Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra til ársins 2033 gefin út
Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra til ársins 2033 gefin út
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) ásamt sveitarfélögunum á Norðurlandi eystra hafa undanfarin misseri unnið að því að marka stefnu landshlutans í samgöngu og innviðamálum landshlutans. Þeirri vinnu lauk nýverið með samþykkt stefnunnar á haustþingi SSNE og hefur Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra 2023-2033 verið gefin út.
Helstu áherslur SSNE í samgöngumálum endurspeglast í fjórum áherslum: Öruggar samgöngur, greiðar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæð byggðaþróun.
Í stefnunni eru jafnframt dregin fram skýr forgangsmál til næstu 5 ára:
1. Siglufjarðarskarðsgöng
2. Bárðardalsvegur vestri
3. Brýr yfir Skjálfandafljót
4. Aukin vetrarþjónusta
5. Tenging Þórshafnar við flutningskerfi raforku
„Það er stórt skref fyrir landshlutann að sveitarfélögin hafi náð saman um jafn skýra stefnu um uppbyggingu innviða í landshlutanum. Nú skiptir máli að við tökum öll höndum saman bæði ríki og sveitarfélög og vinnum í sameiningu að þessum mikilvægu verkefnum sem öll eiga það sameiginlegt að efla búsetu í landshlutanum til framtíðar.“ segir Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE.
Að stefnunni komu sveitarfélögin tíu á Norðurlandi eystra sem eiga aðild að SSNE og er í henni mörkuð stefna í samgöngu- og innviðamálum til næstu tíu ára. Vinnan við stefnuna hófst í febrúar 2021 þegar stjórn samþykkti á fundi sínum að hefja þessa vegferð, en á meðan vinnunni stóð tók hún nokkrum breytingum og umfang hennar einnig.
„Þetta hefur verið mikil vinna og er vert að þakka þeim fjölmörgu sem hafa komið að vinnunni fyrir þeirra innlegg. Aðkoma sveitarfélaganna og þá einkum sveitarstjórnarfólks skipti lykilatriði í því samhengi, enda lögðu þau bæði til dýrmæta þekkingu og mörkun stefnunnar. Þetta mun hjálpa okkur í þeirri hagsmunagæslu sem við hjá SSNE sinnum á hverjum degi og vonandi stuðla að hraðari uppbyggingu innviða landshlutans á næstu misserum.“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE.
Stefnuna í heild sinni fá finna hér.