Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - október

Pistill framkvæmdastjóra - október

Október hefur verið viðburðaríkur hjá SSNE og fjöldi spennandi verkefna í gangi. Líklega verð ég að segja að hápunkturinn mánaðarins hafi verið árlegt haustþing SSNE sem að þessu sinni var haldið í Hofi á Akureyri, þar sem kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum á Norðurlandi eystra og aðrir gestir komu saman til að ræða, auk hefðbundinna aðalfundarstarfa, drög að nýrri Sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2025-2029. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram, eins og t.a.m. sú staðreynd að hjá SSNE eru veittir vel rúmlega 3000 tímar á ári í ráðgjöf við frumkvöðla og fyrirtæki í landshlutanum. Sömu helgi var glæsileg Hönnunarhátíð á Húsavík haldin en SSNE er samstarfsaðili í því verkefni, auk þess sem það er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Viku seinna var mikilvægum áfanga náð þegar samningar vegna svæðisbundinna farsældarráða með mennta- og barnamálaráðuneytinu voru undirritaðir. Þessir samningar byggja á þeirri stefnu að tryggja börnum og ungmennum stuðning í nánasta umhverfi þeirra, með áherslu á aukna samvinnu og aðgengi að þjónustu innan landshlutans. Auglýst hefur verið eftir verkefnastjóra farsældar hjá SSNE til tveggja ára og verður gengið frá ráðningu í byrjun nóvembermánaðar.

Í byrjun október fór Startup Stormur af stað á ný en í þetta skiptið eru það sjö frumkvöðlateymi sem taka þátt. Þessi viðskiptahraðall er samstarfsverkefni SSNE og SSNV og styður beint við þróun og vöxt nýrra fyrirtækja á Norðurlandi eystra og hefur jafnframt verið öflugur vettvangur fyrir bæði þekkingarmiðlun og tengslamyndun.

Talandi um þekkingarmiðlun og tengslamyndun þá stóðu SSNE og Háskólinn á Hólum fyrir vinnustofu í tengslum við Interreg NPA verkefnið „Nordic Bridge,“ á Akureyri. Vinnustofan þar sem voru einnig þátttakendur frá Noregi og Finnlandi, miðaði að því að efla tengsl milli landa í nýsköpun og menntamálum.

Þá hófust í mánuðinum vinnustofur um orkuskipti í Evrópuverkefninu RECET, en þær miða að því að Samhliða hefur SSNE boðið sveitarfélögum til þátttöku í lokuðum vinnustofum um orkuskipti með RECET sem miðar að aðgerðaráætlun í umhverfismálum. Í því samhengi langar mig líka að vekja sérstaka athygli á áhersluverkefninu LOFTUM – þar sem boðið er upp á fræðslu fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga á Norðurlandi eystra á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Það eru SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga hafa haft veg og vanda að því að framkvæma verkefnið, en LOFTUM skólinn er nú orðin aðgengilegur á heimasíðum bæði Símey og Þekkingarnetsins og vil ég hvetja ykkur eindregið til að skoða hann og auðvitað helst sitja námskeiðin.

Að lokum langar mig að nefna að umsóknarfrestur var í lok mánaðarins í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Allt eru þetta umsóknir í tengslum við verkefni sem miða að því að auka fjölbreytni í atvinnu og nýsköpun, menningu og á sviði umhverfismála í samræmi við áherslur Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Alls bárust 147 umsóknir um styrkir og ljóst að úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs á heilmikla vinnu fyrir höndum.

Eins og þið sjáið af þessari upptalningu hefur októbermánuður verið einstaklega fjölbreyttur og skapandi mánuður með fjölmörgum verkefnum sem öll stuðla að því að efla Norðurland eystra sem öflugan landshluta. Við höldum áfram þeirri vinnu næsta mánuðinn en fyrsta verkefni nóvembermánaðar verður að flytja skrifstofu SSNE á Akureyri úr Strandgötu og yfir í Skipagötu 9, 3. hæð. Við hlökkum mikið til að taka á móti ykkur þar á nýjum stað og minnum um leið á að við erum ávallt reiðubúin til skrafs og ráðagerða.

Getum við bætt síðuna?