Undirnefnd umhverfismála hjá SSNE skipuð
Undirnefnd umhverfismála hjá SSNE skipuð
Nú er búið að skipa undirnefnd umhverfismála hjá SSNE og sæti í nefndinni eiga eftirfarandi aðilar:
- Guðmundur Sigurðarson, formaður, framkvæmdastjóri Vistorku
- Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps
- Salbjörg Matthíasdóttir, héraðsfulltrúi hjá Landgræðslunni
- Rut Jónsdóttir, umhverfisstjóri Akureyrarbæjar
- Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims
Fyrsti fundur var haldinn 29. janúar og á þeim fundi var farið yfir tillögur að verkefnum nefndarinnar og þau mótuð frekar. Eimur og SSNE hafa sent styrktarumsókn til Umhverfisráðuneytisins. Búið er að móta verkefni sem nefnist „Byggjum þekkingarbrýr í loftlagsmálum á Norðurlandi eystra“ sem miðar því að styðja innleiðingu loftlasstefnu og móta aðgerðaráætlun loftlagsmála fyrir hvert sveitarfélag. Einnig miðar verkefnið að því að byggja upp aðgerðarhlaðborð fyrir atvinnulífið. Eimur og SSNE hafa líka sent erindi á þrjú ráðuneyti með beiðni um áheyrn og styrk til að keyra ofangreint verkefni áfram. SSNE og Vistorka eru í samstarfi um að fjármagna hagkvæmnismat á líforkuveri en slíkt ver gæti orðið hlekkur í að byggja hér upp tækifæri í hringrásarhagkerfinu. Erindi hefur verið sent á öll sveitarfélög með beiðni um aðkomu að fjármögnun og einnig verður talað við einkaðila.
Starfsmaður SSNE hefur einnig verið í samtali við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi en nokkur ár eru síðan þau hleyptu af stokkunum verkefninu „Umhverfis Suðurland“ sem er regnhlíf yfir þeirra verkefni sem tengjast umhverfismálum. Þau eru komin langt með verkefni sem miðar að því aðstyðja við sveitarfélög þegar kemur að kostnaðargreiningum í úrgangsmálum og nokkuð víst að slíkt verkefni er yfirfæranlegt á fleiri svæði. Það er mikill hugur í fólki þvert á svæðið og mýmörg góð verkefni í farvatninu. Vonir standa til að hægt sé að yfirfæra og deila þekkingu og hugmyndum með aðkomu SSNE ásamt því að starfsfólk er í góðum samskiptum við Umhverfisráðuneytið svo að hægt sé að byggja ofan á stefnur og verkefni sem nú þegar eru í gangi.
Öllum áhugasömum um umhverfismál er velkomið að hafa samband við starfsfólk SSNE til að koma á framfæri hugmyndum eða í leit að stuðningi varðandi verkefni tengd umhverfismálum. Hægt er að senda póst á netfangið silja@ssne.is eða hringja í síma 866 1775.