Stjórn SSNE framvegis skipuð fulltrúum allra aðildarsveitarfélaga
Stjórn SSNE framvegis skipuð fulltrúum allra aðildarsveitarfélaga
Tillaga þess efnis að hvert aðildasveitarfélag SSNE skipi einn fulltrúa í stjórn samtakanna, nema Akureyrarbær sem skipar tvo, var samþykkt samhljóða á ársþingi SSNE í dag. Aðildarsveitarfélög SSNE eru 10 talsins og hingað til hafa 6 þeirra skipað fulltrúa í stjórn.
Nú verður breyting þar á þar sem öll aðildarsveitarfélögin munu eiga fulltrúa í stjórn og hafa þannig tækifæri á að hafa áhrif á störf þess mikilvæga samstarfsvettvangs sem SSNE er. Stjórn er áfram skipuð til fjögurra ára í senn.
Núverandi stjórn SSNE er skipuð fulltrúum frá Akureyrarbæ, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, Grýtubakkahreppi, Norðurþingi og Langanesbyggð. Með þessari breytingu munu fulltrúar frá Fjallabyggð, Eyjafjarðarsveit, Þingeyjarsveit og Hörgárbyggð bætast í stjórn SSNE.
Ætla má að þessi breyting muni styrkja starf SSNE enn frekar og tryggja að raddir allra aðildarsveitarfélaga heyrist jafnt innan vettvangs samtakanna.