Ríkisendurskoðun opnar skrifstofu á Akureyri
Ríkisendurskoðun opnar skrifstofu á Akureyri
Í dag birtist frétt á mbl.is þar sem lesa má um fyrirhugaða opnun starfstöðvar Ríkisendurskoðunar á Akureyri. Þessu fagnar SSNE en sterkur samhljómur er með þessum fréttum og þeim sjónarmiðum sem fram komu á nýafstöðnu málþingi um störf óháð staðsetningu. Ekki er um flutning allrar stofnunarinnar að ræða heldur afmörkuð verkefni eða svið innan hennar. Verkefni skrifstofunnar verða að annast fjárhagsendurskoðun á A-stofnunum, svo sem heilsugæslu, menntastofnunum, lögreglu, sýslumönnum og ýmsum stofnunum á Norður- og Austurlandi og annast stjórnsýsluúttektir og liðsinna við eftirlit með ríkistekjum. Þá eru jafnframt áform um að færa ákveðin verkefni fyrir landið allt, sem eingöngu eru unnin rafrænt, til Akureyrar.
Það er gamaldags hugsun að allt þurfi að vera í Reykjavík eins og fram kom í viðtali mbl.is við Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra í kjölfar frétta af flutningi brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til Sauðárkróks. Þar segir félagsmálaráðherra að það sé yfirlýst stefna stjórnvalda að þegar ný svið verði til, þá séu þau staðsett úti á landi.
Ekki er langt síðan við birtum frétt um opnun starfstöðvar Persónuverndar á Húsavík sem hefur starfsemi sína í mars. Þetta eru niðurstöður samráðs og samstarfs Persónuverndar og Sýslumannsins á Norðurlandi eystra og er dæmi um hvernig sérhæfð, miðlæg stofnun starfar með staðbundinni ríkisstofnun í héraði eins og fram kemur í frétt Vikublaðsins fyrr í febrúar. Betur má ef duga skal en svona áföngum ber að fagna.
Frétt mbl.is af opnun starfstöðvar Ríkisendurskoðunar á Akureyri.
Frétt Vikublaðsins af nýrri starfstöð Persónuverndar á Húsavík.
Frétt mbl.is af flutningi brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til Sauðárkróks.