Úthlutun úr Atvinnumálum kvenna til Norðurlands eystra
Úthlutun úr Atvinnumálum kvenna til Norðurlands eystra
Þessa dagana er verið að úthluta úr ýmsum sjóðum á landsvísu, en eitt af því sem SSNE gerir er að rýna úthlutanir til þess að skoða hlutfall þess sem er að koma inn á Norðurland eystra. Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað föstudaginn 17. maí við hátíðlega athöfn hjá Vinnumálastofnun. SSNE óskar öllum styrkhöfum til hamingju.
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.
Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.
Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.
Gott er að fylgjast með viðburðardagatali SSNE til að fylgjast með fjölbreyttum styrkjatækifærum.
Í ár bárust 244 umsóknir og 33 flott verkefni hlutu styrk, samtals að fjárhæð 38.000.000 kr en auk þess var boðið upp á fyrirtækjasmiðju fyrir þær sem fengu styrk til að gera viðskiptaáætlun.Hæsta styrkinn í ár, 2.5 milljónir króna, hlutu þær Sandra Gísladóttir fyrir verkefnið Barilli Enterprise Karaokee og Alice Sowa fyrir verkefnið Ullarkögglar. Eitt verkefni á Norðurlandi eystra hlaut framgang, Huldustígur - fræðsla til þekkingar, sem hlaut styrk upp á 2 m.kr. til markaðssetningar og launakostnaðar. Styrkhafi og framkvæmdaraðili er Bryndís Fjóla Pétursdóttur. Til hamingju!
Lesa má nánar um verkefnið Huldustíg með því að smella hér.
Verkefnið Huldustígur hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar 2024 til að standa að ráðstefnu um óáþreifanlegan þjóðar- og menningararf okkar Íslendinga: álfa og huldufólk. En eitt af markmiðum núverandi Sóknaráætlunar er að tryggja fjölbreytileika menningarstarfs með áherslu á aðgengi ólíkra hópa að menningu og menningararfi. Í september verður opnað fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð fyrir árið 2025.
Á næstu vikum fer af stað mótun nýrrar Sóknaráætlunar sem gildir í fimm ár fyrir landshlutann. Við hvetjum öll áhugasöm um að taka þátt í samtali og þróun markmiða fyrir landshlutann. Það er til dæmis hægt að gera með því að skrá sig í samráðsvettvang SSNE og í haust verða haldnar opnar vinnustofur sem verða auglýstar síðar á miðlum SSNE.