Fara í efni

Starfsmaður Heilbrigðis- og velferðartækniklasa Norðurlands tekur til starfa

Frá undirritun Lóu nýsköpunarstyrks, Perla Björk starfsmaður klasans, Selma Dögg Sigurjónsdóttir ver…
Frá undirritun Lóu nýsköpunarstyrks, Perla Björk starfsmaður klasans, Selma Dögg Sigurjónsdóttir verkefnastjóri í Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytinu og Axel Björgvin Höskuldsson stjórnarformaður klasans og forstöðumaður upplýsingatæknimála hjá HSN.

Starfsmaður Heilbrigðis- og velferðartækniklasa Norðurlands tekur til starfa

Áhersluverkefni ársins 2021 voru samþykkt þann 5. febrúar sl. á 21. stjórnarfundi SSNE. Um er að ræða 11 mikilvæg og metnaðarfull verkefni sem meðal annars er ætlað er að fylgja eftir áherslum sem lagðar eru fram á þingum samtakanna. Verkefnunum er öllum ætlað að vera lokið í apríl 2022. Alls var 60,7 m.kr. úthlutað að þessu sinni en stjórn SSNE tók ákvörðun að styrkja Heilbrigðis- og velferðartækniklasa Norðurlands um 10 milljónir kr.

Unnið hefur verið að undirbúningi þessa klasa um nokkurt skeið og fyrirmyndin m.a. sótt til Sjávarklasans sem mikilli velgengni átt hefur að fagna. Hugmyndafræði klasa sem þessa byggist á því að skapa vettvang þar sem ólíkir hagsmunaaðilar koma saman og vinna sameiginlega að verkefnum. Í þessu tilfelli er verið að beina sjónum að heilbrigðis- og velferðarmálum og horft til þessa nýta nýsköpun og tækninýjungar til að auka og bæta þjónustu í heilbrigðis- og velferðarmálum til hagsbóta fyrir samfélagið. Stefnt er einnig að samvinnu við önnur heilbrigðisumdæmi og þá er einnig hugmyndir uppi um aukna samvinnu á norðurslóðum í þessum málum. SSNE hefur þarna með framsýni stutt við málefni sem vonandi á eftir að vaxa og dafna.

Perla Björk Egilsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem verkefnastjóri klasans. Perla hefur bakgrunn úr nýsköpunar- og sprota umhverfinu þar sem hún hefur sinnt stjórnunarstörfum hjá fyrirtækjum sem hafa unnið að nýjum lausnum á heilbrigðissviði. Hún hefur jafnframt unnið að hagsmunamálum fyrirtækja á þessu sviði og tekið þátt í samráðsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda.

Stjórn klasans átti sinn fyrsta staðarfund að þessu tilefni 26. ágúst þar sem Perla var boðin velkomin til starfa. Einnig var undirritaður samningur við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um Lóu nýsköpunarstyrk landsbyggðarinnar þar sem Heilbrigðis- og velferðartækniklasinn fékk 10 milljónir kr. í styrk.

,,Ég er afar spennt fyrir þessu verkefni þar sem ég brenn fyrir heilbrigðistækni og nýsköpun og hef um árabil unnið að nýsköpun og samvinnu ýmissa aðila á þessu sviði. Mikil tækifæri liggja í nýjum lausnum á sviði heilbrigðis- og velferðartækni og jarðvegurinn er frjór um þessar mundir ", segir Perla Björk starfsmaður Heilbrigðis- og velferðartækniklasans.

 

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?