Pistill framkvæmdastjóra - Maí
Pistill framkvæmdastjóra - Maí
Það er alltaf jafn yndisleg tilfinning þegar byrjar að hlýna og við finnum hvernig sumarið tekur utan um okkur. Sólin skín og lýsir upp fallega landshlutann okkar og við tökum sumrinu sannarlega opnum örmum. Það er eins og samfélagið allt vakni til lífsins með náttúrunni og við fyllumst orku og gleði til að skapa ný tækifæri og stuðla að vexti sprota sem áður hafði verið plantað.
Það eru sannarlega forréttindi að skrifa þessu orð í sólinni og blíðunni og maður kemst ekki hjá því að verða ögn skáldlegur, sem er þó viðeigandi, enda er sumarið tíminn þar sem menningarlífið okkar er sannarlega í essinu sínu. Sveitarfélög og einstaklingar um allan landshlutann eru nú á fullu að skipuleggja bæjarhátíðir og skemmtanir sem sannarlega sýna hver á sinn hátt verðmæta menningu okkar og hefðir á hverjum stað. Þessar hátíðir, eins ólíkar og þær eru, skipta allar miklu máli fyrir íbúa sveitarfélaganna, en jafnaframt skapa þær svið fyrir fjölmargt listafólk sem fær þar tækifæri til að sýna listir sínar og gleðja um leið íbúa og gesti.
Eins og sjá má hér í fréttabréfinu þá hefur fjölmargt verið í gangi hjá SSNE í maímánuði. Við tókum þátt í Noregsferð Byggðastofnunar ásamt hinum landshlutasamtökunum og við tókum á móti góðum gestum frá Færeyjum og Lettlandi. Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2023-2036 fór til samþykktar hjá sveitarfélögunum á Norðurlandi og greining á kostum líforkuvers í Eyjafirði er á lokametrunum, svo fátt eitt sé nefnt.
Nú í lok maímánaðar flutti skrifstofa SSNE á Akureyri og erum við nú staðsett að Strandgötu 31, ásamt Markaðsstofu Norðurlands. Hér er um að ræða tímabundna aðstöðu að ræða meðan við finnum langtímahúsnæði fyrir skrifstofuna, en búast má við að við verðum þarna allavega út þetta ár. Sem fyrr eruð þið öll velkomin að heilsa upp á okkur. Það er alltaf heitt á könnunni og starfsfólk SSNE ávallt tilbúið til skrafs og ráðagerða.