Fara í efni

Stormur nýsköpunar á KRUBBI á Húsavík um helgina

Þátttakendur voru með fjölbreyttan bakgrunn sem skilaði sér í fimmtán hugmyndum sem voru kynntar fyr…
Þátttakendur voru með fjölbreyttan bakgrunn sem skilaði sér í fimmtán hugmyndum sem voru kynntar fyrir dómefnd og gestum Krubbsins á Stéttinni

Stormur nýsköpunar á KRUBBI á Húsavík um helgina

Sannkallaður hvirfilbylur hugmynda óð um Stéttina á Húsavík meðan á hugmyndahraðhlaupinu KRUBBI stóð dagana 28.-29. mars. Hraðið miðstöð nýsköpunar stóð að viðburðinum í samstarfi við SSNE og Háskólann á Akureyri. Markmið hans var að efla nýsköpunarsenu Norðurlands og stuðla að þróun atvinnugreina á svæðinu. Metþátttaka var í hugmyndahraðhlaupinu og óhætt að segja að nýsköpun á Norðurlandi hafi fengið byr í seglin.

Í þessari tveggja daga keppni var áhersla lögð á hugmyndir að lausnum sem tengjast ferðaþjónustu og ímynd Húsavíkur. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu kynntu raunverulegar áskoranir sem þátttakendur unnu að lausnum við. Norðurþing, PCC Bakki Silicon, Húsavíkurstofa og Hraðið miðstöð nýsköpunar lögðu fram áskoranir sem snéru m.a. að því að nýta glatvarma svæðisins í ferðaþjónustu, að gera Húsavík að aðlaðandi ferðamannastað allt árið um kring, að skapa kennileiti fyrir staðinn og fleira.

Þátttakendur fengu kennslu og þjálfun í nýsköpunarhugsun, aðstoð við að mynda teymi, móta hugmyndir og hvatningu til að sýna frumkvæði. Þeir störfuðu í teymum og nýttu innblástur og gögn til að þróa hugmyndir að nýjum lausnum. Alls kynntu fimmtán teymi hugmyndir sínar fyrir dómnefnd sem var endapunktur Krubbsferðalagsins en upphaf þeirra í að verða að veruleika.

Sigurvegarar keppninnar voru Eva Björk Káradóttir og Kamil Dąbrowski með hugmyndina Norðurljósaslóð. Hún snýst um upplifun og útivist á dimmasta tíma ársins þar sem útivistarperlur svæðisins opnast fyrir almenningi með sérstakri lýsingu sem minnir á norðurljósin. Þau hlutu í verðlaun ársaðild að Hraðinu ásamt glæsilegum gjafakortum í gistingu og afþreyingu á Húsavík og nágrenni.

Aðrar hugmyndir sem fengu verðlaun voru Hönnunarstaðall Húsavíkur sem Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Björn Hákon Sveinsson útfærðu og kynntu en þeirra tillaga snérist um heildræna hönnun og skipulag staðarins með sérstaka áherslu á einkenni svæðisins.

Róbert Bjarnason, Agnieszka Szczodrowska og Arna Þórarinsdóttir fengu verðlaun fyrir hugmyndina Víkingaskáli. Þau útfærðu hugmynd að sérstakri víkingamiðstöð á hafnarsvæðinu á Húsavík sem gegnir á sama tíma hlutverki fræðslumiðstöðvar og afþreyingar fyrir ferðamenn, nemendur og aðra.

Baldur Kristinsson og Sigurður Páll Tryggvason fengu verðlaun fyrir hugmynd sína Gullböð, en sú hugmynd snýst um sérstaka upplifun á fljótandi pramma á Gullfiskatjörninni. Á prammanum er boðið upp á gufuböð og heita potta á meðan gestir fljóta um tjörnina ásamt gullfiskunum.

Að lokum fengu Gunnar Vilhjálmsson og Þorgeir K. Blöndal verðlaun fyrir hugmynd sína Askur. Þeirra hugmynd byggir á því að skapa glerhvelfingu sem nýtir glatvarma frá PCC. Í hvelfingunni var hugsunin að skapa miðjarðarhafsloftslag allt árið um kring þar sem ræktaðar verða jurtir og boðið upp á ýmsa þjónustu s.s. veitingastaði, slökun ofl.

Krubbur dregur nafn sitt af hinu vel þekkta Krubbsveðri á Húsavík, stormi sem heldur fólki innandyra. Óhætt er að segja að sannkallaður stormur hafi geisað í hugum þátttakenda og að fjölmargar frábærar hugmyndir hafi hlotið vængi í honum.

Getum við bætt síðuna?