Loftum - Fræðsla um umhverfis og loftslagsmál
Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum meðal starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE.
Jafnframt að hrinda í framkvæmd fræðsluáætlun sem byggð er á fræðslugreiningu fyrrnefndra hópa, sem unnin var veturinn 2022-2023.
Framkvæmdaraðili: Þekkingarnet Þingeyinga er framkvæmdaraðili verkefnisins í samstarfi við Símey og SSNE.
Staða verkefnis: Rafrænn skóli hvar rafræn fræðsla um umhverfismál verður til staðar um lengri tíma og nýtist t.a.m. sem hluti af nýliðafræðslu starfsfólks og stjórnmálafólks sveitarfélaganna en einnig til upprifjunar og endurmenntunar fyrir þá sem fyrir eru.
2023: Fræðsluáætlun lokið, könnun sem var send starfsfólki sveitarfélaganna, kjörnum fulltrúa í landshlutanum og fulltrúum í fastanefndum til að kanna fræðsluþörf í málaflokknum. Fræðslugreiningin tók til loftslags- og umhverfismála og ýmissa afmarkaðra þátta í málaflokknum, t.d. skipulags-, orku- og sorpmála, veitna, loftgæða og frárennslis. Áfram var unnið að fræðslugreiningunni á fyrri hluta þessa árs og m.a. tekin nokkur rýnihópaviðtöl. Nú liggur fyrir áætlun um hvernig fræðslu í umhverfis- og loftlagsmálum til starfsmanna sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa á Norðurlandi eystra verður háttað núna á haustönn og til ársins 2025.
Ekki þarf að fjölyrða um að umhverfis- og loftlagsmál vaxa að umfangi ár frá ári. Um margt er þetta flókinn málaflokkur enda tekur hann til okkar umhverfis og daglegs lífs á einn eða annan hátt. Fyrir starfsfólk sveitarfélaga og kjörna fulltrúa getur verið flókið og vandkvæðum bundið að setja sig vel inn í þennan málaflokk og ná utan um alla anga hans. Einmitt þess vegna var LOFTUM verkefnið sett af stað.
Eftir því sem næst verður komist hefur sambærilegt verkefni ekki verið unnið áður fyrir hér á landi og því mun sú vitneskja og fróðleikur sem safnast á einn stað í verkefninu augljóslega nýtast öðrum í framhaldinu.
Hugtökin sem LOFTUM tekur til eru óteljandi mörg. Nefna má hringrásarhagkerfið, loftlagsmál, orku, náttúruvernd, úrgangsmál, veitur, mengunarvarnir, kolefnisjöfnun, vistvænan ferðamáta, kolefnisspor, kolefnisbókhald, loftlagsvá, gróðurhúsalofttegundir, matarsóun – og svo mætti lengi telja.
Upphæð 2025 úr Sóknaráætlun 1.545.500 kr.
Upphæð 2024 úr Sóknaráætlun 5.176.000 kr.
Upphæð 2023 úr Sóknaráætlun: 3.075.500 kr.
Upphæð 2022 úr Sóknaráætlun: 4.525.000 kr.