Þorleifur ráðinn verkefnastjóri farsældar
Þorleifur ráðinn verkefnastjóri farsældar
Þorleifur Kr. Níelsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra farsældar hjá SSNE. Þorleifur kemur með víðtæka reynslu og sérfræðiþekkingu sem mun styrkja og efla starfsemi SSNE á sviði velferðar- og samfélagsmála.
Þorleifur er með BA gráðu í félagsráðgjöf og MA gráðu í fjölskyldumeðferð. Auk þess er hann með diplómagráðu í handleiðslufræðum ásamt því að hafa lokið fjölda námskeiða í sáttamiðlun, samvinna eftir skilnað, mannauðsmálum og stjórnunarfræðum svo eitthvað sé nefnt. Hann vinnur nú að meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.
Starfsreynsla Þorleifs spannar fjölmörg svið sem tengjast farsæld, þar á meðal fjölskyldumeðferð, félagsþjónustu, sáttamiðlun, og barnavernd. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í málefnum barna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og sem félagsráðgjafi hjá Fjölskyldusviði Akureyrarbæjar á árum áður. Þorleifur rekur eigin viðtalsstofu þar sem hann veitir margvíslega ráðgjöf og klíníska viðtalsmeðferð, ásamt sáttamiðlun og handleiðslu á ýmsum sviðum.
Þorleifur var valinn úr hópi 17 umsækjenda og verður hlutverk hans að vinna að innleiðingu farsældarlaga á Norðurlandi eystra. Um er að ræða nýtt starf til tveggja ára sem er ætlað að vinna að markmiðum samnings SSNE og mennta- og barnamálaráðuneytis um svæðisbundin farsældarráð sem undirritaður var í október.
Við bjóðum Þorleif velkominn til starfa hjá SSNE en hann tekur til starfa 1. desember næstkomandi.