SSNE og SSNV fela Markaðsstofu Norðurlands rekstur áfangastaðastofu
SSNE og SSNV fela Markaðsstofu Norðurlands rekstur áfangastaðastofu
Í dag var undirritaður samningur Markaðsstofu Norðurlands, SSNE og SSNV um rekstur áfangastaðastofu. Þar með lýkur því ferli sem hefur staðið yfir formlega allt frá árinu 2017 þegar hafinn var undirbúningur að gerð fyrstu áfangastaðaáætlana svæðanna. Þó má segja að ferli hafi í raun hafist árið 2015 þegar markaðsstofur landshlutanna settu fram stefnu um að fá skýrari tengingu við stjórnvöld ferðamála, skilgreind hlutverk og öfluga fjármögnun til lengri tíma.
Áfangastaðastofur eru samstarfsvettvangur sveitarfélaga, ríkis og atvinnugreinarinnar og er markmiðið með stofnun þeirra að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi hennar. Meðal hlutverka eru gerð áfangastaðáætlana, að koma að gerð stefnumótunar í ferðaþjónustu, þarfagreining rannsókna, vöruþróun og nýsköpun, mat á fræðsluþörf auk þess að sinna svæðisbundinni markaðssetningu og vera grunneining í stoðkerfi ferðamála í landshlutunum.
Markaðsstofa Norðurlands hefur verið með samning við Ferðamálastofu um stoðkerfi ferðaþjónustu á starfssvæði sínu en nú hefur sá samningur verið færður yfir í samning Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Ferðamálastofu og landshlutasamtakanna. Samstarf við Íslandsstofu verður einnig eflt í þessu samhengi og gerður sérstakur samningur um markaðssetningarverkefni.
Hér má má skoða nýjustu Áfangastaðaáætlun Norðurlands
Fyrri frétt SSNE.is um undirritun SSNE, SSNV og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins