Fara í efni

Vel heppnuð ör-ráðstefna Dalvíkurbyggðar og SSNE: Er Dalvíkurbyggð að leita að þér?

Vel heppnuð ör-ráðstefna Dalvíkurbyggðar og SSNE: Er Dalvíkurbyggð að leita að þér?

Dalvíkurbyggð ásamt SSNE bauð upp á ör-ráðstefnu í 2.sinn sem fór fram í netheimum í gær.   Hægt var að fylgjast með á Zoom en var einnig útsendingu streymt með FB Live á Facebook síðu Dalvíkurbyggðar.  Þegar mest var voru tæplega 60 manns að hlusta og horfa á fjölbreytta dagskrá ráðstefnunnar.  

Við spurðum ráðstefnugesti nokkurra léttra spurninga þar sem fram kom að:

  • 77% aðspurðra fagnaði viðleitni sveitarfélagsins til opnari samskipta við íbúa
  • 83% aðspurðra vildi sjá fjölbreyttara atvinnulíf í Dalvíkurbyggð 
  • 50% vildu sjá aukið framboð húsnæðis í sveitarfélaginu (bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði)
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar ávarpaði fundargesti og þakkaði atvinnumála- og kynningaráði og þjónustu- og upplýsingafulltrúa fyrir að koma þessari ráðstefnu á. Efni fundarins hefur beina tilvísun í þann hluta atvinnustefnu sveitarfélagsins sem tekur mið af því að fá unga fólkið okkar aftur heim og sjá atvinnutækifærin sem eru til staðar í Dalvíkurbyggð.

Þar á eftir kom síðan Vífill Karlsson, hagfræðingur, ráðgjafi og dósent við Háskólann á Akureyri. Hann kynnti fyrir fundargestum niðurstöður íbúakönnunar sem íbúar á Norðausturlandi voru fyrst núna að taka þátt í. Erindi Vífils bar heitið Það er fleira en friðsæld í Dalvíkurbyggð. Niðurstöðurnar komu vel út fyrir Eyjafjörð og Akureyri en þessir tveir staðir eru í öðru og þriðja sæti í heildina yfir þau atriði sem sérstaklega var verið að sækjast eftir svörum við.
 
Eftir að Vífill hafði lokið máli sínu sat Björk Hólm Þorsteinsdóttir fyrir svörum í erindi sínu Að heiman og aftur heim. Hún talaði um hvernig það hefði verið að taka ákvörðun um að flytja aftur heim og byggja sitt líf upp með fjölskyldunni á Dalvík. Þá kom hún einnig inn á það hvernig það kom til að hún og maðurinn hennar stofnuðu eigið fyrirtæki Runia ehf. og tækifærin sem eru allt í kringum okkur.
 
Við skelltum einnig í smá myndband af svörum nokkurra barna við spurningum okkar og þar má sjá þó nokkur gullkornin.
 
Því næst hélt Íris Hauksdóttir, þjónustu- og upplýsingafulltrúi. erindi sitt Er Dalvíkurbyggð að leita að þér? Þar fór hún yfir helstu upplýsingar sem nauðsynlegt er að vita um Dalvíkurbyggð og það hvaða atvinnutækifæri eru fyrir hendi nú þegar í Dalvíkurbyggð. Þá kom hún inn á í erindi sínu að í Dalvíkurbyggð séu skv. Byggðastofnun 7 laus skrifstofuhúsnæði fyrir einstaklinga sem sinna störfum án staðsetningar. Óformleg spurningakönnun var send út á Instagram reikningi sveitarfélagsins þar sem spurt var: Hvaða fyrirtækjaþjónustu finnst þér vanta í Dalvíkurbyggð? og Hvaða þjónustu sækir þú utan sveitarfélagsins.  Hér má sjá dæmi um nokkur svör en hafa skal í huga að þetta er ekki tæmandi listi: Bakarí - Ísbúð - Aukin tannlæknaþjónusta - Fleiri sjúkraþjálfarar - Þjónusta við dýr - Lengri opnun veitingastaða. 
 
Að lokum sat Freyr Antonsson fyrir svörum í erindi sem bar heitið Hvað get ég gert? en hann situr ekki oft auðum höndum. Þau hjónin hafa nýlega keypt aftur til baka hvalaskoðunarfyrirtæki sem þau settu á laggirnar fyrir allmörgum árum. Freyr fékk nokkra aðila með sér í það frábæra verkefna að gera skautasvell við íþróttamiðstöðina sem tókst svo vel að nú hefur foreldrafélag Dalvíkurskóla safnað fyrir og keypt 100 pör af skautum og hjálma og kylfur. Í erindi Freys tiltók hann ýmislegt sem hann sem frumkvöðull getur gert og hvað það sé nauðsynlegt að bíða ekki eftir því að aðrir geri hlutina fyrir þig.  Allir geta gert eitthvað.  Þá lagði Freyr sérstaka áherslu á að hugsa í heildrænum langtímalausnum þar sem samstarf margra hagaðila er haft að leiðarljósi. 


Ekki reyndist mikill tími fyrir spurningar úr sal en Kristinn Ingi Valsson stóð sig með stakri prýði sem fundarstjóri og dagskránni lauk um kl. 18.05.
Við þökkum öllum þeim sem mættu hvort sem er á fundinn beint eða á Facebook.

Fyrir áhugasama má nálgast upptöku af ráðstefnunni á facebook síðu Dalvíkurbyggðar.

Um leið og við þökkum öllum sem að ráðstefnunni stóðu kærlega fyrir þátttöku, hvetjum við hjá SSNE önnur sveitarfélög til að leita til okkar vegna slíkra verkefna.   Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í þeim.  

Getum við bætt síðuna?