Styrkir til menningarstarfs milli Íslands og Noregs
Styrkir til menningarstarfs milli Íslands og Noregs
Norsk stjórnvöld leggja árlega fram fjármagn til norsks-íslensks menningarsamstarfs.
Markmið framlagsins er að stuðla að fjölbreyttu menningarsamstarfi milli Noregs og Íslands. Þau sem starfa á sviði lista og menningar í Noregi og á Íslandi geta nú sótt um styrki til fjölbreyttra samstarfsverkefna á sviði menningar sem skapa tengsl milli listamanna, þeirra sem starfa við menningarmál og menningarstofnana í báðum löndum.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrkina og er umsóknafrestur til 2. desember nk.
Verkefni sem fá styrk verða að teljast mikilvæg í báðum löndum, þurfa að vera skipulögð sem samstarfsverkefni þar sem aðila í báðum löndum leggja til menningarlegt innihald og/eða úrvinnslu og framkvæmd. Verkefni þar sem lögð er áhersla að leiða til varanlegra tengsla milli einstaklinga, samtaka og stofnana, einnig eftir að verkefni lýkur, hafa forgang. Verkefnin skulu endurspegla fjölbreytt listræn form og hafa í senn skírskotun til sögunnar og samtímans.
Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem eru hluti af kjarnastarfsemi menningarstofnana. Að öllu jöfnu eru ekki veittir ferðastyrkir til þátttöku í tónleikaferðum, hátíðum, tónleikum eða öðrum fyrirfram skipulögðum viðburðum nema þegar slík þátttaka er hluti af samstarfsverkefni. Að jafnaði er áhugamannahópum svo sem kórum og hljómsveitum ekki veittur ferðastyrkur. Ekki er greiddur heildarkostnaður verkefna.
Norska menningarráðið (Norsk kulturråd) og mennta- og menningarmálaráðuneyti taka umsóknirnar til umfjöllunar.
Umsóknareyðublöð má nálgast á vef Norska menningarráðsins. Æskilegt er að umsóknir séu skrifaðar á norsku, dönsku, sænsku eða ensku.
• Nánar um fyrirkomulag styrkjanna
• Vefur norska menningarráðsins
• Umsóknareyðublað