Vel heppnað Ungmennaþing SSNE á Raufarhöfn
Vel heppnað Ungmennaþing SSNE á Raufarhöfn
Dagana 21. - 22. nóvember stóð SSNE fyrir ungmennaþingi í félagsheimilinu á Raufarhöfn. Markmiðið þingsins er að búa til vettvang fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára þar sem það fær tækifæri til að ræða málefni sem brenna á þeim og koma skoðun sínum á framfæri. Jafnframt er eitt af markmiðum þessa viðburðar að stuðla að tengslamyndun meðal unga fólksins þvert á sveitarfélögin og efla tengsl þeirra við SSNE.
Þetta var í þriðja sinn sem þingið er haldið á vegum SSNE, verkefnið er áhersluverkefni. Á þinginu 2022 var ákveðið að áherslan í ár yrði á menningu og skapandi greinar.
Þingið var vel heppnað og þangað mættu hátt í 40 ungmenni á aldrinum 13-18 ára frá flestum sveitarfélögum landshlutans, ásamt stafsfólki sveitarfélagna. Þemað á þinginu var menning og skapandi greinar. Á þingið komu góðir gestir, Örlygur Hnefill menningarfrumkvöðull stýrði vinnustofunni Alþjóðlegur kvikmyndaiðnaður á Íslandi og skapandi viðburðarhald, og starfsfólk SSNE fór yfir nokkur verkfærin okkar til að stuðla að hamingju í okkar landshluta og skapandi breytingar og eflingu byggða. Unga fólkið var hvatt til skapandi hugsunar og nýsköpunar til að takast á við áskoranir sem tengjast búsetu og sjálfbærri framtíð í landshlutanum.
Niðurstöður ungmennaþingsins verða teknar saman af starfsmönnum sveitarfélagana og afhentar stjórn SSNE til að það nýtist í vinnu Sóknaráætlunar á komandi árum. Þær verða einnig kynntar á næstu vikum á heimasíðu SSNE.
Við þökkum Raufarhöfn fyrir góðar móttökur. Framtíðin er björt með þetta flotta unga fólk í fararbroddi í landshlutanum.