Fara í efni

NACEMAP-verkefninu hleypt af stokkum á Írlandi í apríl

Fulltrúar íslensku þátttakenda verkefnisins. Friðrik Þórsson fyrir hönd Norðurslóðanetsins, Kristín …
Fulltrúar íslensku þátttakenda verkefnisins. Friðrik Þórsson fyrir hönd Norðurslóðanetsins, Kristín Helga Schiöth fyrir hönd SSNE, Tom Barry fyrir hönd Háskólans á Akureyri og Hildur Sólveig Elvarsdóttir fyrir hönd Háskólans á Akureyri.

NACEMAP-verkefninu hleypt af stokkum á Írlandi í apríl

SSNE er þátttakandi í verkefninu NACEMAP; þriggja ára verkefni sem styrkt er af áætlun Evrópusambandsins sem styður við samstarf meðal afskekktra og strjálbýlla samfélaga í nyrstu svæðum álfunnar (Interreg Northern Periphery and Arctic Programme).

Verkefninu var hleypt af stokkum í byrjun apríl í Cork á Írlandi, en NACEMAP er leitt af írskum og finnskum aðilum. Að auki koma að verkefninu fulltrúar frá Kanada, og fulltrúar Íslands eru ásamt SSNE Háskólinn á Akureyri og Norðurslóðanetið (IACN). 

NACEMAP miðar að því að efla viðnámsþrótt norðlægra samfélaga gegn hamförum þar sem þátttökulönd fá tækifæri til að læra af verklagi hvors annars og deila reynslu sinni, þannig að til verði sérsniðnar áætlanir um viðbúnað og viðbrögð við neyðarástandi.

Meðan á verkefnistímanum stendur munu verða haldnar vinnustofur þar sem aðilar frá sveitarfélögum, viðbragðsaðilar og aðrir hagsmunaaðilar verða leiddir saman til að greina bestu starfsvenjur í viðbúnaði og viðbrögðum við neyðarástandi. Settar verða upp nokkrar sviðsmyndir þar sem ráðast þarf í tafarlausar viðbragðsaðgerðir, tvö tilraunaverkefni fara fram á Írlandi og tvö hér á Norðurlandi eystra þegar líða tekur á verkefnið.

Á Íslandi verður sjónum beint að viðbrögðum við skriðuföllum og björgun af sjó og á Írlandi verða viðfangsefnin olíuleki á sjó og skógareldar. Skoðuð verða tafarlaus viðbrögð við hamförum, en einnig lengri tíma afleiðingar og endurheimt smærri samfélaga eftir áföll af slíku tagi, auk þess sem þverþjóðleg viðbrögð og samstarf verða greind. 

Eins og fyrr segir fór verkefnið formlega af stað í byrjun apríl í Cork á Írlandi þar sem þátttakendur lögðu línurnar að samvinnunni framundan. Írsku þátttakendurnir tóku að vonum vel á móti hópnum, en stefnt er að því að sami hópur komi saman á Norðausturlandi að tveimur árum liðnum.

SSNE hlakkar til samstarfsins með Háskólanum á Akureyri, Norðurslóðanetinu og öðrum samstarfsaðilum og telur víst að samstarfið muni styðja við viðnámsþrótt sveitarfélaga svæðisins. Eins má telja víst að hér á svæðinu sé að finna þekkingu og reynslu sem mun koma samstarfsaðilum okkar vel í sínum viðbragðsáætlunum. 

Getum við bætt síðuna?