það er enginn sprettur að efla byggð sem komin er í öldudal. Mikilvægt er að sveitarfélögin séu jafnframt efld til að takast á við verkefnin í framhaldi þess að formlegri aðkomu Byggðastofnunar lýkur.
Vonandi verður málþingið og þetta áhrifamat á verkefninu, til þess að verkefnið verði eflt til framtíðar. Verkefni, eða verkfæri, eins og Brothættar byggðir eru enn mikilvæg til stuðnings og vaxtar byggðum sem glíma við langvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf. Það er landshlutasamtökunum afar mikilvægt að fá að taka jafn virkan þátt í þessum verkefnum og raun ber vitni.
Hægt er að horfa á upptöku frá málþinginu hér.