Ráðstefna um óáþreifanlegan menningararf
Ráðstefna um óáþreifanlegan menningararf
Eitt af markmiðum núverandi Sóknaráætlunar er að tryggja fjölbreytileika menningarstarfs með áherslu á aðgengi ólíkra hópa að menningu og menningararfi. Huldustígur hlaut styrk úr síðustu úthlutun Uppbyggingarsjóðs til að standa að ráðstefnu um þjóðar- og menningararf okkar Íslendinga: álfa og huldufólk. Í september verður opnað fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð fyrir árið 2025.
Markmið ráðstefnunnar er að heiðra þennan óáþreifanlega menningararf, halda umræðunni á lofti og vekja fólk til umhugsunar um möguleg tengsl þessa menningararfs við náttúruvernd fyrir komandi kynslóðir. Eyjafjörðurinn er ríkur af rituðum heimildum um huldu- og álfabyggðir, samskipti og sambýli fólks við þessa hulduheima.
Að sögn viðburðahaldara verða erindin á ráðstefnunni fjölbreytt og flutt frá ólíkum sjónarhornum sjáenda, fræðafólks, listafólks og almennings. Viðburðurinn verður haldinn laugardaginn 20. apríl í Hofi.
Viðburðurinn er ekki stakur heldur hefur þróast fjölbreytt samstarf við t.d. söfn og skóla í tengslum við hann. Minjasafnið, Listasafnið og Amtsbókasafnið styðja ráðstefnuna t.d. með framlagi til heimildasöfnunar, myndlistarsýningar, listasmiðja og þemadaga.
Menningarmarkmið landshlutans koma fram í Sóknaráætlun og mótast störf starfsfólks SSNE og áherslur Uppbyggingarsjóðs út frá þeim. Á næstu vikum fer af stað mótun nýrrar Sóknaráætlunar sem gildir í fimm ár fyrir landshlutann. Við hvetjum öll áhugasöm um að taka þátt í samtali og þróun markmiða fyrir landshlutann. Það er til dæmis hægt að gera með því að skrá sig í samráðsvettvang SSNE og í haust verða haldnar opnar vinnustofur sem verða auglýstar síðar á miðlum SSNE.