Fara í efni

Vel sóttur íbúafundur í Hörgársveit um líforkuver

Vel sóttur íbúafundur í Hörgársveit um líforkuver

Velheppnaður íbúafundur var haldinn í íþróttahúsinu á Þelamörk í gær, fimmtudaginn 2. nóvember. Á fundinum var íbúum sveitarfélagsins Hörgársveitar kynntar hugmyndir um uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi. Fundurinn var vel sóttur, en um 70 manns hlýddu á Vigfús Björnsson skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, Kristínu Helgu Schiöth verkefnastjóra líforkuvers hjá SSNE, og Karl Karlsson ráðgjafa verkefnisins.

Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, stýrði fundinum en eftir kynningarnar fóru fram pallborðsumræður. Þar voru auk frummælenda og Iðunn María Guðjónsdóttir fulltrúi matvælaráðuneytis og Kjartan Ingvarsson fulltrúi umhverfis- orku og loftslagsráðuneytis.

Í kynningum Kristínar Helgu og Karls kom meðal annars fram að líforkuverið gæti verið svar við vanda Íslands þegar kemur að vinnslu dýraleifa úr áhættuflokki 1, þ.m.t. hræ úr sveitum. Íslandi skortir innviði til að takast á við þetta efni á löglegan og ábyrgan hátt, en einungis ein brennsla er á landinu sem hefur starfsleyfi til að brenna dýraleifar. Vegna þessa er stærsti hluti dýraleifa í dag urðaður, ýmist heima á bæjum eða á urðunarstöðum með starfsleyfi. Slík urðun dýraleifa hefur samt sem áður verið ólögleg um árabil og hefur nú fallið EFTA dómur á Ísland vegna þess hvernig staðið er að málum í dag.

Í lok október stóð SSNE fyrir kynnisferð til Finnlands og Noregs. Í ferðinni var hag- og fagaðilum boðið að kynna sér hvernig söfnun, móttöku og vinnslu dýrahræja er háttað í þeim löndum. Sú vinnsla sem lagt er til að verði reist á Dysnesi er algjörlega sambærileg þeim sem skoðaðar voru í Finnlandi og Noregi, einungis smærri. Vinnslan sem teiknuð hefur verið upp á Dysnesi gæti samt sem áður annað öllum dýrahræjum á landinu, þ.m.t. álagstoppum í sláturtíð og ef upp koma smitsjúkdómar sem krefjast niðurskurðar búfjár eða eldisfisks. Þrátt fyrir að hér á Íslandi sé aðeins um lítið magn efnis að ræða er nauðsynlegt að til séu viðeigandi úrræði til að vinna rétt úr efninu. Það er bæði vegna þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, og ekki síst til að tryggja megi heilbrigði dýra og manna.

Líforkuverið sem lagt er til að rísi á Dysnesi uppfyllir kröfur um bestu mögulegu tækni þegar kemur að lyktarstjórnun og mengunarvörnum. Að auki er horft til krafna sem gerðar verða til vatnshreinsunar á allra næstu árum, en þær kröfur eiga einnig við um Ísland. Afurðir versins verða í formi orkugjafa og vinnsluferlar eru skýrir; eftir að efnið er malað niður í ákveðna kornastærð fer það í gegnum þrýstisæfingu og svo unnið áfram í hráfitu annars vegar og kjötmjöl hins vegar. Með þessari leið er smitefni óvirkjað, en hægt er að nota fituna áfram til lífdísilframleiðslu og kjötmjölið til orkunýtingar sem brennsluefni.

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og fjölda spurninga svarað er varða skipulag svæðisins, möguleg áhrif á nærsvæðin, hreinlæti og smitvarnir - svo dæmi séu tekin. Fulltrúar ráðuneytanna tóku einnig til máls, en umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið hefur stutt vel við undirbúning verkefnisins, enda fellur það vel að markmiðum Íslands í loftslagsmálum og stuðlar að innleiðingu hringrásarhagkerfis. Fulltrúi Matvælaráðuneytisins tók undir orð frummælenda um hversu brýnt það er að finna lausn við dýraleifavandanum á landsvísu og fagnaði því að verið væri að horfa til þeirra aðferða sem kynntar voru á fundinum. Umræðan á Íslandi hefur lengi verið á þá leið að brennsla sé eina leiðin til að losna við efnið, en eins og dæmin frá Finnlandi og Noregi sýna svo vel, er hægt að vinna efnið þannig að úr verði verðmæti í stað þess að eyða orku í að brenna það með tilheyrandi umhverfisáhrifum.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar sem haldinn var þann 31. október s.l. kom fram að sveitarstjórnin er jákvæð fyrir því að starfsemin rísi í sveitarfélaginu. Þá hefur þróunarfélag um verkefnið hefur verið stofnað undir heitinu Líforkugarðar ehf. Þróunarfélagið nú þegar skrifað undir viljayfirlýsingu ásamt Hafnasamlagi Norðurlands, sem eru landeigendur að Dysnesi. Í viljayfirlýsingunni skuldbinda báðir aðilar sig til áframhaldandi samtals um uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi.

Getum við bætt síðuna?