Leikhúsupplifun í Hörgársveit fyrir yngstu kynslóðina
Leikhúsupplifun í Hörgársveit fyrir yngstu kynslóðina
Leikhópurinn Umskiptingar frumsýndu sýningu sína Töfrabækurnar - Sagan af Gýpu, sl. sunnudag. Sagan af Gýpu er bæði skrýtin og skemmtileg þjóðsaga sem er túlkuð á líflegan hátt af leikurum með húmor og söng.
Uppsetningin hlaut styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra, leikarar eru Margrét Sverrisdóttir og Jónína Björt Gunnarsdóttir. Leikstjórn er í höndum Jennýjar Láru Arnórsdóttur og frumsamin tónlist var unnin af Vandræðaskáldunum Sesselíu Ólafsdóttur og Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.
Börnin sátu eins og límd við sviðið á frumsýningardegi, en sýningin er tilvalin fyrsta leikhúsupplifun. Uppsetningin er í styttra lagi, hljóð er ekki magnað upp og ljós ekki dempuð. Hugmyndaauðgi og hringrásarhagkerfið fær að njóta sín í uppsetningunni þar sem leikmynd, búningar og leikbrúður eru allar unnar af grunni af Umskiptingum og alfarið úr endurnýttum efnum.
Sýningin fer fram á annarri hæð í leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit og sýningar verða alla sunnudaga í október kl. 14:00. Miða má finna á tix.is.