Starfsfólk SSNE heimsótti Grýtubakkahrepp í vikunni.
Starfsfólk SSNE heimsótti Grýtubakkahrepp í vikunni.
Ferðin var liður í heimsókn í sveitarfélögin á starfssvæði SSNE. Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri tók á móti Díönu Jóhannsdóttur og Elvu Gunnlaugsdóttur og skipulagði heimsóknir.
Fyrst var gamla skólahúsið á Grenivík heimsótt og farið yfir hugmyndir um framtíðarnotkun á húsinu og hvaða læðir væru færar í þeim málum. Koma þarf á aðgengi fyrir alla svo hægt verði að glæða húsið lífi bæði sem vinnustaður og samkomu- og menningarhús.
Því næst var ferðinni heitið í frystihús Gjögurs þar sem undurbúningur fyrir sumarfrí var komin á fullt. Ægir Jóhannsson frystihússtjóri kynnti starfsemi fyrirtækisins á Grenivík og meðal annars þær tækninýjungar sem hafa verið undanfarin ár og eru framundan. Hjá Gjögri á Grenivík starfa um 60 manns.
Næst var litið við hjá Pharmarctica þar sem mikil uppbygging er í gangi og stækkun á verksmiðjunni. Pharmarctica er leiðandi framleiðslu- og þjónustufyrirtæki í verktakavinnu, sérhæft í framleiðslu á snyrtivörum, fæðubótaefnum, sápum, smyrslum, mixtúrum og sótthreinsandi lausnum. Um 16 starfsmenn eru hjá fyrirtækinu á Grenivík. Þegar starfsfólk SSNE leit inn var mikið um að vera við framkvæmdir á nýja húsinu og framleiðsla í fullum gangi í framleiðsluhluta hússins. Sigurbjörn Þór Jakobsson framkvæmdastjóri Pharmarctica sagði að með nýju húsi geti þeir þjónustað viðskiptavini sína ennþá betur og aukið framleiðslu á einstökum vörum til muna.
Að lokum var uppbygging á Höfði lodge hótelinu á Þengilhöfða skoðuð, stefnt er að opnun næsta vor. Hótelið verður 5.500 fm að stærð með 40 herbergjum ásamt fjórum svítum, bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og annarri þjónustu.
Starfsfólk SSNE þakkar Þresti Friðfinnssyni sveitarstjóra Grýtubakkahrepps kærlega fyrir góðar móttökur.