Umsagnarfrestur um svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs
Umsagnarfrestur um svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs
Sveitarfélög á starfssvæðum SSNV og SSNE, þ.e. Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd, og Sveitarfélagið Skagafjörður, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Norðurþing, Tjörneshreppur og Langanesbyggð, vinna nú að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í samræmi við 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.
Vinna við gerð svæðisáætlunar hefur staðið yfir síðan í janúar 2022 og er hluti af vinnu sveitarfélaganna við aðlögun að nýrri löggjöf og um leið uppfærsla á gildandi svæðisáætlun sem gildir frá 2015-2026. Haldinn var stefnumarkandi fundur með kjörnum fulltrúum, starfsfólki sveitarfélaganna og öðrum áhugasömum þann 25. apríl 2022 og var sú vinna nýtt við gerð svæðisáætlunar. Einnig hafa drög að svæðisáætlun verið kynnt fyrir öllum sveitarstjórnum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en tillaga að svæðisáætlun yrði lögð fram til almennrar kynningar.
Tillaga að svæðisáætlun, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2012, liggur nú fyrir og gefst almenningi sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi sveitarstjórnum.
Hægt er að nálgast tillögu að svæðisáætlun undir útgefið efni
Skriflegar ábendingar og athugasemdir skulu berast í síðasta lagi 31. mars 2023 á netfangið stefan@environice.is eða í pósti á heimilisfangið:
Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.
v/ Svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi
Hvanneyrargötu 3
311 Hvanneyri