Uppbyggingarsjóður EES: Nýr gagnagrunnur fyrir leit að samstarfsaðilum
Uppbyggingarsjóður EES: Nýr gagnagrunnur fyrir leit að samstarfsaðilum
Utanríkisráðuneytið hefur komið á fót gagnagrunni fyrir áhugasama samstarfsaðila og möguleg samstarfsverkefni sem leita styrkja í Uppbyggingarsjóð EES. Gagnagrunnurinn er á ensku þar sem hann miðlar upplýsingum til viðtökuríkjanna sem hafa áhuga á að hefja samstarf með íslenskum aðilum.
Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi með því markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.
Uppbyggingarsjóður EES starfar samkvæmt fimm áherslusviðum:
- Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
- Samfélagsleg þátttaka, atvinnuþátttaka ungmenna og bættar aðstæður fátækra
- Umhverfis- og orkumál, samdráttur skaðlegra lofttegunda og minnkun loftlagsbreytinga
- Menning og listir, frjáls félagasamtök, bættir stjórnunarhættir og grundvallarréttindi
- Innanríkis- og dómsmál
Í gagnagrunni verður hægt að leita eftir menningar-, nýsköpunar-, orku- og rannsóknaverkefni, eða á þeim sviðum sem áætlanir Uppbyggingarsjóðsins og áherslur Íslands taka mið af.
Í grunninum er hægt að leita og flokka eftir ýmsum breytum, tegund aðila, flokkum, undirflokkum og hægt að leita í texta. Markmiðið er að aðstoða áhugasama samstarfsaðila við að finna upplýsingar fljótt og vel.
Skráið ykkur til leiks
Ef þið/ykkar stofnun/fyrirtæki/félagasamtök hafið áhuga á að bætast við lista áhugasamra samstarfsaðila og setja upplýsingar um ykkur og mögulegar verkefnahugmyndir í grunninn, þá hvetjum við ykkur til að fylla út skráningarform. Utanríkisráðuneytið sér um uppfærslu gagnagrunnsins en það er á ábyrgð samstarfsaðilanna að upplýsa ráðuneytið um breytingar.Heildarupphæð sem varið verður til styrkja á árunum 2014 - 2021 er 1,5 milljarður evra.
Íslendingar hafa verið öflugir þátttakendur í margs konar verkefnum og hafa notið góðs af sjóðnum undanfarin ár. Með þátttöku í Uppbyggingarsjóðnum er lögð áhersla á að skapa tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs í viðtökuríkjunum og auka samskipti milli einstaklinga á Íslandi og í þessum ríkjum. Auk styrkja sem renna til verkefnanna sjálfra eru veittir styrkir til tengslamyndunar og verkefnaþróunar. Einnig er unnið markvisst að tvíhliða samskiptum stjórnvalda við lykilsamstarfsríki.
- Nánari upplýsingar á vef utanríkisráðuneytisins.
- Gagnagrunnurinn
- Skráningarform