Fara í efni

Samgöngustefna Norðurlands eystra - Mögulegar framkvæmdir í vegagerð

Ljósmynd: Hjalti Árnason
Ljósmynd: Hjalti Árnason

Samgöngustefna Norðurlands eystra - Mögulegar framkvæmdir í vegagerð

Unnin hefur verið skýrsla um mögulegar framkvæmdir í vegagerð á Norðurlandi eystra. Skýrslan er fyrsti áfangi í áhersluverkefni sem RHA tók að sér að vinna fyrir SSNE. Markmið verkefnisins er að greina framtíðar vegaframkvæmdir eða samgöngukosti sem varða starfssvæði SSNE þannig að þeir komist í umræðu og í framhaldinu sé unnt að forgangsraða völdum kostum kerfisbundið á einhvern hátt með hag almennings og atvinnu- og efnahagslífs landshlutans í huga.

 Í skýrslunni, sem unnin er af Jóni Þorvaldi Heiðarssyni, lektor við HA, er sett fram listi af mögulegum framkvæmdum í vegagerð á Norðurlandi eystra sem gætu stutt samfélög og þjappað þeim saman og/eða orðið lyftistöng á annan hátt fyrir landshlutann. Vegir utan Norðurlands eystra geta þó einnig skipt miklu máli fyrir íbúa landshlutans og þess vegna eru einnig sýndir vegagerðarkostir vestan, austan og jafnvel sunnan við Norðurland eystra. Á listanum eru stór og lítil verkefni, vegir fyrir almenna umferð sem og nokkrir ferðamannavegir. Listinn snýr aðeins að nýjum leiðum, nýjum vegum en ekki að viðhaldi eða endurbótum á vegum sem þegar eru til staðar.

Við áframhaldandi vinnu við val á verkefnum til nánari skoðunar og samanburðar verður bæði litið til þessarar skýrslu, en einnig til smærri og/eða "nærtækari" samgönguverkefna sem teljast fremur viðhald eða framhald á núverandi vegakerfi. Verður val verkefna og áframhaldandi vinna við áætlunina unnin í samstarfi við SSNE.

Hér má nálgast skýrsluna.

Getum við bætt síðuna?