Starfamessa á Akureyri
Starfamessa á Akureyri
- Þann 3. mars sl. stóðu náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum Akureyrarbæjar fyrir Starfamessu í fimmta sinn, eftir þriggja ára hlé. Um 750 grunnskólanemendum í 9. og 10. bekk af öllu Norðurlandi eystra var boðið að koma og kynna sér ólík störf. Ánægjulegt var að sjá góða þátttöku grunnskóla af öllu svæðinu. Mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að jafna aðgengi ungmenna að kynningu sem þessari.
-
Megin markmiðið með Starfamessunni er að fræða ungt fólk um störf og menntun og þannig að stuðla að fjölbreyttum og líflegum vinnumarkaði í framtíðinni. Ungt fólk á aldrinum 14 - 16 ára stendur á tímamótum þar sem það stefnir á að mennta sig til að starfa við það sem fellur að áhugasviði þeirra. Á Starfamessunni fengu nemendur tækifæri til að skoða og viða að sér upplýsingum sem geta nýst þeim þegar grunnur verður lagður að menntunarmöguleikum og framtíðarstarfi.
Mikilvægt er að ólíkar starfsstéttir taki þátt í svona kynningu. Yfir þrjátíu fyrirtæki og stofnanir á svæðinu tóku þátt í Starfamessunni og kynntu störf innan sinna fyrirtækja sem eru fjölmörg og fjölbreytileg. Kynning sem þessi er hluti af því að brúa bilið á milli skóla og atvinnulífs. Starfamessa er viðburður sem gefur nemendum tækifæri til að “snerta” á atvinnulífinu og ræða við fólk sem hefur reynslu af störfunum, en án þeirra þátttöku væri ekki Starfamessa. Fyrir það samstarf viljum við þakka.
Starfamessan var haldin í samstarfi við Háskólann á Akureyri sem lagði til húsnæði sitt og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra sem studdi við viðburðinn.