Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - nóvember

Pistill framkvæmdastjóra - nóvember

Það hefur verið fjölmargt í gangi hjá SSNE nú í nóvembermánuði og fjölmargt spennandi sömuleiðis framundan.

Það urðu þó nokkrar breytingar hjá okkur í nóvember en í upphafi mánaðarins flutti skrifstofa SSNE á Akureyri úr Strandgötu yfir í Skipagötu 9, 3. hæð. Skrifstofan er opin alla virka daga og er alltaf heitt á könnunni.

Um miðjan mánuðinn var haldinn lokaviðburður Startup Storms þar sem þátttakendur í hraðlinum tóku kynntu hugmyndir sínar og verkefni fyrir viðburðargestum. Það var virkilega frábært að sjá þann drifkraft og sköpunargáfu sem býr í frumkvöðlum á svæðinu og hvernig nýsköpun getur orðið lykill að framtíðarvexti.

Veltek, heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands, hélt einnig vel sóttan viðburð, þar sem farið var yfir tækifæri í framtíðarlausnum á sviði heilbrigðis- og velferðartækni. Fundurinn, sem bar yfirskriftina „Hvar liggja tækifærin?“, sýndi fram á þann kraft og nýsköpun sem býr í svæðinu og hvernig við getum nýtt tæknina til að bæta þjónustu og lífsgæði íbúa en fulltrúar sveitarfélagsins Fjallabyggðar kynntu þar verkefnið Hátindur 60+ sem hefur aukið lífsgæði íbúa í sveitarfélaginu með nýtingu tækninnar.

Á þessu ári hefur mikil vinna farið fram við undirbúning Sóknaráætlunar Norðurlands eystra fyrir árin 2025–2029. Drögin eru nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda, og við hvetjum alla íbúa og hagsmunaaðila til að kynna sér efnið og taka virkan þátt í samráðsferlinu. Það er einlæg trú okkar að þátttaka ykkar sé lykillinn að því að skapa öfluga framtíðarsýn fyrir landshlutann.

Nú þegar styttist í jól er gleðilegt að sjá hvernig jólaljósin lýsa upp myrkrið og skapa hlýja stemningu í bæjum og byggðum þrátt fyrir á stundum nístingskulda. Hluti af því sem er gleðilegt að sjá vaxandi í landshlutanum er aukinn fjöldi fjölbreyttra jólamarkaða. Þannig má nefna bæði jólamarkaði sem einstaklingar og félagasamtök standa fyrir og jólamarkaði sem sveitarfélögin standa fyrir. Þrátt fyrir mikilvægi þess fyrir okkur sem búum utan höfuðborgarsvæðisins að hafa aukið aðgengi að vefverslunum, þá er verslun í heimabyggð jafnvel enn mikilvægari enda skapa þær verslanir og markaðir líf og stemmningu í samfélaginu okkar sem er eitthvað sem við viljum öll hafa. Ég hvet ykkur því til að versla í heimabyggð fyrir jólin. Hver kaup skipta máli og hjálpa okkur að skapa líf í heimabyggð.

Njótið aðventunnar!

Getum við bætt síðuna?