Fara í efni

Störf án staðsetningar - Persónuvernd opnar formlega á Húsavík

Störf án staðsetningar - Persónuvernd opnar formlega á Húsavík

Í byrjun árs auglýsti Persónuvernd lausar til umsóknar tvær stöður hjá stofnuninni á nýrri starfsstöð hennar á Húsavík. Í Byggðaáætlun er aðgerð sem lýtur að því að 10% starfa stofnanna á vegum ríkisins verði auglýst án staðsetningar. Persónuvernd var því að taka eitt skref í átt að því með því að auglýsa störf utan höfuðborgarsvæðisins. Formleg opnun starfsstöð Persónuverndar á Húsavík fór fram þann 9. september sl., þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, opnuðu starfsstöðina formlega og fluttu ávörp ásamt Svavar Pálssyni, sýslumanni á Norðurlandi eystra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Svavar Pálsson sýslumaður á Norðurlandi eystra, og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Mynd/Stjórnarráðið.

Af því tilefni sagði dómsmálaráðherra:
,,Persónuvernd er nauðsynleg til að tryggja hagsmuni einstaklingsins í lýðræðissamfélagi. Möguleikar tækninnar mega ekki trompa rétt okkar til friðhelgi einkalífsins. En það eru líka möguleikar tækninnar sem gera okkur kleift að setja niður störf án staðsetningar."

Forstjóri Persónuverndar sagði jafnframt:
„Við höfum fundið fyrir miklum velvilja gagnvart þessu verkefni bæði í fjórðungnum og utan hans. Ég bind vonir við að hægt verði að tryggja áframhaldandi fjármögnun verkefnisins, til hagsbóta bæði fyrir Persónuvernd og landsbyggðina.“

Samkvæmt upplýsingum á vef Persónuverndar hefur uppsetning starfsstöðvarinnar farið fram í góðu samstarfi við embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra en útbúin hefur verið aðstaða fyrir starfsmenn Persónuverndar á aðalskrifstofu embættisins á Húsavík. Svavar Pálsson, sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sagði í ávarpi sínu að þetta samstarf sýni að krefjandi opinber störf, þar sem sérþekkingar og háskólamenntunar er krafist, sé auðveldlega hægt að staðsetja á landsbyggðinni, þegar víðsýni og stafrænar lausnir fari saman.

 

Aðgerð í Byggðaáætlun um störf án staðsetningar:
 B.7. Störf án staðsetningar.
Verkefnismarkmið: Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.
Ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þegar slíkt starf er auglýst skal vakin athygli á að um starf án staðsetningar sé að ræða. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti/stofnun leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Fyrir árslok 2019 skal hvert ráðuneyti hafa skilgreint hvaða störf verður hægt að vinna utan ráðuneytis. Fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa í einstökum ráðuneytum og stofnunum sem eru unnin utan veggja þeirra borið saman við 1. janúar 2018.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Framkvæmdaraðili: Ráðuneyti og stofnanir.
Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni.
Tímabil: 2018–2024.
Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?