SSNE flytur í nýtt og spennandi húsnæði á Húsavík
SSNE flytur í nýtt og spennandi húsnæði á Húsavík
Fyrir skömmu undirrituðu SSNE og Þekkingarnet Þingeyinga samning vegna leigu SSNE á húsnæði að Hafnarstétt 1-3 á Húsavík.
Um nokkurt skeið hefur það verið til skoðunar að SSNE flytjist í húsnæði með Þekkingarneti Þingeyinga ásamt fleiri aðilum sem koma að nýsköpun, frumkvöðla- og þekkingarstarfi. Var það samtal hafið og í gangi hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga þegar SSNE tók við því eftir sameiningu félaganna. Þekkingarnet Þingeyinga hefur byggt upp nýsköpunarmiðstöð þar sem aðilar í nýsköpun og frumkvöðlastarfi koma saman ásamt aðilum í þekkingargeiranum. Fjölmörg tækifæri felast í því að flétta starfsemi SSNE á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar, umhverfismála og menningar, inn í það umhverfi. Það er þekkt að þar sem ólíkir aðilar, sem vinna að sambærilegum verkefnum koma saman og leggja saman krafta sína, þar getur skapast umhverfi sem margfaldar sköpunarkraft og hugmyndauðgi, eykur slagkraft og býr til vettvang þar sem verkefni vaxa og dafna. Þarna eru mjög áhugaverðir hlutir að gerast og við hlökkum mikið til að flytja inn í húsnæðið og verða hluti af þessum spennandi suðupotti sem þar er að verða til.