Fara í efni

Vel heppnuðu ársþingi SSNE á Siglufirði lokið

Í kaffipásum Ársþingsins var stutt fyrir fundargesti að fara og dást að Sigurvini, nýju björgunarski…
Í kaffipásum Ársþingsins var stutt fyrir fundargesti að fara og dást að Sigurvini, nýju björgunarskipi sem þjónar Norðurlandi og á heimahöfn í Fjallabyggð.

Mynd: Rögnvaldur Guðmundsson.

Vel heppnuðu ársþingi SSNE á Siglufirði lokið

Siglfirskt vorveður tók á móti fundargestum þegar þeir yfirgáfu Bláa húsið á hádegi í dag, eftir vel heppnað ársþing SSNE. Mjög góð mæting var á þingið í ár af þingfulltrúum, og margir góðir gestir sátu þingið í hluta eða heild, þar með talið ráðherra, þingfólk, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt nýráðnum framkvæmdarstjóra Sambandsins og embættisfólk af svæðinu.

Allar tillögur sem lagðar voru fram um breytingar á samþykktum SSNE voru samþykktar, bæði var kosið um léttvægar breytingar á orðalagi og um stærri breytingar; ber þar helst að nefna þá breytingu að framvegis verði stjórn SSNE skipuð fulltrúum allra aðildasveitarfélaga.

Umræður um samgöngumál voru fyrirferðarmikil á þinginu. Ályktun um samgöngumál  var lögð fram og samþykkt - þingfólk og ráðherra lögðu einnig áherslu á mikilvægi samgöngumála fyrir landshlutann í sínum erindum. Meðal þess sem kemur fram í ályktuninni er hvatning til stjórnvalda um að jafna verð á eldsneyti milli flugvalla landsins, bendir á staði í vegakerfinu á Norðurlandi eystra sem aðkallandi er að gera öryggisúrbætur og brýnir mikilvægi framkvæmda jarðgangna í landshlutanum og að þær framkvæmdir hefjist sem fyrst. Ályktunin tiltekur að Tröllaskagi sé á meðal þeirra svæða á landinu þar sem jarðgöng eru nauðsynleg ef tryggja á greiðar, hagkvæmar og öruggar samgöngur, bæði um Siglufjarðarskarð og á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Á næstu dögum munu birtast fréttir unnar upp úr ársþingi SSNE, enda var snert á mörgum mikilvægum málaflokkum og af nægu að taka. Starfsfólk SSNE þakkar þinggestum fyrir ánægjulega og gagnlega samveru á Siglufirði og óskar góðrar helgar.

Getum við bætt síðuna?