Sterkt skólasvæði
Sterkt skólasvæði
Nú á dögunum var hleypt af stokkunum kynningarherferð á framúrskarandi framhaldsskólum Norðurlands eystra undir merkjunum Sterkt skólasvæði. Kynningarefnið er unnið útfrá frásögnum nemenda, enda þeirra reynsluheimur það sem skiptir máli þegar fólk velur sér annars vegar nám og hins vegar skóla eða búsetu.
Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á það mikla framboð sem er á bæði verk- og bóknámi á Norðurlandi eystra fyrir námsfólk af öllu landinu. Þá er einnig lögð áhersla á fjölbreytileikann sem er að finna í framhaldsskólum svæðisins, en mikil breidd er í kennslufyrirkomulagi skólanna. Bæði er um að ræða gamla skóla og nýja, skóla með áherslur á hefðir og nýsköpun og svo má finna sitt pláss í sveit, heimavist, stað- eða fjarnámi. Nú er bara að skoða hvað er í boði og hvað hentar þér og þínum best!
Hér má finna myndband þar sem nemendur segja almennt frá því hvernig er að vera framhaldsskólanemi á Norðurlandi eystra og inn á síðunni www.ssne.is/skolar er að finna leiðarvísi fyrir verðandi nemendur og fjölskyldur þeirra.
Verkefnið er samstarfsverkefni SSNE og Samnor sem samanstendur af fulltrúum frá Framhaldsskólanum á Laugum, Framhaldsskólanum á Húsavík, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Tröllaskaga og Verkmenntaskólanum á Akureyri.