Sendiherrar á slóðum silfurs og frumkvöðla – 24 klukkustundir á Tröllaskaga
Sendiherrar á slóðum silfurs og frumkvöðla – 24 klukkustundir á Tröllaskaga
Táknræn og gleðileg stund í sögu viðskiptalífs og menningarsambands Noregs og Íslands var haldin á Siglufirði 31. maí en þá var síðasta síldartunnan afhent Síldarminjasafni Íslands, um það bil 40 árum á eftir áætlun – eða mögulega akkúrat á áætlun. Tunnan hefur í raun tengt fólk saman, kallað á samskipti og samveru, nú og minnt á hversu ríkar þjóðirnar eru af samstarfi og sameiginlegri sögu. Stundin á Síldarminjasafnininu var stórskemmtileg og veitti skemmtilega innsýn í síldarævintýrið, líkt og myndirnar bera merki um.
Sendinefnd tunnunnar samanstóð af Petter Jonny Rivedal, sem fann tunnuna og bjargaði, konan hans hún Nina Kilen Rivedal og dóttir þeirra Thea Marie Rivedal en saman hafa þau gætt tunnunnar í tæp 40 ár og því viðeigandi að þau fylgdu henni síðasta spölin. Þess mág jarnan geta hér að Petter Jonny er mikill Íslandsvinur og hefur séð um styttuna af Ingólfi Arnarsyni í Rivedal, flaggað íslenska fánanum á tyllidögum og tekið á móti hinum ýmsu ráðamönnum á fæðingarslóðum Ingólfs. Það var því skemmtileg tilviljun að hann skyldi vera sá sem fann tunnuna.
Þá er sendinefndin ekki upptalin, heldur fóru sendiherra Noregs á Íslandi, Aud Lise Norheim, og sendiherra Íslands í Noregi, Ingibjörg Davíðsdóttir, fremstir í flokki góðs fólks. Starfsfólk SSNE og markaðsstofu Norðurlands fengu tækifæri til að veita hópnum innsýn í þá grósku frumkvöðla á Tröllaskaga er vinna með einhvers konar endurnýtingu að leiðarljósi.
Hópurinn hóf leika hjá Primex ehf sem er íslenskt sjávarlíftæknifyrirtæki en leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri framleiðslu á hágæða kítósan. Frá árinu 1999 hefur Primex rekið fullkomna verksmiðju fyrir kítín- og kítósanframleiðslu á Siglufirði. Útbúin nútíma og háþróaðri tækni, er verksmiðjan fær um að skila stöðugum vörugæðum allt árið um kring. Primex framleiðir vörur undir vörumerkjunum Chitocare, Liposan, Chitoclear o.fl.
Næst á dagskrá var að heimækja líftæknifyrirtækið Genís. Genís er íslenskt líftæknifyrirtæki sem er brautryðjandi í að þróa nýjar aðferðir til að meðhöndla bólgu- og hrörnunarsjúkdóma. Genís vinnur mikið með innlendum og erlendum vísindamönnum og hefur rekið samstarfsverkefni með fjölmörgum háskólastofnunum og fyrirtækjum. Þar er einnig margt spennandi og skemmtilegt í bígerð. Genís framleiðir vörur undir vörumerkinu Benecta.
Frumkvöðullinn og listakonan góðkunna Aðalheiður Eysteinsdóttir (Alla Sigga) tók á móti okkur í Alþýðuhúsinu sem er allt í senn vinnustofa, gallerý, heimili og viðburðarsalur. Alla Sigga sagði okkur frá sínu magnaða lífs- og listaferðalagi og fengum við innsýn í hennar fjölbreyttu störf sem skipuleggjanda viðburða, myndlistarmanns, kennara og lífskúnstner. Jafnframt fengum við að gæjast inn á vinnustofuna hennar og sjá verk í vinnslu. Í sumar verður Alþýðuhúsið 10 ára og mikil veisla framundan í Fjallabyggð.
Marteinn B. Haraldsson tölvunarfræðingur, frumkvöðull og einn af stofnendum ,,Segull 67” tók á móti okkur í brugghúsinu sem áður var frysthús. Frystihúsið lokaði 1984 en nú hafa þau fjölskyldan heldur betur hleypt aftur lífi í húsið og þar með varðveitt þar bæði menningararf og sögu atvinnuþróunar á Siglufirði. Teymið á bakvið Segull 67 er ekki einungis frumkvöðlar á matvælasviði heldur einnig í umhverfissmálum og hefur hópurinn hlotið Bláskelina fyrir framúrskarandi lausn að nýta bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað plasts. Þau eru í sstöðugri vöruþróunog margt skemmtilegt í pípunum hjá þeim, m.a. stefna þau að því að opna Distillery og bjóða upp á ýmsa viðburði. Þar er einnig hægt að leigja skemmtilega sali fyrir allskyns tilefni.
Elvar Reykjalín og Sigmar barnabarn hans tóku á móti okkur í fjölskyldufyrirtækinu Ektafiski á Hauganesi. Frumkvöðlar á sviði matvælaframleiðslu, handverks, fullnýtingar, menningar, ferðaþjónustu og samfélagsuppbyggingu. Frá 1940 hefur Ektafiskur m.a. framleitt ljúffengan útvatnaðan saltfisk úr gæða íslenskum hráefnum. Fiskurinn er að mestu leyti fluttur til Spánar, Ítalíu og Portúgals og enda þar í munni Baccalá sælkera. Fyrir utan að heyra um fyrirtækið fengu sendiherrar og sendinefnd að spreyta sig í stígvélakasti og flest allir komust í sjálfan hákarlaklúbbinn. Hér er ekki vettvangur til að nefna hverjir stóðust ekki inntökuprófið.
Síðasta stoppið var á Hjalteyri þar sem sendinefndin fylgdi áfram slóð silfurs og frumkvöðla. Verksmiðjan var heimsótt en hún er stórkostleg listamiðstöð með sýningarsali og gestavinnustofur í gamalli síldarverksmiðju Kveldúlfs. Verksmiðjan hlaut m.a. viðurkenningu fyrir áhugaverðustu samsýninguna á Íslensku myndlistarverðlaunum 2022. Það var hann Gústav Geir Bollason myndlistarmaður sem tók á móti okkur og tengdi saman síldartímann yfir í listina; hvernig frumkvöðlar síns tíma gerðu úr garði farveg fyrir samtímann. Staðsetning Verksmiðjunnar, í rústum gamals síldarævintýris, sveipar hana ákveðnum ljóma og spennu. Þegar hér er komið við sögu, er gaman að nefna að þann 10. júní kemur út bókin Draumarústir - Dream Ruins en þar er farið ofan í þann hugmyndaheim sem að liggur að baki slíku verkefni sem að Verksmiðjan er. Loka stoppið var síðan hjá Lene listakonu og frumkvöðli eða Leyney í Síldarkastalanum. Lene sútar og framleiðir allskyns muni úr afurðum og fullnýtir hráefni sem annars væri hent. Ásamt því að búa til listmuni og framleiða vörur með notagildi í fyrirrúmi, þá varðveitir hún menningararf í formi handverksaðferða. Það verður engin svikinn af heimsókn til Lene, ef þið bara finnið hana.
Það má með sanni segja að gróskan á sviði nýsköpunar og menningar kraumi í Fjallabyggð. Frumkvöðlarnir sem opnuðu sínar dyr eiga bestu þakkir skildar fyrir gestrisni – sendinefnd tunnunnar fór heldur betur ríkari frá Tröllaskaga eftir 24 klukkustunda heimsókn.