Ráðhúsið á Akureyri tekur grænt skref
Ráðhúsið á Akureyri tekur grænt skref
Það er góður gangur í innleiðingu Grænna skrefa SSNE þessi misserin, en Ráðhúsið á Akureyri tók við viðurkenningu fyrir að hafa stigið fyrsta græna skrefið af fimm í síðustu viku.
Meðal þess sem starfsfólk Ráðhússins hefur innleitt í sína starfsemi er að fasa út þær hreinlætis- og ræstivörur sem ekki eru umhverfisvottaðar, ákveðið verklag til að draga úr orkunotkun innan vinnustaðarins, komið upp áminningarlímmiðum um orkusparnað og tryggja að skýrt sé hvernig flokkun úrgangs skal háttað á vinnustaðnum.
Auk Ráðhússins hefur Amtsbókasafnið hafið vinnu við innleiðingu Grænna skrefa og vænta má þess að fleiri vinnustaðir innan sveitarfélagsins skrái sig brátt til leiks, og þannig vaxi verkefnið smátt og smátt inn á starfsstöðvar Akureyrarbæjar.
Verkefnastjórar SSNE þakka fyrir góðar móttökur og óska Akureyrarbæ innilega til hamingju með fyrsta skrefið og velfarnaðar í áframhaldandi innleiðingu skrefanna.