Þrjú verkefni hljóta styrk úr Lóunni
Þrjú verkefni hljóta styrk úr Lóunni
Í síðustu viku var tilkynnt hvaða 21 verkefni fengu úthlutað úr Lóunni – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina. Hlutverk styrkjanna er styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Alls var úthlutað tæpum 100 m.kr.
Þrjú verkefni frá Norðurlandi Eystra hlutu styrki að samtals upphæð 12.600.000 kr.
Bjargið ehf. fékk styrk upp á 4.500.00 kr. fyrir verkefnið Grásleppugæði - sælgæti sjávar en verkefnið hefur það að markmiði að skapa nýjar afurðir úr grásleppu og auka þannig verðmætasköpun, skapa atvinnu í sjávarbyggðum og vinna nýja markaði erlendis.
Eimur fékk 3.900.000 kr. styrk fyrir Norðanátt í víking til Noregs. Verkefnið, sem er samstarfsverkefni Norðanáttar og Innovasjon Norge, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum af landsbyggðinni veitt tækifæri til að vinna í norsku frumkvöðlaumhverfi og tengslanet þannig eflt til muna. Í öðru lagi mun Norðanátt samhliða þessu eflast með auknum tengslum við norska nýsköpunargeirann með uppbyggingu grænnar atvinnustarfsemi í dreifðum byggðum að markmiði.
Þá fékk nýtt þversamfélagslegt nýsköpunar- og fræðslunet styrk upp á 4.200.000 kr. fyrir þróunarverkefnið STEM Húsavík. Fræðslunetið leggur áherslu á áherslu á STEM greinar (e. Science, Technology, Engineering, Math) og hefur það markmið að styðja samfélög til sjálfbærni.
SSNE óskar þessum verkefnum innilega til hamingju með styrkinn.