Fara í efni

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlýtur Eyrarrósina 2023

Hér má líta kjarnakonurnar Aðalheiði Eysteinsdóttur, Brák Jónsdóttur og frú Elizu Reid. Myndin var f…
Hér má líta kjarnakonurnar Aðalheiði Eysteinsdóttur, Brák Jónsdóttur og frú Elizu Reid. Myndin var fengin að láni af facebooksíðu Listahátíðar í Reykjavík.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlýtur Eyrarrósina 2023

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði er framúrskarandi á landsvísu, enda valið sem handhafi Eyrarrósarinnar árið 2023. SSNE óskar listakonunni Aðalheiði Eysteinsdóttur og hennar fólki, innilega til hamingju með þessa viðurkenningu á hennar mikilvæga starfi og framlagi til listarinnar og samfélagsins. 

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Hún var afhent í átjánda sinn miðvikudaginn 3. maí af frú Eliza Reid forsetafrú og verndara Eyrarrósarinnar, við hátíðlega athöfn á Hvammstanga. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair. 

Fyrir utan sjálfa viðurkenninguna fær handhafi Eyrarrósarinnar fjármagn til góðra verka, myndbandsgerð og -útgáfu. Rúsínan í pylsuendanum er viðburður á aðaldagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2024! Hér er gott að lauma því að nú er hægt að skrá sig á ráðstefnu sem haldin verður laugardaginn 13. maí og er mikilvægur hluti af undirbúningi fyrir glænýja risastóra götuleiksýningu sem verður opnunarsýning Listahátíðar í Reykjavík 2024 og mun ferðast víða um land í júní á næsta ári. Sirkushópurinn Hringleikur stendur að sýningunni í samstarfi við Listahátíð.

,,Menningarstarfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sýnir svo ekki verður um villst, að með eldmóði, úthaldi og seiglu getur einstaklingar haft stórtæk áhrif á samfélag sitt. Í gegnum Alþýðuhúsið streymir ekki bara listafólk úr ýmsum áttum heldur flæða þar í gegn hugmyndir og ferskir vindar sem bæði hreyfa við og næra samfélagið. Gerist það ekki síst þegar heimafólk tekur virkan þátt í viðburðunum. Og allt gerist þetta vegna þess að atorkusöm listakona tók að sér hús."

- úr umsögn nefndar Eyrarrósarinnar

Næsti viðburður í Alþýðuhúsinu fer fram á laugardaginn 6. maí þegar Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar sýninguna ,,Það sem jökultíminn skapar“ og listamannaspjalli síðar sama dag, sjá nánar með því að smella hér. Við starfsfólk SSNE hvetjum ykkur til að mæta á opnunina sem og aðra spennandi viðburði sem fara fram í Alþýðuhúsinu, hægt er að fylgjast með á heimasíðu og facebook síðu Alþýðuhússins.

Auk sjálfrar Eyrarrósarinnar voru veitt þrenn hvatningarverðlaun og hlaut norðlenski hópurinn Hnoðri í Norðri ein þeirra fyrir sín ævintýralegu störf. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi. Mætti segja að tungubrjóturinn „Hnoðri úr norðri verður að veðri þó síðar verði.“ Eigi hér vel við. Eða hvað, veðursældina er nú þegar að finna hér Norðan heiða, því hópurinn skapaði blíðskapar veður í hugum og hjörtum 2000 barna síðustu aðventu þegar þau fóru um Norðurlandið og sýndu á 25 stöðum verkið sitt ,,Ævintýri á aðventunni“ .

Bæði þessi verkefni hafa hlotið styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra og gefur vísbendingar um það hversu mikilvægt tæki stjórnvalda Sóknaráætlun er hvað varðar uppbyggingu, hvatningu og framsækni frumkvöðla landsbyggðanna. Bæði Innviðaráðuneytið og Menningar- og viðskiptaráðuneytið fjármögnuðu síðustu úthlutun úr Sóknaráætlun.


SSNE óskar öllum verðlaunahöfum kærlega til hamingju með viðurkenninguna á sínum störfum!

Næstu opnu sjóðir fyrir verkefni á sviðum menningar og lista eru:

Tónlistarsjóður 9. maí 
Hvati 15. maí 

Getum við bætt síðuna?