Pistill framkvæmdastjóra - september
Pistill framkvæmdastjóra - september
Nú þegar haustið hefur svo sannarlega læðst að okkur, er rétt að líta til baka yfir viðburðaríkan septembermánuð hjá SSNE. Það fór töluverður tími í undirbúning nýrrar Sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra en haldnar voru 13 vinnustofur um allan landshlutann þar sem íbúar gátu komið að vinnu við stefnumótunina. Afar góð þátttaka var í vinnustofunum en alls mættu rúmlega 200 þátttakendur til leiks. Næstu skref í þessari vinnu er aðkoma sveitarstjórnarfólks á Norðurlandi eystra en Haustþing SSNE sem haldið verður 4. október næstkomandi verður að miklu leiti helgað nýrri Sóknaráætlun. Í framhaldinu verður hún svo send til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og til umfjöllunar í sveitastjórnum landshlutans. Í gegnum Samráðsgátt gefst öllum áhugasömum tækifæri til að koma með ábendingar og athugasemdir, en samráðsferlið er okkur sérstaklega mikilvægt til að gera Sóknaráætlunina sem öflugasta.
Við erum e.t.v. ekki nógu dugleg að vekja athygli á því en alla daga erum við í allskonar ráðgjöf og fjölmörgum samtölum. Það á ekki síst við þegar styttist í umsóknarfresti hinna ýmsu sjóða Rannís og auðvitað Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra, en rétt er að vekja athygli á því að nú er opið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð allt til 16. október næstkomandi. Ég hvet ykkur eindregið til að skoða tækifærin sem þar eru til að fá stuðning við verkefni á sviði atvinnu og nýsköpunar og menningar og deila jafnframt upplýsingunum til aðila sem þið teljið að gætu haft áhuga og gagn af. Þá var í september auglýst eftir þátttakendum í STARTUP Storm sem fer af stað nú í október og fleira mætti auðvitað nefna.
Það er svo fjölmargt spennandi framundan í október og ber þar fyrst að nefna fyrrnefnt Haustþing SSNE og svo Hönnunarþing á Húsavík sem haldið er um næstu helgi. Þar er virkilega áhugaverð dagskrá þar sem lögð er sérstök áhersla á samspil hönnunar, tónlistar og nýsköpunar sem ég hvet ykkur öll til að taka þátt í. Þá verður Ungmennaþing SSNE haldið um miðjan mánuðinn þar sem ungmenni alls staðar að úr landshlutanum koma saman og ræða sameiginleg hagsmunamál.
Hvet ykkur annars öll að lokum til að taka ykkur stund til að njóta fallegu haustlitanna sem prýða nú okkar fallega landshluta. Takk fyrir góðan septembermánuð.