Sigurborg nýr starfsmaður SSNE
Sigurborg nýr starfsmaður SSNE
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir hefur hafið störf hjá SSNE og mun hafa aðsetur á skrifstofu sambandsins á Stéttinni, Húsavík. Sigurborg kemur inn í ýmis verkefni, einkum í tengslum við umhverfis- og skipulagsmál, en auk þess mun hún koma að verkefnum í tengslum við Sóknaráætlun Norðurlands eystra líkt og fjölmenningarráði Norðurlands eystra.
Sigurborg er fædd og uppalin á Kjalarnesi en er búsett á Húsavík. Hún er með BS gráðu í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Meistaragráðu í landsslagsarkitektúr frá Arkitekta- og hönnunarskólanum í Osló. Sigurborg hefur víðtæka reynslu af umhverfis- og skipulagsmálum, bæði sem kjörin fulltrúi og fagmanneskja. Hún starfaði áður í borgarstjórn og var formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, varaformaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur og ásamt því að vera formaður Svæðisskipulagsnefndar Höfuðborgarsvæðisins. Sigurborg leiddi vinnu við mörg af mikilvægustu umhverfismálum samtímans, þ.á. m. endurskoðun Aðalskipulags Reykjvíkur, mótun nýrrar aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum, mótun nýrrar hjólreiðaáætlunar, mótun nýrrar umferðaröryggisáætlunar, undirbúning Borgarlínu og forgangsröðun vistvænna ferðamáta.
Sigurborg hefur mikinn metnað í öllu sem viðkemur umhverfismálum og mannréttindum. Aðspurð segir hún lykilinn að því að ná árangri í umhverfismálum sé að auka jafnrétti kynjanna og gefa íbúum rödd í allri stefnumótun hjá sveitarfélögum. Hún hlakki mikið til að fá að taka þátt í því öfluga starfi sem einkenni sveitarfélögin á Norðurlandi eystra.