Fara í efni

Samgönguvika og Bíllausi dagurinn

Evrópska samgönguvikan og Bíllausi dagurinn 2024
Evrópska samgönguvikan og Bíllausi dagurinn 2024

Samgönguvika og Bíllausi dagurinn

Núna er evrópska Samgönguvikan í gangi og endar hún á sunnudaginn næstkomandi með Bíllausa deginum.

Sveitarfélög innan SSNE hafa verið virkir þátttakendur í ár og gaman að segja frá því að hægt verður að sækja þrjá viðburði í landshlutanum á Bíllausa daginn, 22. september.

Á Akureyri verður  viðburðurinn Hjólafjör - fjölskyldudagur í Kjarnaskógi á vegum Akureyrarbæjar og Hjólreiðafélags Akureyrar. Viðburðurinn hefst klukkan 14 og eru gestir hvattir til að koma hjólandi í skóginn. Hist verður við leikvöllinn sunnan við strandblakvellina, völundarhúsið og ærslabelginn og þaðan verður hjólað saman um nokkra stíga í skóginum með fólk frá hjólreiðafélaginu í broddi fylkingar. Þessi hjólatúr hentar öllum, ungum sem öldnum. Að hjólafjöri loknu verður boðið upp á grillaðar pylsur og safa meðan birgðir endast.

Á Dalvík verður hjólafjör kl 11:00 fyrir alla fjölskylduna á hjólabrautinni hjá Gamla skóla, þar mun lögreglan hjóla með þeim sem vilja Böggvisstaðahringinn aftur að Gamla skóla þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur og safa. Eftir hjólagleðina er frítt í sund.

Á Húsavík verður Regnbogagata lokuð fyrir bílaumferð og milli 12:00 og 15:00. Þar verður leiksvæði, hjólabraut, tónlist og allskonar húllumhæ fyrir börn og fjölskyldur.

Frá árinu 2002 hafa borg og bæjarfélög á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Við hvetjum því öll til að skilja bílinn eftir heima og nota sér virka ferðamáta á Bíllausa daginn!

   

      

Getum við bætt síðuna?